24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

86. mál, embættiskostnaður sóknarpresta og aukaverk

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Fjhn. hefir orðið sammála um að flytja þetta frv. Það er samið af mþn. í kirkjumálum og var flutt af ríkisstj. á síðasta þingi. Nefndin var sammála um, að launakjör presta væru svo slæm, að á þeim yrði að ráða einhverja bót. En hinsvegar ætlast n. til. að þegar launalögin verða endurskoðuð, verði tekið tillit til þeirra endurbóta, sem felast í þessu frv., og þau annaðhvort numin úr gildi og launin ákveðin í heild, eða þá látin standa og launin ákveðin að því skapi lægri.

Nefndin áleit ennfremur, að borgun fyrir aukaverk væri óviðunandi eins og nú er og taldi rétt að ákveða hana með 10 ára gjaldskrá í senn. Þetta er að vísu ekki mikil bót, en þó nokkur. Hygg ég, að prestar myndu sætta sig við, þótt önnur frv. kirkjumálanefndar næðu ekki fram að ganga á þessu þingi, ef þetta verður samþ.