20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í C-deild Alþingistíðinda. (11133)

248. mál, lögskráning íslenskra manna á erlend fiskiskip

Flm. (Pétur Ottesen):

Ég held, að andstaða hv. þm. Seyðf. gegn frv. þessu sé byggð á háskalegum misskilningi, enda var auðheyrt af ræðu hans, að honum er alls ekki ljóst, hvaða hætta er hér á ferðum fyrir stærsta atvinnuveg landsmanna.

Um marga útlendinga, er hingað koma með fiskiskip, er það vitað, að þá skortir alla þekkingu til veiðiskapar hér við land, en það er gefið, að með aðstoð þeirra innlendra manna, er þeir ráða til sín sem fiskiskipstjóra, verða þeir fljótir að afla sér þekkingar á aflasælustu fiskimiðum okkar. Auk þess skortir þessa útlendu menn þekkingu á að gera úr fiskinum söluhæfa markaðsvöru í samkeppni þeirra þjóða, sem lengst eru komnar í þessum efnum.

Nú færist erlenda útgerðin mjög í aukana. Með hverju ári bætast nýir menn og nýjar þjóðir í þann stóra hóp, er sendir fiskiflota sinn til veiða í kringum strendur landsins. Þessir menn eru að taka að sér það hlutverk, sem við höfum áður innt af hendi og afkoma landsins byggist á: að fylla þörf Miðjarðarhafslandanna fyrir saltfisk. Á þennan hátt skerða þeir og taka af okkur möguleika til betri og meiri afkomu í atvinnuvegum þjóðarinnar. Ennfremur mætti nefna það, sem okkur er ekki síður hættulegt í samkeppni þessara þjóða á saltfiskmarkaðinum, að Frakkar greiða há verðlaun fyrir þann fisk, sem veiddur er á þeirra skipum hér við land. Þá er og hitt kunnugt, að Spánverjar eru farnir að stunda fiskveiðar her. Það er kunnugt, að á bak við útgerð þeirra stendur spánska ríkið, og það ber mikið af þeim kostnaði, sem af þessari útgerð leiðir. Spánska útgerðin stendur því að þessu leyti miklu betur að vígi heldur en sú íslenzka, sem einskis slíks styrks nýtur, heldur þvert á móti hvíla á henni þungar skattaálögur. En það, sem styrkir íslenzku útgerðina og gerir henni kleift að bjóða þessum mikla aðstöðumun birginn, er kunnugleiki íslenzkra sjómanna á miðum og kunnátta þeirra í að verka saltfisk. Þessi aðstöðumunur er algerlega þurrkaður út, ef íslenzkir menn verða fengnir til að fylla þetta skarð, sem er hjá Spánverjum og öðrum útlendingum, sem fiskveiðar stunda hér við land. Þetta er sá hættulegi hlutur í þessu máli. Ég vil því segja það, að þær ástæður, sem fram hafa veri bornar gegn þessu frv., eru svo lítils virði í samanburði við þá hættu, sem hér liggur fólgin, að það er hrapallegur misskilningur að sporna á móti því, að lög slík sem þessi verði sett.

Þá má einnig benda á það, að atvinna fyrir íslenzka sjómenn á þessum skipum verður skammgóður vermir, því að þegar útlendingar eru búnir að afla sér nægrar þekkingar á verkun fiskjarins og eru farnir að þekkja miðin, þá þurfa þeir ekki lengur á íslenzkum mönnum að halda, og þar með er þetta atvinnuspursmál úr sögunni. En hinsvegar eru þeir búnir að greiða svo götu útlendinganna, að þeir verða okkur miklu hættulegri keppinautar, og þar með stórum rýrt öryggi útgerðarinnar, og atvinnumöguleikar þeirra manna, sem þann atvinnuveg stunda, skertir að sama skapi í framtíðinni. Það má því segja, að ef Alþingi vill ekki taka hér í taumana og gæta varúðar, þá er hér stefnt í mjög óvænt efni, og af því getur mikil hætta stafað.

Hv. þm. sagði, að þetta væri einn þátturinn í þeirri stefnu að lækka kaupgjaldið. Ég get ekki séð, við hvaða rök það hefir að styðjast, því að íslenzkir hásetar á þessum erlendu skipum fá, að því er sagt er, lægra kaup en á íslenzkum skipum. Eins og ég hefi áður sagt, þá megum við ekki líta eingöngu á stundarhagsmunina; við verðum líka að líta á framtíðina og þá hagsmuni, sem hér er teflt í voða.

Hv. þm. Seyðf. helt því fram, að þótt ákvæði þessa frv. yrðu lögfest, þá gætu útlendingar samt auðveldlega fengið íslenzka menn á skip sín með því að fara fyrst með þá til útlanda og lögskrá þá þar. Það kann að vera, að þessi möguleiki sé til, en þessu fylgir mikill kostnaður og fyrirhöfn, og auk þess veit ég ekki, hversu auðvelt yrði að koma þessu í kring. Það er kunnugt, að stéttarfélögin úti í löndum eru mjög sterk, svo að það gætu orðið erfiðleikar, ef ekki ómögulegt að fá þar annara þjóða menn lögskráða á skip. (Einhver: Englendingar þekkja miðin hér). Að vísu þekkja þeir þau nokkuð, en þeirra veiðiskapur er aðallega bundinn við að veiða í ís, og þeir sækjast mest eftir að fá kola og annan flatfisk, svo að þeir leggja sig yfirleitt eftir að veiða á öðrum miðum en þeim, sem þorskur veiðist aðallega á á vetrarvertíðinni. Það er því ekkert svipaðan kunnugleika að sækja til Englendinga í þessu efni eins og til ísl. sjómanna.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þá almennu stefnu, sem hv. þm. sagði, að kæmi fram á þessu þingi. Ég held, að það sé sú almenna stefna, sem hann á við, að hér hafi komið fram, en sem þingið hefir því miður sýnt allt of mikið tómlæti, nefnilega sú stefna, að stuðla sem bezt að því, að landsmenn búi sem mest að sínu, að ekki sé verið að kaupa það frá útlöndum, sem framleiða má nægtanóg af í landinu. Það er hinn bezti stuðningur við atvinnuvegina, jafnframt því, sem og líka felast í því að öðru leyti hyggindi, sem í hag koma. Hv. þm. Seyðf. hefir því miður barizt af alefli gegn þessari þjóðnytjastefnu.

Ég vænti, að þetta frv. fái að fara til nefndar og að þar verði rækilega athugað, hvernig heppilegast verði að haga framkvæmdum í þessu efni, og er þess að vænta, að sjútvn. hraði afgreiðslu málsins.