22.08.1931
Neðri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

12. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég sagði að vísu, að vel gæti komið fyrir, að jafnvel á næsta þingi þyrfti að breyta einhverju í þessum 1. En ég benti á það aftur, að það, sem ég byggist við, að helzt mundi þurfa að breyta, væru aðeins smáatriði. Ég endurtek það, sem ég sagði áður, að aths. hv. þm. hafa aðallega snúizt um smámuni og einkum um orðalagið á tveim stöðum í frv., sem ég skal fúslega viðurkenna, að er óheppilegt. Væri ekki komið fram á síðasta dag þingsins, þá myndi ég óska þess með hv. þm., að gerð væri breyt. á þessu orðalagi. En af því að nú er komið að þinglausnum, verður nú við svo búið að standa. Vegna þess, að á báðum þeim stöðum, er hv. þm. minntist á, er svo bersýnilegt, hvernig framkvæmdin hlýtur að verða, þá getur þetta orðalag ekki villt menn nema við yfirlestur. Þegar það er aðalatriðið, að orðalagið sé ekki sem nákvæmast á tveim eða þrem stöðum, þá verður ekki annað sagt en að málið sé í heild vel undirbúið.

Um misskilning á starfsskiptum yfirskoðunarmanna og framkvæmdavaldsins er það að segja, að ég hygg, að það sé svo í löggjöf annara þjóða um þessi efni, að endurskoðendur ríkisreikninganna séu taldir aðalmenn endurskoðunarinnar, rétt eins og hér er gert. Aftur á móti sé þeim sleppt við allt hið mikla verk, sem felst í færslum og athugun á öllum frumheimildum, og þurfi ekki að taka nema „stikpröver“, þegar þeim býður svo við að horfa. A. m. k. getur þetta ekki valdið neinum örðugleikum, þegar þeim er svo falið í einni gr. l. að láta aðra vinna þetta aðalverk, sem vitanlega kemur ekki til mála að leggja á þá sjálfa.

Um undirbúning þessa máls að öðru leyti vil ég segja það, að aðalmaðurinn um undirbúning þess er óvenjulega vel gefinn maður og vel að sér um þessa hluti, enda hefir hann á ýmsan hátt unnið frábærlega vel að þeim vandasömu og margháttuðu breyt., sem hér er um að ræða. Þetta kemur bezt í ljós í því, að öll aðalatriði í verki hans standa aths.laust. Þeim manni, sem að þessu hefir unnið, treysti ég í bezta lagi þeirra manna, sem ég þekki til slíkra hluta.