05.08.1931
Efri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

5. mál, verðtollur

Jón Baldvinsson:

Hæstv. forsrh. gleymir því nú, að samkv. hans till. var það alls ekki ætlun hans að framlengja verðtollinn aðeins um eitt ár, heldur vildi hann fá framlenginguna til tveggja ára, en það er sameiningu hans við hv. 1. landsk. að þakka, að úr því varð eitt ár, og mega þeir fyrir mér hafa af því sameiginlegan heiður, og ef nokkuð mætti af þessu draga, er það það, að nú hefir Framsóknaríhaldið og Sjálfstæðisíhaldið runnið saman í eitt í þessum málum.

Hæstv. forsrh. sagði, að við Alþýðuflokksmenn lentum í sömu fordæmingunni og hann og hans flokkur, sökum þess að við hefðum skapað fordæmið og framlengt verðtollinn 1928. Þetta er ekki rétt hermt hjá hæstv. ráðh., enda hlýtur hann að rugla því saman, að við gengum inn á nokkra hækkun á vörutolli, en um verðtollinn skilaði ég engu nál., tók ekki til máls og greiddi ekki atkv. um hann. Hinsvegar er það að segja um samkomulagið um vörutollinn, að við Alþýðufl.menn fengum því til vegar komið, að kaffi- og sykurtollur var felldur niður, og nam það ekki lægri upphæð en hækkuninni nam. Þá náðist ennfremur samkomulag um það, að skipuð var sérstök mþn. til að athuga skattamálin og koma fram með till. í þeim, og var þá ekki hægt að ætla annað en að Framsókn vildi finna nýjan grundvöll til skattaálagninga, en nú virðist allt annað hljóð í strokknum. Um verðtollinn 1928 er ennfremur það að segja, að þá var engin andstaða hjá íhaldinu gegn því að samþ. framlenginguna, en nú er ekki hægt að bera á móti því, að ýmsir af fylgismönnum hv. l. landsk. hafa utan þings látið mjög hátt um það, að sá flokkur myndi ekki afhenda stj. þessar 2–3 millj. kr., sem verðtollurinn gefur af sér, til frjálsra umráða, og þess vegna hafa þessir samningar farið fram, sem vitanlegt er, að gerðir hafa verið. Aðstaðan hér í Ed. er þannig, að þeir 6 íhaldsþm., sem hér eiga sæti, hefðu auðveldlega getað fellt verðtollinn ásamt mér, því að ég hafði lýst yfir því, að ég væri honum andvígur. Hv. 1. landsk. hefir samt heykzt á því, og þykist nú hafa samið aðallega um mál okkar jafnaðarmanna, og ætti ég þá líklega að vera honum þakklátur fyrir það, — ef svo væri.

Viðvíkjandi ummælum hv. 1. landsk. um þá stefnu, sem við Alþýðuflokksmenn erum fylgjandi í skattamálum, vildi ég segja hv. þm., að það er alger misskilningur hjá honum, ef hann ímyndar sér, að hún sé eingöngu „socialistisk“, því að henni fylgja margir frjálslyndir flokkar í ýmsum löndum. Þeir hallast að því að taka sem mest af hinum ríku, en hlífa hinum, sem litlu hafa úr að spila. Hv. 1. landsk. orðaði þetta svo, að Alþýðufl. vildi helzt vernda eyðsluseggina, sem keyptu helzt óþarfar vörur, en hv. þm. veit það mætavel, hvaða till. við höfum komið fram með í skattamálunum, og gerir sig aðeins hlægilegan með slíkum fullyrðingum. Hann veit það mætavel, að við viljum, að fátækir menn, sem hafa þetta 4–5 þús. kr. í laun á ári, eigi að sleppa við skatt, sökum þess að þeim veitir ekki af því fé til að framfleyta fjölskyldu sinni. Við viljum setja fast tekjulágmark, sem á að vera skattfrjálst, og ef hv. þm. athugar málið betur, þá sér hann, að tilgangur okkar er alls ekki sá, að ívilna eyðsluseggjum, heldur hið mótsetta. Við viljum ívilna þeim mönnum, sem berjast í bökkum og veitir ekki af að hafa fé sitt til sinnar framfærslu, en taka aftur á móti sem mest af hátekjumönnunum. Við höfum sýnt það, að við viljum ekki ívilna eyðslumönnunum, sem helzt kaupa óþarfavörurnar, með tillögum okkar viðvíkjandi tóbakseinkasölunni, því að þar ætlumst við til, að ríkið geti náð inn hærri skatti af þessum mönnum en það gerir nú.

Það var í sjálfu sér ekkert skrítið, að hv. 1. landsk. og hæstv. ráðh. flyttu fram sama málið í öllum meginatriðum nú í ræðum sínum, og því er nú slegið endanlega föstu, að þessir menn eru sammála í skattamálunum. Þannig er það augljóst, að Framsókn stendur ekki við fögru loforðin, sem hún gaf kjósendum sínum við kosningarnar, enda ætti hún að hafa ógagn af því, er hún sýnir, hversu hrapallega hún svíkur stefnuskrá sína.