01.03.1932
Neðri deild: 17. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2401 í B-deild Alþingistíðinda. (11469)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég mun reyna að halda mér við efnið og vísa til hæstv. atvmrh. um þau mál, er koma hans ráðuneyti við.

Það stendur alls ekki í valdi stj., hvaða verð er á afurðunum. Það gæti miklu fremur staðið í valdi verkamanna og atv.rekenda. Ég býst við, að hv. þm. Seyðf. segi, að bæta megi fisksöluna með því að skipuleggja hana. Það má vafalaust verjast nokkuð með betri samtökum útflytjenda. En þó er engin von um að fá líkt því sama verð fyrir fiskinn og var 1929, hvaða aðferð sem höfð er um söluna. Slíkt verðfall, sem orðið hefir á aðalframleiðsluvörum þeirra landa, er einkum kaupa af okkur fiskinn, girðir vitanlega fyrir, að þau lönd geti keypt aðfluttar vörur með sama verði og áður. T. d. flutti Spánn út vín 1930 fyrir 140 millj. peseta, en 1931 fyrir 60 millj., og þó meira að magninu til en árið áður. Þjóðir, sem verða fyrir slíku verðfalli, geta ekki goldið hátt verð fyrir erlenda vöru.

Dýrtíðin stafar ekki af gengisfallinu. Núverandi ástand batnar ekki fyrr en allar vörur hækka í verði. Það má e. t. v. reyna að koma því inn hjá almenningi, að þessi kenning sé sett fram til að lækka kaupið, en hækka allt annað. En slíkar fullyrðingar eru aðeins lækning við pólitískri kreppu einstakra flokka.

Um atvinnuleysisstyrkina er það að segja, að reynt hefir verið að fara í því efni eftir fyrirmælum þingsins, en lítið verið borgað út ennþá. Má nefna, að Seyðisfjörður hefir ekki enn varið styrk þeim, er hann fékk, til atvinnubóta, heldur lagt hann á vöxtu og ætlar að geyma unz atvinnuleysi byrjar aftur. Það skal játað, að styrkir þessir eru hégómaráðstafanir í samanburði við 11 millj. frv., og þó að ég nefndi t. d. 1 millj. í nýjum álögum, þá geta tæplega sömu mennirnir, sem heimtuðu 11 millj., talað um, að ég geri tillögur um álögur, sem auki kreppuna.

Það virðist svo sem sú skoðun sé almenn, að kreppan sé alstaðar nema hjá ríkissjóði. Hann á að geta bjargað öllum, helzt án þess að gera nokkrar kreppuráðstafanir um fjáröflun til að standast margháttaða tekjurýrnun.

Um landbúnaðarstyrkina er það að segja, að þar hefi ég talið mér skylt að fara eftir gildandi lögum. T. d. eru gjöld samkv. jarðræktarlögunum vitanlega lögbundin. Ég trúi því varla, að hv. þm. sé alvara með það, að Búnaðarbankinn komi ekki út því fé, sem hann hefir til ráðstöfunar.

Smábátaútveginn væri auðvitað æskilegt að geta styrkt af ríkisfé. En úr verðfalli fiskjarins getur ríkið ekki bætt. En sannleikurinn er sá, að kreppan læknast ekki fyrr en framleiðslukostnaður og vöruverð jafnast aftur og allt hækkar í verði, sem við þurfum að kaupa og selja. E. t. v. er veiðimannlegra að orða þetta þannig, að á þurfi að standast kostnaður og kaupgeta. Hjá þessu verður ekki komizt.