27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

1. mál, fjárlög 1932

Jörundur Brynjólfsson [óyfirl.]:

Ég held, að hv. þm. séu allt of kvíðandi fyrir komandi degi. — Ég flyt 3 brtt. við fjárlögin að þessu sinni og ætla að fara um þær fáeinum orðum.

1. brtt. er á þskj. 118, XVIII, um að Páli Guðmundssyni, bónda á Baugsstöðum, verði veittar 1500 kr. til þess að byggja sjóvarnargarð og gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir sandfok. Staðhættir eru þannig, að lágt, flatt land tekur við af sjónum, og í ókyrrð berst grjót og sandur upp á gróðurlendið. Þetta ágerist með ári hverju, og er landinu, sem mjög er nytjaríkt, auðn búin, ef þessu fær að fara fram. Þetta er ekki einungis skemmd á Baugsstaðalandi, heldur líka á nærliggjandi jörðum. Þar sem stór landspilda er nú í mikilli hættu, hefir bóndinn á Baugsstöðum ráðizt í að láta gera langan sjóvarnargarð. En þetta er talsvert dýrt fyrirtæki og ofvaxið einum manni. Hann hefir farið fram á lítilsháttar styrk af fé því, sem veitt er til sandgræðslu, en fékk daufar undirtektir hjá forráðamönnum þess, sem töldu þetta ekki beinlínis heyra undir sína starfsemi. En það er augljóst, að ekki er síður þörf á að hefta spillingu landsins þarna en víða annarsstaðar. Vona ég því, að hv. þdm. taki þessu máli vel.

2. brtt. er á sama þskj., XXVI, og er þar farið fram á, að veittar séu 5000 kr. til dýpkunar á innsigling leiðarinnar á Stokkseyrarsundi. Eins og kunnugt er, eru hafnleysur miklar á suðurströnd landsins, verstar eru þær á Eyrarbakka og Stokkseyri, og svo, að í ókyrrð brýtur þar á höfninni. Á síðari árum hafa verið gerðar nokkrar umbætur á Stokkseyrarhöfn, sprengdar klappir úr innsiglingu o. fl., og hefir komið í ljós, að það er til mikilla bóta. Samt eru grynningar á þessari leið, sem brýtur á, ef mikil ókyrrð er. Menn telja, að hægt sé að ráða bót á þessu, með ekki mjög miklum tilkostnaði.

Ég held, að það hafi verið næstliðinn vetur, að óveður skall á og voru menn á sjó bæði frá Stokkseyri og Eyrarbakka. Stokkseyringar komust í höfn heilu og höldnu, og þökkuðu líf sitt lendingarbótunum, en þó var mjög erfitt að lenda. Eyrbekkingar hleyptu aftur á móti til Vestmannaeyja, því að þeir trúðu ekki því, að svo miklar umbætur væru orðnar á Stokkseyrarhöfn, sem raun bar vitni.

3. brtt. er á sama þskj., XXX. Þar er lagt til, að Ólafur Guðmundsson, fyrrum ferjumaður á Þjórsá, fái 300 kr. lífeyri. Þessi maður er hinn merkasti í hvívetna og kunnur mörgum eldri mönnum fyrir dáðríkt æfistarf, prýðilega af hendi leyst. Hann stundaði ferjustarf við Þjórsá að Sandhólaferju frá því á unga aldri og þar til Þjórsá var brúuð. Umferð var þarna mikil og oft hættulegt að ferja. Sagt var, að dagur hefði ráðið að vetri, en sól að sumri, tímanum, sem ferjað var á.

Ólafur var hreystimenni mikið, og ganga ýmsar sagnir um afl hans, ætíð var hann kátur og hjálpsamur; sagt er, að þegar mikið lá á, hafi hann oft tekið klyfjar sína í hvora hönd, og látið upp, og er það ekki á færi annara en þeirra, sem vel eru hraustir.

Hann vann svo ósleitilega, að þegar brúin kom á Þjórsá, var heilsan biluð, hann hafði lítið borið úr býtum og var um margra ára skeið svo heilsuveill, að hann gat ekki unnið sér lífsviðurværi.

Eftir allmörg ár batnaði honum svo, að hann fór að geta unnið aftur. Stundaði hann þá sjóróðra á Stokkseyri og í Þorlákshöfn. Sú trú lá á, að þeim vegnaði betur, sem gæfi honum kost á skiprúmi, og sýnir það sem annað, hvernig hann naut hylli allra og vináttu.

Maður þessi er hinn mesti skýrleiksmaður og fróður vel og hefir gengið svo rösklega til verks og gert svo mörgum manni gott og gagn um dagana, að ég teldi vel farið, að Alþingi sýndi honum nokkurn viðurkenningarvott fyrir ósérplægni hans og drengskap, nú þegar heilsa hans er að þrotum komin. Ég veit vel, að 300 kr. eru dálítil fjárhæð, en ég þykist vita, að hv. d. sé þeim drengjum skipuð, að þeir telji þessar krónur ekki eftir, þegar svo stendur á sem hér.