07.04.1932
Efri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1639 í C-deild Alþingistíðinda. (11352)

148. mál, bann hjá opinberum starfsmönnum að taka umboðslaun

Frsm. (Jón Jónsson):

Allshn. hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta frv. sé réttmætt í öllum aðalatriðum. Er ótilhlýðilegt, að opinberir starfsmenn taki umboðslaun af viðskiptamönnum þeirra stofnana, sem þeir vinna fyrir. Ræðir aðalgr. frv. um þetta, og hefir n. því ekkert við hana að athuga, en lítur þó svo á, að þótt bannað sé að taka umboðslaun af viðskiptum vegna stofnananna sjálfra, nái þetta ekki til annara viðskipta, sem stofnununum eru óviðkomandi og rekin prívat af starfsmönnum stofnananna eða forstjórum þeirra. Að því er snertir starfsmenn samvinnufélaga, þá gat n. ekki fallizt á, að rétt væri að banna það með lögum, að starfsmenn þeirra tækju umboðslaun. Samvinnufélögin eru einkafyrirtæki og eðlilegast, að þau ráði sjálf, hvernig þau haga launagreiðslum starfsmanna sinna, og ástæðulaust, að löggjafarvaldið fari að blanda sér inn í þetta. Samkv. þessu leggur n. því til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., að 2. mgr. l. gr. falli niður.