03.03.1932
Neðri deild: 19. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

55. mál, ríkisskattanefnd

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það er líkt um þá hv. þm. V.- Húnv. og hv. þm. Borgf., að þeir leggjast báðir á móti frv. þessu og nota báðir sömu gleraugun, gleraugu, sem þeir sjá með allt annað heldur en aðrir sjá, og forðast báðir að nefna hina raunverulegu ástæðu, sem liggur til grundvallar fyrir frv. þessu, þá brýnu þörf, sem á því er að samræma skattaálagningu í hinum ýmsu héruðum landsins. Heldur gera þessir hv. þm. helzt ráð fyrir því, að menn eigi að ferðast um landið í stórum flokkum til þess að kenna mönnum að útfylla skattskýrslur o. fl. Sé ég svo ekki ástæðu til að svara þessu frekar, en að síðustu vil ég taka það fram, að eins og verðgildi sauða og nauta er misjafnt í hinum ýmsu héruðum landsins. eins getur verðgildi hinna hv. þm. verið mismunandi hér á Alþingi.