09.04.1932
Efri deild: 47. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

239. mál, sala á hluta heimalands Auðkúlu

Guðmundur Ólafsson:

Ég get ekki annað en virt það við hv. 2. landsk., hvað hann vill fara varlega í þessu tilfelli. Það er kannske eitthvað, sem við má bæta til skýringar, við það, sem grg. hefir tekið fram, sem ekki er mikið, því að hún er stutt og orð þau, er ég hefi áður sagt um mál þetta. Ég vil reyna að upplýsa það, sem ég get frekar. Nokkuð af þessu landi vill bóndinn í Litladal kaupa. Land Litladals nær upp í hálsbrúnina, og Auðkúla á bæði fyrir norðan það og sunnan og svo á hún ræmu á háhálsinum, og það land vill bóndinn í Litladal gjarnan kaupa. Það er vitanlega hann, sem notar landið án þess að borga nokkuð fyrir það, því skepnurnar fara ekki eftir því, hver landið á. En þar fyrir framan hafa nokkrum sinnum verið leigðar slægjur, en aldrei verið notaðar frá Auðkúlu. Maður, sem býr þar nálægt og hefir landið nú á leigu, er að hugsa um að kaupa það. Það er óhætt að fullyrða, að eftir því, sem búskap er hattað nú, er Auðkúlu þetta land ekki til neinna nytja, nema þegar tekizt hefir að fá einhvern leigjanda. En nágrannarnir nota landið eins og þeir þurfa, án þess að borga fyrir það. Það yrði ekki stórfé, sem þyrfti að bæta presti upp, ef landið yrði selt. Mér þykir líklegt, að það gæti ekki orðið meira en það, sem hann hefir fengið í leigu þegar leigt hefir verið. Ég held, að það sé síður en svo nokkuð varhugavert fyrir d. að samþ. frv., og það sannar líka nokkuð, að n. mælir eindregið með því, og svo það, að bæði ábúandinn á Auðkúlu og biskup sjá enga agnúa á þessu.

Ég sé ekki, að ég þurfi að fjölyrða frekar um þetta, ég er búinn að svara spurningum hv. 2. landsk. Ég sé, að kunnugur maður er að hvíslast á við hann (JBald: Það er gamall smali þarna úr dalnum). Það hafa nú verið fleiri en hann, en hann hefir kannske einhverntíma verið smali þarna á hálsinum.