12.03.1932
Efri deild: 27. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

137. mál, póstlög

Flm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Það gefur að skilja, að á slíkum framfara- og breytingatímum, sem verið hafa á öllum sviðum hin síðustu ár, þá er það orðið margt í póstlögunum, sem og öðrum eldri lögum, sem betur mætti fara, til þess að svara betur kröfum hinna nýrri tíma. þess vegna hefi ég leyft mér að bera þetta frv. fram, til þess að fá felld burt hin úreltu ákvæði póstlaganna og bæta inn nýjum, eftir því sem nauðsyn krefur. Frv. þetta er að mestu samið af póstmálastjóra, enda má segja það um flest ákvæði þess, að þau eru þegar praktíseruð um lengri tíma, enda mörg þeirra heimiluð í reglugerð frá 1925, og í eðli sínu alveg sjálfsögð. T. d. 1. gr. frv., sem fjallar um þyngd bréfa, þá er það ákvæði í líkingu við það, sem á sér stað erlendis, nefnilega, að bréf megi vera allt að 2 kg. að þyngd. hér er það í lögum, að þau megi ekki vera þyngri en 250 gr., og því hefir það oft komið fyrir, að póststj. hefir verið í vandræðum með bréf, sem hafa verið yfir þessu þyngdarmarki, þar sem ekki hefir mátt bera þau út, hafi hún stranglega viljað fylgja lögunum.

Í 2. gr. frv. eru ákvæði um það, hve víðtækur staðartaxti megi vera. Auk þess setti ég inn ákvæði um það, að sami taxti gilti um póst milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Á milli bæjanna eru, svo sem kunnugt er, ákaflega mikil viðskipti, enda gengur póstur tvisvar á dag hvora leið. Vegna þess að við Hafnfirðingar búum við landtaxta, þá vilja verða mikil brögð að því, að bréf séu fengin bílstjórum til flutnings, er síðan setja þau í póst í Reykjavík, en af þessu verða oft vanskil og margskonar óþægindi, og veldur þetta mikilli truflun og bága fyrir öll eðlileg og greið viðskipti. Póstmálastjóri hafði ekkert að athuga við þetta ákvæði, enda taldi hann það fremur mundu verða til tekjuauka fyrir ríkissjóð heldur en hitt, þar sem póstur yrði miklu meira notaður en áður. Öll ákvæðin í 3. gr. eru komin til notkunar eftir reglugerðinni 1925, en þarf aðeins lög festing. Eins er um ákvæði 5. gr. frv. um það, að menn geti fengið til sin óborgaðar sendingar og svarbréf eftir samningi við póststjórnina. Ég skal geta þess í þessu sambandi, að rannsóknarstofa háskólans hefir undanfarið sent bændum bréf viðvíkjandi því, hvernig bóluefni hennar hafi reynzt, og til þess að greiða fyrir því, að svör komi, hefir hún leitað álits póststjóra um það, hvort ekki væri tiltækilegt að lög leiða það, sem 5. gr. fer fram á.

Loks er ákvæði 6. gr. frv. um það, að nota megi frímerkingavélar í stað frímerkja. Allt þetta er þegar farið að praktisera, en það þarf einungis að fá það tekið upp í gildandi lög. Að þessu athuguðu er þess að vænta, að frv. þetta fái góðar undirtektir og fljóta afgreiðslu í þinginu. Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til hv. samgmn. að lokinni þessari umr.