14.04.1932
Efri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

156. mál, barnavernd

Magnús Torfason:

Ég hafði mælzt til þess við 2. umr., að hv. n. athugaði, hvort ekki væri ástæða til að breyta 9. lið 7. gr. og víkja við atriði í 12. gr. Mér fannst þá á hv. þingfrú, að hún tæki þessu vel og vildi athuga þetta, en mér skilst, að nú hafi hún séð sig um hönd og liti svo á, að ekki sé ástæða til að veita þessu athygli. En því var skotið að mér, að n. hafi ekki komið saman milli umr. til að athuga þetta mál, eða bendingar þær, er fram komu um það. Ég get skilið, að hv. þingfrú sé það mikið í mun, að málið komist sem fyrst út úr þessari deild og til hv. Nd., vegna þess að nú er liðið á þingtímann. En ég held, að ég þori að ábyrgjast, að eins og frv. er nú úr garði gert nái það aldrei samþykki Nd. breytingalaust. Ég hygg, að það verði því betri vinnubrögð að taka málið af dagskrá nú og athuga það betur í n. Ég vildi því óska þess, að hv. þingfrú vildi samþ. það fyrir sína hönd og n.