19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

35. mál, lækningaleyfi

Pétur Ottesen:

Við 1. umr. þessa máls hreyfði ég nokkrum aths. við sumar gr. frv. þessar aths. voru að nokkru teknar til greina við 2. umr., en að sumu leyti var það ekki gert, og því hefi ég nú flutt 4 brtt. við frv.

Við 2. umr. málsins og í áliti því, sem þá var lesið upp frá læknafél., kom það fram, að frágangur þessa frv. og undirbúningur sé ekki eins og æskilegt hefði verið, og hvað læknafél. snertir þá dæmir það þar út frá sjónarmiði fagþekkingar.

Þessar brtt., er ég flyt, eru um nokkur minni háttar atriði, er frv. fjallar um.

1. brtt. mín er við 4. gr. 4. gr. ákveður, að læknisefni megi fela þjónustu læknishéraðs um stundarsakir, ef landlæknir mælir með því. Það geta legið ýmsar orsakir til þess, að héraðslæknir þurfi að vera fjarvistum frá héraði sínu. Það, sem ég hefi sérstaklega í huga og miða brtt. mína við, er það, að héraðslæknir verði kvaddur til starfa utan héraðs síns til almenningsþarfa, t. d. þingsetu. Þá þarf héraðslæknir að hafa öruggan rétt til að geta sett læknanema í embættið, ef lærðan lækni er ekki að fá, og má hann þar ekki vera háður valdi eins manns. mér þykir því rétt, að úrskurðarvaldið um hæfileika læknanemans sé hjá læknadeild háskólans. Annars raskar þessi brtt. ekki neitt ákvæðum frv., þegar öðruvísi stendur á.

2. brtt. er við 13. gr. þar er svo ákveðið, að þegar Læknum verður settur taxti, skuli semja um hann við stéttarfél. þeirra. Ég hefi lagt til, að í stað orðsins stéttarfélag komi félagsskapur. Það er hið algenga heiti í löggjöfinni á þessu. Ég ætla, að enn sem komið er, sé orðið stéttarfélag ekki tekið upp í löggjöfina. Brtt. er engin efnisbreyt. og gerir ekki annað en færa orðalagið til samræmis við venjuleg orðatiltæki í löggjöfinni.

3. brtt. er við 17. gr. Gr. fjallar um varnir við auglýs. og skrumi um lyf og læknisáhöld og m. a., sem þar er bannað, er bann við að auglýsa lækningakraft drykkja og matvæla. Það mun þykja nokkuð frekt að kveðið, að mega ekki vekja athygli í auglýsingum á höllum og góðum eiginleikum vöruteg. mér finnst það óviðfelldið að taka upp í löggjöfina bann við því að brýna fyrir þjóðinni að neyta þeirra vara og drykkja, sem hollir eru og nauðsynlegir. Því legg ég til, að felld séu úr upptalningunni orðin drykkir og matvæli.

4. brtt. er við 22. gr. og fjallar um það, að smáskammtalæknar, sem aðeins stunda meðalalækningar, verði undanþegnir ákvæðum 1. að öðru leyti en því, að svipta má þá lækningarétti og beita þá refsingum, ef brotlegir verða, sem aðra lækna. Áður hefir verið bent á, að í l. frá 1911 eru smáskammtalæknar algerlega undanskildir ákvæðum þeirra laga. Ég veit ekki til þess, að neitt hafi komið fram síðan 1911, er geti verið ástaða til þess að setja þá nú undir ákvæði þessara laga. Hinsvegar er sjálfsagt að láta þá vera háða hinum strangari reglum, sem nú gilda um brot lækna. Eins og menn muna, flutti ég áður, ásamt hv. þm. Dal., brtt. svipaðs efnis og þessa, en tók hana aftur, því við nánari athugun sá ég, að hún átti betur heima á öðrum stað en hún þá var sett, og mi er það lagað.

Ég vænti þess, að þessar brtt. mínar verði samþ. Þær eru til bóta á frv., þótt þær ekki bæti nema að litlu leyti úr því sem frv., að dómi læknafél., er áfátt. því getur það vel verið, að þeir hafi rétt að mæla, sem fara fram á nánari athugun og undirbúning málsins, áður en því verður endanlega ráðið til lykta, og er það nú á valdi hv. d., þar sem rökst. dagskrá er komin fram með þetta fyrir augum.