01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

265. mál, sala á Reykjatanga

Flm. (Hannes Jónsson):

Þetta litla frv. um sölu á Reykjatanga er svo lítið og óbrotið mál, að ég býst ekki við að hafa um það langa framsögu. Skólinn, sem nú þegar er búinn að hefja starfsemi sína á þessum stað, hefir frá hví fyrsta haft mikinn samhug héraðsmanna á bak við sig. Á þessum stað á æska Strandasýslu og Húnavatnssýslu að hefja göngu sína til sjálfstæðrar starfsemi í sveitum landsins.

það þarf að rækta landið, sem skólinn stendur á, það þarf að byggja gróðurhús, gera leikvelli og prýða staðinn eftir því, sem föng eru á. En til þess að þetta megi verða, þarf skólinn að hafa sem bezt tök á landinu, hafa sem sagt umráð yfir því að öllu leyti. Eins og menn hafa séð í fskj. með frv., þá er hér aðeins um 35 engjadagsláttuland að ræða. Þetta land var skilið frá jörðinni Reykjum, þegar hún var seld 1914. Síðan hefir ábúandinn á Reykjum haft jörðina á leigu fyrir 10–12 kr. Ég vona, að hv. þm. geti séð, að hér er ekki um stórvægilegan hlut að ræða fyrir ríkissjóð, að láta þetta land af hendi, enda er gert ráð fyrir því í frv., að verðið verði eftir því, sem lögin frá 1905 um sölu þjóðjarða ákveða. Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. þurfi að fara í n. til athugunar og býst við, að það ætti þá helzt að vera allshn. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en vona, að n. reyni að fljóta fyrir því, svo að það geti orðið að lögum á þessu þingi, þó það sé nokkuð seint fram komið.