13.08.1931
Efri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

12. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Einar Árnason [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að tala langt mál út af síðari ræðu hv. 1. landsk., því að fátt nýtt kom fram í henni. Aðalkjarninn í ræðu hans var sá, að það væri rangt hjá mér, að formið á fjárlagafrv. væri sniðið eftir fjárl. Dana. Það. sem hv. þm. dró fram máli sínu til stuðnings, voru eingöngu smávægileg fyrirkomulagsatriði. Það er auðvitað ýmislegt í dönsku fjárl., sem við höfum ekki hér og getum ekki haft ennþá. T d. eru hér ennþá ýmsar stofnanir, sem ekki er búið að koma á sérstöku reikningshaldi hjá, og getur færsla fjárlagafrv. því ekki verið eins fullkomin hjá okkur og hjá Dönum, en formið er það sama samt sem áður. Ég vil benda hv. þm. á, að uppi í fjmrn. liggur danskt fjárlagafrv. og getur hann þar gengið úr skugga um þetta.

Hv. þm. talaði mikið um bókhald og bókfærslufyrirkomulag almennt, og var margt af því, er hann sagði, í sjálfu sér rétt, t. d. það, að bókfærslunni þyrfti að vera þann veg fyrir komið, að nógu auðvelt sé fyrir fjmrh. að vita hvenær sem er, hvernig sakir standa. Það mundi auðvitað vera sízt af öllu erfiðara, ef fullkomið bókhald er viðhaft, heldur þvert á móti. Þessi sköpun fullkominnar reikningsfærslu og ákvæði frv. um reikningsráð mundu létta fjmrh. það stórkostlega, að fylgjast vel með í ríkisbúskapnum.

Það er alkunn venja, að menn, sem vanir eru orðnir gömlu fyrirkomulagi, eiga erfitt með að sjá galla þess, og vilja því ekkert breyta því eða bæta það. Það er ekki fyrr en nýir menn koma til skjalanna, að gallar koma í ljós, sem menn komu ekki auga á áður, og úrelt fyrirkomulag er afnumið, en fullkomið sett í staðinn.

Hv. 1. landsk. talaði um rekstrarafgang þann, sem sýndur er í fjárlagafrv., og taldi hann svo villandi, að hann gæti jafnvel afvegaleitt hina greindustu menn. Það eru auðvitað alltaf margir menn, sem ekki geta áttað sig á réttri bókfærslu. En á þá að halda ófullkominni bókfærslu til þess eins, að einstakir menn, sem ekki kunna bókfærslu, geti áttað sig á henni? Ég verð að álíta, að það sé harla lítil ástæða til þess.

Hv. þm. mótmælti því, að brtt. sín væri bókfærslulega röng. Hún er þá a. m. k. bókfærslulega röng í eðli sínu, og er ekki mikill munur á því. Annars þýðir ekki að vera að deila um þetta við hv. þm. Við höldum að sjálfsögðu hvor sinni skoðun eftir sem áður.

Hv. 1. landsk. hefir tekið sér það hlutverk að halda í hið gamla og spyrna á móti nýjungunum á þessu sviði. Ég skal þó taka það fram, hv. þm. til verðugs lofs, að hann gerði nokkra bót á færslu landsreikninganna á sínum tíma. Hefði ég kosið, að hann hefði haldið lengra á þeirri braut, því að nóg verkefni voru fyrir hendi á þessu sviði. Það gerði hann því miður ekki, en samt sem áður á hann hrós skilið fyrir þær endurbætur, er hann gerði, og vil ég sízt taka þann heiður af hv. þm.