15.03.1932
Efri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í C-deild Alþingistíðinda. (11348)

148. mál, bann hjá opinberum starfsmönnum að taka umboðslaun

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þegar frv. um tóbakseinkasölu ríkisins var fyrir síðasta þingi, þá kom hv. 1. landsk. með till. um að banna forstöðumanni og starfsmönnum þessa fyrirtækis að taka umboðslaun eða þóknun í nokkurri mynd. Að sjálfsögðu var ekki hægt að hafa á móti því, að slíkt ætti ekki að eiga sér stað. Hinsvegar þótti mér óviðkunnanlegt að setja þetta inn í sérstök lög um fyrirtæki ríkisins. Þar sem vitanlegt er, að ríkið rekur margvísleg störf, þar sem svipað stendur á, þá gat samþykkt slíks ákvæðis um þetta eina fyrirtæki ekki skoðazt annað en tortryggni gagnvart starfsmönnum þess. Ég samdi því frv. á sumarþinginu, þar sem opinberum starfsmönnum var bannað að taka umboðslaun, og þetta frv., sem nú er borið fram, er að mestu leyti shlj. því.

Þetta frv. er það víðtækt, að það nær til allra starfsmanna ríkisins, þar sem þetta gæti komið til greina. Það tekur til forstöðumanns og starfsmanna vegamála, póstmála, símamála, ríkisverzlana og hverskonar starfsemi, sem rekin er fyrir ríkissjóð, einnig banka og sparisjóða, forstöðumanna og starfsmanna bæjar- og sveitarfélaga, borgarstjóra í Reykjavík, bæjarstjóra í öðrum kaupstöðum og oddvita hreppsnefnda og sýslunefnda. Einnig eiga þessi ákvæði að taka til forstöðumanna og starfsmanna samvinnufélaga.

Það eina, sem eftir er þá skilið, eru hlutafélög, og var það gert með vilja, því að hitt, sem tekið er, eru þau almennu fyrirtæki, sem að vissu leyti eru opinber, eins og samvinnufélög og svo ríkisstofnanirnar.

Vel getur verið, að eitthvað það sé í frv., sem menn vilja breyta, og ég hefi ekkert á móti því, en mér virðist, að það, sem farið er fram á í frv., sé réttlæti, sem allir hv. þm. hljóti að óska að sé fullnægt.

Það er aðeins eitt, sem var í frv. í sumar, en nú er dregið undan, og það er Síldareinkasalan, því að það eru engin líkindi til, að hún starfi áfram, heldur lítur út fyrir, að það frv., sem nú liggur hér fyrir um upplausn Síldareinkasölunnar, verði samþ.

Frv. var nokkuð rætt á síðasta þingi og var vísað til n., en kom þaðan ekki aftur. Ég legg til, að frv. verði nú vísað til sömu n. og þá, sem er allshn.

Sé ég svo ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir frv., en vil aðeins vísa til þeirra umr., sem um málið voru á sumarþinginu.