04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (11495)

Stjórnarskipti

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 2. landsk. minntist á þá sakamálskæru, sem hv. fyrirrennari minn kvað hafa sett á mig. Ég hefi ekkert um þetta heyrt frá hlutaðeigandi stjórnarvöldum, svo að ég veit ekki, hvort það er satt, en ég skal ganga út frá því, að það sé satt, og vil ég þá segja það um þetta mál, að ég bið óhræddur eftir úrslitum þess. Hv. 3. þm. Reykv. var að tala um, að ég mundi taka þessa kæru aftur, en ég get sagt honum það, að það hefir mér aldrei dottið í hug. Ég mun fyrst bíða eftir því, að ég fái að vita, hvað hér er um að ræða. Ef hv. 3. þm. Reykv. er hræddur um, að ég muni nota mitt vald til að afturkalla kæruna þegar hún kemur, þá skal ég segja honum, að það mun ég alls ekki gera. Ég er ekki hræddur við að láta hana ganga áfram og dettur ekki í hug að taka hana aftur, hvaðan sem hún er komin. Hv. 3. þm. Reykv. segir, að hún sé frá hv. 4. landsk. eða skrifstofu hans, en um það skal ég ekkert fullyrða, þar sem ég veit ekkert um það.

Ég get ekki svarað því, sem hv. þm. G.-K. hefir sagt á fundi þeim, er haldinn var í barnaskólaportinu í fyrrakvöld, af því að ég var þar ekki, en þar sem hv. þm. er hér nú, getur hann sjálfur skýrt frá, hvað það hefir verið, en út af því máli, sem hv. 3. þm. Reykv. setti þetta í samband við, skal ég taka það fram, að það er ekki hægt að setja neina tryggingu fyrir lausn kjördæmamálsins með þeim hætti, sem venjulega er talað um, er tryggingar eru settar. Við sjálfstæðismenn höfum þó þá tryggingu, að ég hefi tekið sæti í stj. af hálfu okkar flokks, og ég get lýst því yfir, að ég mun ekki vera í stj. lengur en þangað til ég veit, að sú lausn fæst ekki, sem ég tel viðunandi.