27.04.1932
Neðri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (1703)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Ég hefi í raun og veru engu að svara, því að þótt margir hafi talað síðan ég lauk máli mínu, hefir ekkert nýtt komið fram í þeim umr., sem ekki var búið að segja áður. Það hefir verið endurtekið þetta sama: að flugferðirnar hafi engan árangur borið, sem auðvitað er frekleg fjarstæða. Þetta er ekkert annað en fullyrðing, enda ekkert rökstutt sagt um árangur þessara tilrauna. Það hefir líka verið margendurtekið, að flugferðir þessar hafi ekki borið sig. Það vita allir, enda var aldrei búizt við því á tilraunaskeiði þeirra því fyrsta.

Þessi fyrsta tilraun með flugferðar hér á landi hefir haft í för með sér nokkra fjáreyðslu, og þarf engan að undra slíkt, þegar jafnumfangsmikið og algerlega nýtt tilraunastarf var hafið. En mér þóttu óvarleg ummæli hv. frsm. minni hl. um þessar flugferðatilraunir, þegar hann var að lýsa því, að fé til þeirra hefði verið sníkt út úr mönnum og sumir jafnvel verið ginntir til þess að leggja eitthvað af mörkum. Það var fyrirfram vitað, að menn urðu einhverju að forna og það varð að fá einhverja til að forna. Hv. þm. má kalla það sníkjur, ef honum þykir það sæma. Þeir, sem fórnuðu fé í þessar tilraunir, gerðu það vegna þess, að þeir trúðu því, að þeir væru að vinna fyrir gott málefni og höfðu vilja og löngun til að verða því að liði. Og mér finnst þeir eiga fremur þakkir en ámæli skilið fyrir þá fórnfýsi.

Og þó að menn vilji gera lítið úr síldarfluginu og segi, að það hafi engan árangur borið, þá er þó ljóst eftir skýrslum og uppdráttum, sem fyrir liggja, að á þessum ferðum hefir sezt síld og oft verið fundin, ýmist þar, sem engin veiðiskip voru, eða þar, sem þau höfðu yfirgefið veiðisvæðið. En af því að flugvélarnar hafa ekki verið búnar loftskeytatækjum, þá þurfti jafnan að fljúga langa vegu til þess að koma af stað tilkynningum um síldarleitina, en af þessu er ljóst, að árangurinn af síldarleitinni hefir orðið minni en ella, ef hægt hefði verið að tilkynna loftleiðina til veiðiskipanna um leið og síldar varð vart. En mér finnst enga þýðingu hafa að vera að þrátta um þetta efni.

Aðeins nokkur orð verð ég að segja út af því, sem hv. þm. Borgf. tók fram. Hann hneykslaðist á flugskattinum, sem er 10 aurar af tunnu, og var að vitna í einhverja ákveðna veiðiför, þegar veiðimennirnir báru ekki úr býtum nema 5 aura fyrir tunnu hverja, en urðu samt sem áður að greiða 10 aura í flugskatt. Út af því vildi ég spyrja: Hversu oft hefir það ekki borið við, að menn hafa haldið í veiðiför og komið öngulsárir að landi? Og þarf ekki jafnt að greiða kaup og skatta, þó að ekkert veiðist? (PO: Þetta var útkoman á síðastl. sumri, en ekki einstök veiðför). En þetta eru gagnslaus rök í svona máli og koma því ekkert við.

Það hefir verið sagt hér, að þessi skattur væri lagður á eina og ákveðna grein atvinnuveganna. En þess má þó geta, að síðan flugskatturinn var lagður á hefir verið fært niður útflutningsgjald af síld. Það er nú, að viðbættum flugskattinum, aðeins kr. 1.10, en var áður kr. 1.60. Það segir sig nú sjálft, að þessir 10 aurar geta hvorki eyðilagt síldarútveginn né bjargað honum. Annars er hér ekki nema um fyrirkomulagsatriði að ræða um skattgreiðsluna og skiptir engu máli. Eins vel mátti segja, að útflutningsgjaldið væri kr. 1.60 af hverri síldartunnu, en greidd væri ákveðin upphæð af gjaldinu til framkvæmda síldarleitar og annara flugferða. Það virðist eingöngu vera nafnið flugskattur, sem vekur þessa miklu andúð, þótt vitað sé, að hann er aðeins lítill hluti þess fjár, sem varið hefir verið til flugferða hér á landi.

