05.08.1931
Efri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

5. mál, verðtollur

Jón Baldvinsson:

Fyrir þingi í vetur lá frv. frá skattamálan., sem skipuð hafði verið samkv. ályktunum frá þinginu, og þá voru þeir sammála framsóknarmenn og sjálfstæðismenn um skipun skattamála. Þeir lögðu þá fyrir þingið verðtollsfrv., þeir skattanefndarmenn Halldór Stefánsson og Magnús Guðmundsson. Þetta frv. var komið í gegnum Nd. og var komið í n. í Ed. Þar stóð svo málið, þegar kosningarnar fóru fram í vor, að það var ekki útrætt, en kom nokkuð til umr. á kosningafundum í deilum við okkur jafnaðarmenn. Við héldum þar fram, eins og reynslan hefir sýnt undanfarið, að þessir tveir flokkar eru sammála í höfuðatriðum í skattamálum um það að viðhalda tolli, sem jafnmikið kemur niður á fátæka og ríka, sem lagður er jafnmikið á nauðsynjar hins fátæka manns og hins efnaða manns, og sem er viðurkenndur af öllum, sem um þessi mál tala, að vera ranglátur tekjustofn. Ég man eftir því, að í kosningunum vissu framsóknarmenn ekki, hvert þeir áttu að komast, þegar þeim var sagt, að þeir væru sammála Íhaldinu í skattamálum. Þeir þóttust hafa sína eigin stefnu í þessu máli og þeir þóttust vilja afla tekna sem mest með beinum sköttum, en afnema tolla. Þetta tóku þeir upp í kosningunum og héldu fram á kosningafundum. Því var haldið fram af okkur Alþýðuflokksmönnum, að þetta skyti nokkuð skökku við allt starf framsóknarmanna á þingi og það, sem nefndarmaður þeirra eftir 1½ árs athugun hafði borið fram á þingi. Þeir, sem ég heyrði til, vildu láta það vera skoðun þessa eina manns úr Framsóknarflokknum, og jafnvel margir áfelldust hann fyrir það. Mér er kunnugt um það, að þessi maður, hv. 1. þm. N.-M. er svo góður framsóknarmaður og í svo nánu samstarfi við sinn flokk, að ekki kemur til mála annað en að flokkurinn sé honum sammála um till. hans í skattamálum. Það, sem flokksþing framsóknarmanna samþ. í skattamálum, átti að vera ný stefna, sem Framsókn tók upp. Þetta var það, sem þeir héldu fram um kosningarnar. Nú er komið á daginn, hve mikil alvara hefir fylgt þessari stefnuyfirlýsingu. Það sýndi sig strax, þegar stj. lagði fyrir þetta þing framlengingu á verðtolli, — verðtolli, sem ekki þarf að lýsa fyrir hv. dm., því þeir vita allir, að hann kemur mjög þungt niður á nauðsynjum manna. Yfirlýsingar frambjóðenda Framsóknarflokksins á framboðsfundum í vor, allar umr. þeirra í Tímanum og öðrum blöðum þeirra eru nú sýnilega ekki annað en tilraun til að blekkja landsmenn, og ef til vill hefir þeim að einhverju leyti tekizt það. En nú hefir framsóknarstj. gerzt forvígismaður um að halda uppi allra íhaldssömustu stefnu, sem til er í skattamálum. Það er vitanlega ekki annað en látalæti hjá Sjálfstæðisflokknum að vera að taka málið svo oft fyrir hér í hv. Ed., af því að þessir flokkar hafa ekki talazt við. Og nú, þegar sérstakt fundarhlé hefir verið gefið til þess að flokkarnir mættu talast við og semja um málið til fullnustu, þá sýnir sig, að Sjálfstæðisflokkurinn hefir gefið alveg frá sér að setja nokkrar kröfur opinberlega, því þær kröfur, sem hann gerði til stj., hefir hann sett upp til málamynda, að hafa eitthvert eftirlit með því, hvernig stj. verði ríkisfénu. Mér var ekki alveg ljóst af ræðu hv. 1. landsk., í hvaða formi hefði átt að framkvæma þessa till. Hann talaði um að hafa eftirlit með því, hvernig stj. eyddi fénu, og hann talaði um, að þetta mætti gera með fjárl. og með frv., sem liggur fyrir í Nd. Mig langar til að spyrja hv. 1. landsk., hvaða frv. það er, sem hann á við. (JónÞ: Það liggur hér í skúffunni). Hann svarar því máske seinna. Það mundi náttúrlega gleðja mig, ef hv. 1. landsk. í þessu efni eins og sumum öðrum málum gengi inn á till. okkar jafnaðarmanna. En ég vona, að hann segi þá ekki, að hann hafi fyrstur fundið upp þetta mál, ef það er það, sem ég ímynda mér, frv. til laga um jöfnunarsjóð ríkisins, sem flutt hefir verið af okkur jafnaðarmönnum í nokkur ár. Ennfremur sagði hv. 1. landsk., að samkomulag hefði orðið í stjórnarskrárn. Það væri fróðlegt að fá að vita það hjá hv. l. landsk., hvað það þýddi, að þeir hefðu orðið sammála um skipun n.; hvort það þýði, að þingið leggi einhvern grundvöll að starfi n., t. d. á svipaðan hátt og farið er fram á í till. „úr skúffunni“ hjá okkur jafnaðarmönnum, þar sem gert er ráð fyrir, að n. starfi á þeim grundvelli, að þingflokkarnir fái sæti eftir þeim atkv.—fjölda, sem þeir fá. Ég býst ekki við, að þeir vilji segja, þessir flokkar, hvað það er, sem þeir hafa orðið sammála um. En ég teldi æskilegt, að þeir skýrðu frá því á þingi, ef það er ekki neitt sérstakt launmál. En sem sagt er ekki frá mínu sjónarmiði neitt við það að athuga, þó að flokkarnir hafi orðið sammála um þessa skipun í skattamálum. Þetta er þeirra skoðun, sem þeir vilja hvorugur ganga frá. Ég býst ekki við, að Framsóknarflokkurinn reyni til þess, en ég veit reyndar ekki, hvað þeir eru kjarkgóðir að halda því fram, að þeir séu frjálslyndur flokkur í skattamálum. Um Sjálfstæðisflokkinn má það segja, að honum hefir aldrei dottið í hug að halda því fram, að hann væri frjálslyndur í skattamálum, og hann fylgir sinni gömlu stefnu. Framsóknarfl. gerir það líka, en hann þóttist ætla að bregða út af því í kosningunum í vor. Þessir flokkar eru alltaf sammála um það, hvernig eigi að taka skatta í ríkissjóð, og það er á þann hátt, sem verðtollsfrv. segir.

Ég vil að síðustu skýra frá því, af hverju ég mun greiða atkv. á móti þessu frv. Ég tel fyrst og fremst þá skattastefnu ranga, sem kemur fram í því, og í öðru lagi verð ég að álíta, að svo miklar tekjur séu áætlaðar ríkinu til handa í fjárl., að þær fullnægi með öllu þörfunum. Þar sem svo er um hnútana búið, álít ég það alveg meiningarlaust að fá stj. margar millj. króna í hendur til þess að valsa með og ráðstafa eftir eigin geðþótta.