07.04.1932
Efri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í C-deild Alþingistíðinda. (11355)

148. mál, bann hjá opinberum starfsmönnum að taka umboðslaun

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég vil ekki kannast við það, að samvinnufélögin séu opinberar stofnanir, því að þau byggjast eingöngu á frjálsum samtökum félagsmanna þeirra. Og að því er skattalöggjöfina snertir, er fjarri því, að þar sé um nein sérstök fríðindi að ræða samvinnufélögunum til handa.

Um það, að ekki hafi verið rétt af mér að taka það fram, að ákvæði laganna tækju eingöngu til viðskipta vegna stofnananna sjálfra, má segja, að það var að vísu óþarft að taka þetta fram að því er snertir forstjóra stofnananna, því að það er ekki gert ráð fyrir, að þeir fari jafnframt með viðskipti fyrir sjálfa sig, en þetta er hinsvegar hugsanlegt um almenna starfsmenn stofnananna, t. d. að þeir jafnframt starfi við sparisjóð eða banka. Get ég ekki ímyndað mér, að hv. 2. landsk. vilji láta fara svo strangt í ákvæði frv. að banna þessum mönnum að taka þóknun.