04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (11523)

Stjórnarskipti

Jón Jónsson:

Ég get verið þakklátur meðnm. mínum, hv. 1. landsk., fyrir það, að hann hefir starfað meira en við hinir í nefndinni. En úr því að hann hefir vikið hér að tveimur sérstökum umræðuefnum, þykir mér rétt að lýsa því yfir, að hann hefir ekki látið okkur meðnm. sína vita, að hann hefði í huga að gera nokkrar aths. um viðtækjaverzlunina eða rekstur útvarpsstöðvarinnar, svo að við höfum ekkert kynnt okkur þá hluti. Það, sem hv. þm. segir um þessi atriði, er því algerlega frá honum sjálfum. Það má vel vera, að álagningin á viðtækin sé of mikil, ég hefi ekki rannsakað það, en ég hafði hugsað mér, að hlutverk n. væri aðallega að leita að möguleikum til þess að spara útgjöld ríkissjóðs og gæta hagsmuna hans. Og af því tekjurnar af viðtækjaverzluninni ganga til þess að greiða rekstrarkostnað útvarpsstöðvarinnar og eru þannig óbeinar tekjur fyrir ríkissjóð, þá sé ég ekki, að þessar aths. hv. 1. landsk. fari í þá átt, sem hlutverk n. beinist að. Ég skil það mætavel, að þessar aths. geta vitanlega horft til sparnaðar fyrir almenning eða nýja kaupendur viðtækja. En eins og hæstv. forsrh. tók fram, þá hefir viðtækjaverzlunin lagt ekki svo lítinn skerf til útvarpsins, og mun það svara til þess að vera 90 þús. kr. hreinar tekjur fyrir ríkissjóð. Annars verður að gæta þess, að viðtækjaverzlunin þarf að leggja meira á tækin en heildsalar gerðu áður, af því að hún ber ábyrgð á þeim heim í hlað til kaupenda, og ef tækin reynast misjafnlega, þá tekur hún þau til baka og lætur aftur fullkomin tæki í staðinn. Ég held, að sú ásökun sé ekki á rökum reist, að viðtækin séu dýrari hjá viðtækjaverzluninni heldur en þau yrðu hjá einkaverzlunum. Það mun vera rétt, sem hæstv. forsrh. benti á, að þau eru ekki dýrari nú en áður, þegar einstaklingar verzluðu með þau, því að þá var smásölualágningin miklu meiri en hún er nú. Þrátt fyrir þetta er það ekki nema gott og blessað, að stjórnin fylgist sem bezt með um starfsemi þessarar stofnunar. Hitt vitum við, að það er ofureðlilegt, að starfræksla útvarpsins sé miklu dýrari í byrjun, meðan ekki er fengin full reynsla um, hvernig rekstrinum verður bezt fyrir komið. En útvarpsstjórinn hefir látið í ljós, að það væri hægt að spara meira í rekstri útvarpsins, þegar fengin væri full reynsla í því efni. Og vænti ég, að það verði gert með fullt samkomulagi við útvarpsráðið og útvarpsstjórann.