24.02.1932
Neðri deild: 9. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Ég ætla að byrja með að svara fyrirspurn hv. 2. þm. Skagf.

Það stendur berum orðum í frv., að yfirlæknir fæðingardeildar landsspítalans verði aðalkennari ljósmæðræðanna, og í grg. frv. eru færð rök fyrir því, að betur fari á að fela honum þau störf en landlækni. Að vísu sparast ekki fé á þessu, því að yfirlæknir þarf kaup eins og landlæknir, og kaup hans þarf jafnvel að hækka úr því, sem landlæknir hafði, ef skólinn verður lengdur. En það tel ég sjálfsagt að gera. Um styttri námstíma en eitt ár getur ekki verið að ræða, hvorki vegna nemendanna né spítalans. Væri raunar full ástæða til að hafa námstímann lengri hér en annarsstaðar, af því að hér eru margfalt færri verkefni af að læra á sama tíma en kostur er á í öðrum löndum.

Viðvíkjandi því, að svo geti farið, að slíkur sjái sér ekki fært að fara að heiman til náms um svo langan tíma sem frv. gerir ráð fyrir, þá held ég, að svo sé um búið með frv., að til þess þurfi ekki að koma. Nemendunum eru ætluð það góð kjör. Ég ætla, að þær verði betur settar en áður með styrknum eingöngu, er þær verða vistaðar á landsspítalanum og hafa þar ekki eingöngu styrk fyrir fæðinu, heldur allt, sem þær þurfa. Og eru það betri kjör en nokkrum öðrum nemendum eru boðin. Ég held því, að það þurfi aldrei að verða vandkvæðum bundið að fá hæfar stúlkur til þess að læra þessi fræði, þar sem um jafnmikinn fjárhagslegan stuðning er að ræða.