03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

45. mál, útflutningur á nýjum fisk

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Um flest, er snertir frv. á þskj. 45, get ég vísað til álits sjútvn. á þskj. 152. Þetta frv. lá fyrir síðasta þingi í líkum búningi og það hefir nú, en að vísu hefir því verið breytt nokkuð í áttina til þeirra till., sem þá voru gerðar af sjútvn., en aldrei komust undir umr. Það, sem skilur í raun og veru á milli n. og hv. flm., er það, að n. vill ekki hefja útflutning kælifiskjar í jafnstórum stíl og virðist vaka fyrir hv. flm., né heldur vill n. leggja til, að ráðizt verði í skipakaup til þessara framkvæmda. Það er kunnugt orðið, að síðan þetta frv. kom fram á síðasta þingi, hafa verið gerðar nokkrar tilraunir um útflutning á kældum fiski, og yfirleitt hafa þær tekizt fremur vel. En þess vegna hefir líka áhugi um það, að geta almennt komið á slíkum flutningum, orðið meiri og víðækari. Í ýmsum verstöðvum, sem áður höfðu enga viðleitni í þessa átt, er nú gerður nokkur viðbúnaður til þess að taka upp þannig lagaða verkun fiskjar og sölufyrirkomulag.

Ég þykist ekki þurfa að fara mörgum urðum um þetta mál. Það er kunnugt frá fyrra þingi, hefir líka auk þess verið rætt talsvert í blöðum og á fundum víðsvegar um land, svo að málið ætti að vera öllum að nokkru ljóst.

Ég sé þá heldur ekki ástæðu til að fara að gera sérstaka grein fyrir hverri einstakri till., sem fyrir liggur á þskj. 152. Nál. skýrir þær, og þær eru í raun og veru að mestu leyti sniðnar eftir þeim breyttu ástæðum, sem nú eru frá því að málið lá fyrir síðasta þingi.