27.04.1932
Efri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

274. mál, viðurkenning dóma og fullnægja þeirra

Frsm. (Pétur Magnússon):

Þetta frv. var flutt af allshn. Nd. samkv. beiðni hæstv. forsrh. Efnið er það, að heimila ríkisstj. að láta ganga í gildi ákvæði samnings, sem gerður var 16. marz þ. a. og undirritaður í Kaupmannahöfn, milli Íslands og annara Norðurlanda, um það, að dómar, sem gilda í einu landinu, skuli líka gilda í hinum. Nú er það svo, að sé í einu landinu kveðinn upp dómur yfir manni frá einhverju hinna, þá verður að staðfesta hann í heimalandinu, til þess að hægt sé að gera aðför eftir honum. Er þetta þunglamalegt fyrirkomulag fyrir menn, sem þurfa að leita réttar síns. Þessi samningur byggist á gagnkvæmu trausti landanna á dómstólum hinna, og má fullyrða, að dómstólar í öllum þessum löndum njóti þess trausts, að ekki sé áhætta fyrir okkur að þessum samningi. Allshn. þessarar d. hafði málið til meðferðar, og mælir hún með því óbreyttu. þessi samningur er prentaður hér sem fylgiskjal með frv. og er gerður af hinum hæfustu mönnum. Má treysta því, að svo sé frá gengið, að allir megi við una.