06.05.1932
Neðri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1596 í C-deild Alþingistíðinda. (11289)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. 2. minni hl. (Héðinn Valdimarsson):

Stjórnmálaflokkarnir hér, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkarnir, hafa farið svo með kjördæmamálið, að flestir góðir menn úti um land hafa mestu skömm á báðum. Er það langt síðan Alþýðufl. kom fram með till. um réttlátari kjördæmaskipun, þar sem landið væri allt gert að einu kjördæmi, þótt hann féllist reyndar á, að hægt væri að fara aðra leið. Þá stóð svo á fyrir Sjálfstæðisfl., að hann þóttist geta grætt á þáv. kjördæmaskipun, sem gaf honum möguleika til að halda þeim meiri hl., sem hann hafði þá á þingi. Þegar þál. kom um breyt. á þessu í Nd. 1930, reis formaður flokksins upp á móti því. Þá bar ekki eins mikið á Framsókn, því að það leit þá ekki út fyrir, að hún gæti fengið meiri hl. Þó kom þar, að Jónas Jónsson, sem þá réð miklu í flokknum, gekk inn á þá braut að vilja ekki réttláta kjördæmaskipun. í fyrra, þegar Framsókn þóttist hafa möguleika til að vinna á í minnstu kjördæmunum, reis hún á móti því, að kjördæmaskipuninni yrði breytt, og hélt því til streitu með allskonar lygum úti um land um Reykjavíkurvald o. s. frv. Nú, svo kom þar, að Framsókn sá, að þýðingarlaust var að streitast á móti broddunum í þessu efni. Kröfurnar voru orðnar svo sterkar hjá kjósendum, að undan þeim varð að láta fyrr eða síðar. Ein þeirra er um það að fjölga þm. Reykv. upp í 8. Í nál. kemur það fram, að þeir þykjast vilja samþ. þessa till., en hún er enganveginn sú endanlega. Fékkst seint álit kjördæman. um þetta mál, og er það í rauninni ekki enn komið fram af hálfu Framsóknar. En Sjálfstæðisfl. hefir líka hringsnúizt í þessu máli, því að þegar hann sá, að hann gat ekki haldið litlu kjördæmunum, gekk hann inn á þá kröfu jafnaðarmanna, að þingmannatala ætti að vera í samræmi við kjósendatölu. Á síðustu þingmálafundum úti um land voru frambjóðendur sjálfstæðismanna sammála jafnaðarmönnum um það, að ef landið væri ekki gert að 1 kjördæmi, þá ætti það a. m. k. að vera 5–7.

Þó að sjálfstæðismenn töpuðu fylgi yfir til Framsóknar, var samt gefið, að Framsókn hefði ekki meiri hl. í báðum deildum, því að engin von var til þess, að hún myndi í náinni framtíð vinna meiri hl. í Ed.; svo illar kosningar var tæpast hægt að hugsa sér. Þegar svo var komið, hefði mátt ætla, að sjálfstæðismenn héldu fast við kröfur sínar og létu til skarar skríða. En í staðinn fyrir það að greiða atkv. á móti fjárl., eins og við jafnaðarmenn, gengu þeir með Framsókn, bæði um fjárl. og um kosningu nefndarinnar. Við kusum að vísu mann í n., þegar ákveðið var, að hún skyldi kosin, en það var aðeins til þess að fylgjast með gangi málsins.

Sjálfstæðisfl. hefir þannig alveg brugðizt kjósendum í þessu máli, og nú gengur hann framhjá þeim grundvelli, sem upphaflega var barizt á, að flokkarnir fengju þingmannatölu í samræmi við kjósendafjölda. Þarna gengur flokkurinn inn á það að halda gömlu kjördæmaskipuninni, sem margir af mönnum hans eru búnir að lýsa yfir, að sé ófullnægjandi. Auk þess ganga þeir inn á þá braut að takmarka það, að réttlæti geti átt sér stað í þessu, því að það getur ekki orðið með því fyrirkomulagi, sem sjálfstæðismenn hugsa sér. Ég sé því ekki, á hvorn flokkinn ber meira að deila. Báðir hafa svikið stefnuskrá sína. Framsókn með því að breyta ekki til, eins og hún lofaði, en Sjálfstæðisfl. með því að koma aftur upp með litlu kjördæmin. Ef þetta mál verður leyst nú, þá verður það ekki á þann hátt, sem kjósendur uni við. Hv. 2. þm. Skagf. var að pexa við hv. þm. Barð. um þetta. Tók ég oft eftir því, að hann sló fram þeirri spurningu, hvort Framsókn væri ekki gert til hæfis með þessum boðum sjálfstæðismanna. Eins og þeir væru kosnir til þess að gera Framsókn til hæfis. Þeirra er að fylgja fram sínum málum. En að vera að koma með stöðug tilboð við Framsókn og fá ekkert annað en hryggbrot, er lítil upphefð fyrir flokkinn.

Ég kem hér með brtt., sem formaður flokks okkar bar fram við 3. umr. í Ed. Veit ég, að þetta mál verður ekki leyst á öðrum grundvelli en þeim, sem hér ræðir um, að landið verði allt eitt kjördæmi. Að vísu er það möguleiki að hafa fá og stór kjördæmi, eins og varatill. fjallar um, en það kemur þó ekki eins réttlátlega niður, enda er þjóðin ekki svo stór, að ástæða sé til að skipta henni í marga hluta til kosninga. — Annars leiðist mér að tala um málið á þessu stigi, og er því bezt að hætta hér.