01.03.1932
Neðri deild: 17. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2405 í B-deild Alþingistíðinda. (11471)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. Seyðf. sagði, að ég hefði sagt, að framleiðslukostnaður ætti að lækka með því að kaupgjald lækkaði. Ég sagði allur framleiðslukostnaður, og hann er meiri en kaupgjald. Fyrr en framleiðslukostnaður minnkar og vöruverð hækkar léttir ekki kreppunni. Hvað helzt eigi að lækka í framleiðslukostnaðinum, ætla ég ekki að ræða hér. Baráttan um það verður háð á öðrum vettvangi. En þetta tvennt, framleiðslukostnaður og vöruverð, þarf að mætast og gerir það einhverntíma, hversu mjög sem menn berjast á móti því sér til tjóns.

Hv. þm. sagði, að kreppan stafaði af því, að kaupgetan væri minni en framleiðslan, en játaði þó, eins og rétt er, að við Íslendingar réðum ekki við þetta. Ég endaði einnig fyrri ræðu mína á því, að jafnvægi þyrfti að komast á. Þó getur komið fyrir, að kaupgetan verði of mikil, eins og t. d. síðastl. ár, Þá var kaupgetan meiri en framleiðslan leyfði. Þótt verzlunarjöfnuður væri hagstæður, þá var greiðslujöfnuður það ekki, vegna þess að of mikið var notað af erlendum vörum. Þótt það sé rétt, að kaupgetan eigi að svara til framleiðslunnar, eru þó hlutföllin ekki ávallt hin sömu. Þótt kaupgeta breytist, eru sumar vörur jafnmikið eða lítið notaðar eftir sem áður. Svo er t. d. um kornvörur, að þótt kaupgeta vaxi móts við framleiðsumagn, kaupir enginn meira brauð en áður.

Þá sagði hv. þm. Seyðf., að stj. mætti fyrirverða sig fyrir brigðmæli viðvíkjandi atvinnuleysisstyrknum. Ég játa það, að stj. hefir þar að ýmsu leyti gengið á móti þeim kröfum, sem fram hafa komið. En hvort er þjóðarhagsmununum skaðlegra að reyna að tefja fyrir einhverju af þessum kröfum en að fara um allar sveitir og heimta allt og ekkert og gera sem stærstar kröfur, það skal ég láta ósagt. Ef jafnaðarmenn væru við völd á svona tímum, þá myndu þeir reyna að draga úr, en ekki auka viðleitni fólks til þess að heimta slík útgjöld af ríkinu umfram það, sem bráðnauðsynlegt er. Það verður að varast eins og unnt er að hlaða þungum byrðum á komandi ár. Mér er kunnugt um það, að jafnaðarmannastjórnirnar á Norðurlöndum hafa á krepputímum reynt að draga úr slíkum kröfum, því að ef ekki væri aðhald hjá ríkisstjórnunum, þá væri hætt við, að kröfur um atvinnubætur lengdu kreppuna úr öllu hofi. Sænski fjmrh. Thorsson sagði um kreppuna 1920–1922, að menn mættu þá ekki gera hærri kröfur en svo, að aðeins nægði til að sál og líkami hengi saman. Þetta sagði jafnaðarmannaráðherra.

Ég vil svo að lokum segja það, að ég hefi lesið 11 millj. frv., sem hv. þm. benti mér á. Hann sagði, að þá mundi ég hætta að kíma. Það er alveg rétt, mér var enginn hlátur í hug, þegar ég hafði lesið þetta kreppufrv. hans.

Á 27. fundi í Nd., 12. marz, utan dagskrár, mælti.