23.05.1932
Neðri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2392 í B-deild Alþingistíðinda. (11455)

Afgreiðsla þingmála

Bjarni Ásgeirsson:

Ég vildi aðeins minna hv. þd. á, ef hún er búin að gleyma því, að snemma á þingi bar ég ásamt nokkrum hv. þdm, fram frv. um ölgerð og sölu öls. Það kom til umr. 18. marz; ég reifaði málið lítilsháttar, en svo risu upp þrír andstæðingar og lögðust mjög á móti því. Þegar svo komið var að því, að ég tæki aftur til máls, var umr. frestað og málið tekið af dagskrá. Ég bjóst við, að málið kæmi á dagskrá næstu daga, og beið lengi þolinmóður. En þegar mánuður var liðinn án þess málið sæist á dagskrá, spurði ég hæstv. forseta, hvenær hann ætlaði að taka það á dagskrá. En það bar engan árangur, og nú er liðinn annar mánuður og málið ekki tekið fyrir aftur. Og þó ég sé að rifja þetta upp, þá er ég ekki þar með að biðja, að málið komi á dagskrá úr þessu, enda er það ekki til neins. En ég verð mjög að átelja hæstv. forseta fyrir meðferð málsins, enda fæ ég ekki betur séð en að hann hafi misbeitt valdi sínu sem forseti til þess að fá mál út á þennan hátt.

Svo er það annað mál, um breyt. á jarðræktarlögunum, sem legið hefir hér fyrir þing eftir þing og borið er fram af Búnaðarfél. Ísl. Þetta mál komst til n., og hefir hún afgr. það frá sér fyrir mánuði síðan, en hæstv. forseti aldrei tekið það á dagskrá. Allan þennan tíma hafa verið mjög ómerkileg mál á dagskrá, svo ætla má, að örlög þess verði hin sömu: að hæstv. forseta takist að eyðileggja það á einhvern hatt. nú vil ég krefjast þess, að hæstv. forseti taki þetta mál á dagskrá, þó að áliðið sé þings. Er þá ekki örvænt um, að sjást megi, hver aðstaða hv. þm. er, og höfuðatriði, að það komi fram í þingtíðindunum.