27.04.1932
Neðri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1666 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Það er sérstaklega eitt atriði í ræðu hv. frsm. minni hl., sem ég vildi mótmæla. Hann gaf í skyn, að ég væri með till. mínum í þessu máli að hugsa um að láta þungann af flugskattinum koma niður á náunganum, en vildi sjálfur vera laus við að greiða hann. Þetta átti að vera talbeita í umr. og hv. þm. Borgf. beit líka á hana og kom að þessu sama efni. Sannleikurinn er sá, að ég hefi að öðrum þræði um nokkur ár verið riðinn við síldveiði; hefi því undanfarið greitt flugskatt jafnvel af síld, sem ekki var veidd í herpinót, og tel ég gjald þetta enga verulega byrði, sem um muni. Hitt kemur ekki málinu við, þegar verið er að gera ráðstöfun, sem gilda skal um langt tímabil, þótt viljað hafi til, að eitthvert ár hafi gefið ákveðnum síldveiðimönnum rekstrarhalla, eins og hv. þm. Borgf. minntist á. Það er svo mörg veiðiförin farin á sjó, sem lítið hefst upp úr. Og það eru auðvitað engin rök gegn réttmæti þessa skatts, þótt síldveiðin hafi gefið minni arð eitt árið en annað.

Þá verð ég að minnast annars, sem kom fram í ræðu hv. frsm. minni hl., þar sem hann hafði það eftir fréttum úr einhverju blaði, að samningar væru strandaðir milli dönsku ríkisstj. og ameríska flugfélagsins, sem dr. Guðm. Grímsson er fulltrúi fyrir, um leyfi handa félaginu til loft- ferða um Grænland.

Mér var í mörgun sýnt símskeyti frá Guðm. Grímssyni, þar sem hann tilkynnir, að forsætisráðh. Dana hafi nýlega undirritað leyfið og að samningar hafi tekizt. Guðm. Grímsson er þess vegna farinn áleiðis vestur um haf, en getur þess í skeytinu, að sendiherra Íslands í Khöfn — Sveinn Björnsson — hafi átt mikinn og góðan þátt í því, að þessi samningsniðurstaða fékkst. mér þykir rétt að skýra frá þessu hér, af því að blaðafrétt sú, er hv. frsm. las upp, er eldri en þessi frétt og þess vegna óábyggileg.

Ég skal svo að öðru leyti ekki tefja tímann. Ég get látið mér í léttu rúmi liggja, þótt beint sé til mín olnbogaskotum, og beðið eftir úrskurði atkvgr.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að meiri hl. sjútvn. hefði ekki gert sér grein fyrir heim kostnaði, sem leiddi af þessu máli. Má segja, að undarlega sé þá að orði kveðið, en svör við þessum órökstuddu ákúrum hans eru þau ein, að enn síður hefir hann hugsað þetta mál eða nokkuð til þess lagt af þekkingu og viti.

Hv. 1. þm. Árn. dró það í efa, að síldartorfur sæust úr flugvél í lofti. Ég geri ráð fyrir, að hann hafi ekki komið í flugvél við síldarleit og geti því lítið um þetta dæmt. Að vísu verð ég að játa, að ég hefi ekki tekið þátt í síldarleit með flugvél, en mér er fullkomlega ljóst, hvernig þeirri leit er farið, enda er það gömul og þekkt aðferð síldveiðimanna að skyggnast eftir veiði úr fjöllum nærri sjó og ráða af lit sævar, hvar veiði er fyrir. Að vísu veri5ur eigi með þeim hætti eða úr flugvél greind fiskitegund sú, sem litnum veldur, en oft má um það nærri fara og sjá síldartorfur úr talsverðri fjarlægð, jafnvel þótt sjór sé nokkuð úfinn, og skera litabrigðin þar úr. Ummæli hv. þm. eru sprottin af svo miklum ókunnugleika, að ekkert þýðir um þau að deila. Ef hv. þdm. eru búnir að kynna sér nál., sem ég vil ætla Þá tel ég þeim enga ofraun að mynda sér rétta skoðun á málinu. Lengri umr. um það hygg ég óþarfar og læt því máli mínu lokið.