06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1648 í C-deild Alþingistíðinda. (11378)

300. mál, kosning til Alþingis

Flm. (Jón Þorláksson):

Hv. 3. landsk. taldi, að í frv. þessu kæmi fram bráðlæti af hálfu okkar flm. um að breyta kjördæmaskipuninni. Það er nú leiðinlegt að heyra þetta koma fram hjá jafnskýrum manni og hv. 3. landsk. er. Hér er um enga breyt. á kjördæmaskipun að ræða, heldur aðeins á kosningaaðferð. Er gagnlegt að hafa það í huga í umr. um þetta mál, að kjördæmaskipun er eitt, kosningaaðferð annað. Hann talaði svo á móti þessu frv. og taldi, að sú regla, sem þar er lögð til, væri lakari en ef um hlutfallskosningu væri að ræða. Þetta er vitanlega engin hlutfallskosning, og þarf hv. 2. þm. Eyf. engar áhyggjur að bera út af árekstri við stjskr. í þessu frv. Þetta er eingöngu meirihlutakosning.

Það er annars afareinkennilegt, að í kosningalögunum er það hvergi tekið fram, að sá, eða þeir, ef um tvímennings- kjördæmi er að ræða, sé kosinn, sem flest atkv. fær. Er það líkleg tilgáta, að þeim; er samdi kosningalögin, hafi þótt þetta svo sjálfsagt, að óþarfi væri að taka það fram. Úr þessu er nú bætt í frv. okkar. Þar er það tekið fram, að sá sé kosinn í einmenningskjördæmi, sem flest fær atkv., og í tvímenningskjördæmi sá, sem fær flest atkv., og líka sá, er fær næstflest atkv. En í kosningal. eru þar á móti ákvæði um það, hversu fara skuli að, ef atkv. reynast jöfn. Þurfti því ekki að taka það upp í þetta frv. Jafnframt þótti okkur það óeðlilegt, að menn í sumum kjördæmum hefðu tvö atkv., en ekki nema eitt í öðrum. Við vildum því afnema þá tilhögun og tryggja þar með réttláta skipun á kosningalögunum. Hinu sama er ekki hægt að ná á annan hátt, og það er ekkert bráðlæti í því fólgið, þótt það sé lagfært, sem hægt er, þegar komið hefir verið auga á það.

Út af fyrirspurn hv. 2. landsk. um það, hvort við sjálfstæðismenn mundum sætta okkur við þær einar breyt. á kosningal., sem frv. þetta gerir ráð fyrir, þá get ég svarað með því að vísa til grg. þeirrar, er frv. fylgir. Þar er gerð grein fyrir því, að frv. þetta sé fram komið vegna þess, að alltaf má gera ráð fyrir því, að fram fari einar kosningar með núv. fyrirkomulagi. Með tilliti til þessara einu kosninga, og einungis vegna þess er frv. þetta borið fram. Nú er það von okkar, að frv. það til stjórnskipunarlaga, sem við höfum borið fram, verði samþ. En þá þarf að tryggja það, að kosningar þær, sem fram fara til næsta þings, takist svo, að sá meiri hl., sem þá verður, verði stjórnarskrárbreytingunni fylgjandi. Nú gerði hv. 2. landsk. grein fyrir því, að frv. þetta, ef að l. verður, myndi verða til að auka þann flokk, sem með honum stendur um þetta mál. Hv. þm. ætti því að taka þessu frv. vel, og ég get fullvissað hann um það, að ekki er þörf á neinni tortryggni um það, að sjálfstæðismenn láti sér nægja þetta sem endanlega umbót í kjördæmamálinu. Þetta er eingöngu miðað við einar kosningar, sem hvernig sem allt fer, óhjákvæmilega verða að fara eftir núgildandi stjórnarskrá. Nú fer það að vísu eftir því, hvaða afgreiðslu stjórnarskrárbreytingin endanlega fær, hvaða áherzlu þarf á þetta að leggja, um að það gangi fram. Er því rétt að vísa því til stjórnarskrárnefndar.