04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2436 í B-deild Alþingistíðinda. (11516)

Stjórnarskipti

Jón Þorláksson:

Ég vil ekki láta því vera ómótmælt hjá hv. þm. Dal., er hann sagði, að þessi nýja stj. væri einskonar n., sem flokkarnir hefðu skipað, þannig, að hvor flokkur bæri aðeins ábyrgð á sínum mönnum. Þetta ráðuneyti er myndað eins og önnur ráðuneyti, og tók fyrrv. fjmrh. að sér að mynda það samkv. tilmælum frá konungi, og það er hann, sem ber hina stjórnskipulegu ábyrgð á vali hinna ráðh. Veit ég, að þessi stjórnskipulega ábyrgð hæstv. forsrh. verður honum létt, því að það er almannarómur, að honum hafi heppnazt vel valið á starfsbræðrum sínum í hinu nýja ráðuneyti. Það er hinsvegar rétt, að flokkarnir bentu hæstv. forsrh. á sína menn, og sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, sem benti hæstv. forsrh. á að snúa sér til hv. 2. þm. Skagf., eftir að farið hafði verið fram á, að einn maður úr Sjálfstæðisflokknum tæki sæti í ráðuneytinu. Hitt mega menn ekki hugsa, að stj. sé sem n., skipuð fulltrúum flokkanna, og að ráðh. geti starfað sér út af fyrir sig, hver á sínu sviði, eins og fulltrúar í n. geta klofið n. og gefið út sérnál., ef þeir verða sundurþykkir. Þannig verður engin stj. mynduð, heldur á hinn veginn, sem ég áður lýsti.