14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

35. mál, lækningaleyfi

Vilmundur Jónsson:

Umr. eru nú komnar á þann grundvöll, að um er deilt, hvort eigi að setja taxta á praktiserandi Lækna eða ekki, þetta er líka eina atriðið, sem ágreiningur er um milli mín og meiri hl. Læknafél. Rvíkur, þó að í Læknafél. Rvíkur séu að vísu til læknar, og þ. á m. a. m. k. einn sérfræðingur, sem hafa talað svo í mín eyru, að þeir væru því hlynntir, að gjaldskrá sú yrði sett, sem frv. gerir ráð fyrir.

Það mun vera rétt, sem hv. þm. G.-K. og hv. 2. þm. Reykv. sögðu um það, að praktiserandi læknar yfirleitt teldu sig vilja hafa óbundnar hendur til þess að geta tekið ríflega af þeim ríku, en ósköp lítið eða ekkert af aumingja fátæka fólkinu. En ég álít hvorttveggja jafn ófært og óviðeigandi hér á landi að gera fátækt alþýðufólk að gustukaskepnum hvaða læknis sem er, og að ofurselja það þeirri hættu að þurfa að borga stórfé fyrir nauðsynlega læknishjálp. Læknum á að tryggja fullsanngjörn og helzt rífleg laun fyrir öll sín störf, jafnt fyrir fátæka og ríka, og fátækt alþýðufólk á að fá ódýra eða ókeypis læknishjálp eftir þörfum, án allrar gustukar.

Það er þetta fyrirkomulag, sem okkur vantar. Og það skal komast á. En á meðan við búum við núv. vandræðaástand í þessum efnum, held ég, að frv. það, sem hér um ræðir, sé til nokkurra bóta, jafnframt því, sem það mun ýta á eftir frekari ráðstöfunum og skil ég sízt í því, að læknar skuli vera því mótfallnir.

Hv. 2. þm. Reykv. bar brigður á það, að sjúklingar væru ofurseldir læknum með launagreiðslur, og gætu þeir farið í mál, ef þeim fyndist læknirinn gera of ósvífnar kaupkröfur. En það getur staðið svo á, að ekki sé þægilegt fyrir sjúkling að lenda í málavafstri t. d. við eina lækninn, sem í héraðinu er, eða eina sérfræðinginn á landinu í sjúkdómi hans, og sjúkl. e. t. v. telur algerlega hafa í höndum sér hans litlu batamöguleika. Annars var öll ræða hv. 2. þm. Reykv. svo, að helzt mátti skilja á henni, að ekki væri rétt að setja taxta á nokkra lækna. Og í því væri nokkurt samræmi, því að ef á að fara að útkljá kaupkröfumál praktiserandi lækna með málaferlum í hvert sinn, þá ætti það sama að geta gilt um héraðslækna. Ég geri engan mun á þörfinni á gjaldskrá fyrir héraðslækna og praktiserandi lækna. Og ég er ekki einn um það, því að ég hefi í höndum skilríki frá 20 helztu héraðslæknum á landinu, sem eru sammala mér um þetta. Ég hygg þó vegna, að rétt sé að láta deiluna snúast um það, hvort öllum læknum eigi að setja gjaldskrá eða engum.