22.07.1931
Neðri deild: 7. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

65. mál, lögreglusamþykktir utan kaupstaðanna

Flm. (Einar Arnórsson):

Frv. þetta lá fyrir síðasta þingi og var þá borið fram af allshn. Það þarf því eigi mikilla skýringa við í þetta skipti, enda er það stutt og laggott. Efni þess er það, að heimild sú, sem veitt er kaupstöðum með lögum nr. 1, 3. jan. 1890, skuli ná til allra hreppa á landinu. Það hefir sýnt sig, að í nágrenni Reykjavíkur og austur með vegum er þörf á, að settar verði reglur um greiðasölu o. fl. Frv. er upphaflega fram komið fyrir tilmæli og bendingar stórstúkunnar og lögreglumanna í Reykjavik, sem telja þörf á að setja slíkar reglur. Málið er áður komið frá nefnd, og sé ég því eigi ástæðu til að vera að tefja það með því að vísa því til nefndar af nýju.