Með þessum fáu orðum þykist ég þá hafa svarað öllum þeim, er talað hafa á móti því, að flugskatturinn haldist. Þeir hafa allir tekið upp sömu rök og lagt áherzlu á, að skattur sá, sem lagður hefir verið á síldina í þessu skyni, væri ómakleg byrði fyrir útgerðina og kæmi henni að engu haldi. En það hefir komið meira fé til þessara flugtilrauna annarsstaðar frá en sem flugskattinum nemur, — margfalt meiri og stærri upphæðir, bæði frá ríkinu og einstökum mönnum.

Aðalatriðið eins og nú er komið er það, að vestræna flugfélagið hefir boðizt til að kaupa vélar flugfélagsins íslenzka og að halda áfram flugi innanlands, ef til vill auka það með betri og fullkomnari tækjum, svo að meira liði mætti verða. En skilorðið er það, að flugskatturinn haldist. En ef flugskatturinn veður felldur niður, má ætla eftir skeytum, sem farið hafa á milli vestræna félagsins og manna hér, að útséð mundi að sinni um flugferðir innanlands, jafnframt og útilokað væri, að sala tækist á eignum flugfélagsins. Ég held því, að það sé enginn afslagur að geta með því að halda skattinum komizt að sölu þeirra gömlu flugtækja flugfélagsins, sem líta verður á að nokkru leyti eins og ríkiseign.

Til þess að sanna þetta tilboð um flugvélakaupin betur verð ég að lesa upp símskeyti frá formanni vestræna flugfélagsins til Guðm. Grímssonar. Það er dagsett í New-York 16. marz og barst hingað áður en Alþingi hafði veitt heimild þá, er félagið óskaði eftir um viðkomustaði hér við millilandaflug, svo sem hv. þdm. er kunnugt um. Skeytið er á ensku, og geri ég ráð fyrir, að flestir hv. þdm. skilji það engu að siður, en það hljóðar svo:

„In event concession granted Transamerican will promptly send representative Iceland with intention working out plan for continuing operation local aviation enterprise, if Iceland continues hering subsidy.

Hoyt“. (PO: Hvaða biblía er nú þetta?). Í skeytinu segir, að svo framarlega sem leyfi verði veitt, þá verði fulltrúi félagsins sendur hingað til þess að undirbúa, að innlent flug geti hafizt, svo framarlega að Íslendingar lati haldast flugskattinn eða síldarskattinn. Nú er eftir þessu fulltrúi félagsins væntanlegur hingað innan skamms að undirbúa flugferðir félagsins. Og finnst mér þá harla óviðfelldið að fella niður flugskattinn rétt áður en sendimaður þessi kemur í þeim erindum að semja um vélakaupin og innlendar flugferðir, m. ö. o. að gabba hann þessa löngu leið frá New-York til Íslands. Ég veit ekki, hvað hv. þm. sjá sér í því að fella skattinn niður einmitt nú, því að ekki má ætla, að þeir vilji láta sendimanninn hlaupa apríl hingað.

Segjum, að ekki semdist við þennan sendimann, og mundi þá auðsótt á næsta þingi að fella skattinn niður. En flugskatturinn einn út af fyrir sig hefir sáralítil áhrif á afkomu síldarútvegsins, eins og ég hefi margtekið fram.

Ég ætla svo ekki að deila um þetta lengur, enda finnst mér það þýðingarlaust. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að Alþingi vilji bletta skjöld sinn með því að gabba fulltrúa vestræna félagsins hingað og með því að hafna því gagni, sem verða mætti af komu hans og samningum. (PO: Hver hefir boðið honum ?).