19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

35. mál, lækningaleyfi

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég sé, að hér við 3. umr. hefir komið fram rökst. dagskrá frá hv. þm. G.-K. og nokkrar brtt., sem að vísu eru ekki stórvægilegar, en þó til skemmda á frv., yrðu þær samþ. Ég heyrði síðari hl. ræðu hv. þm. G.-K. og tók eftir því, að hann vitnaði í einhver skjól frá læknum í Rvík. Ég var upptekinn af máli í Ed., þegar hv. þm. byrjaði þessa ræðu og veit ekki, hvort hann hefir lesið upp nöfn þeirra lækna, sem hafa undirskrifað þetta skjal. Ef svo er ekki, vil ég mælast til þess, að hann geri það næst, en ég get ekki seð, að það hafi mikla þýðingu í þessu máli, þó að reykvískir embættislausir læknar hói saman fundi og geri þar einhverjar samþykktir. Ég vil þakka hv. flm. fyrir það, að á þeim stutta tíma, sem hann hefir gegnt embætti sínu sem landlæknir, hefir hann séð sér fært að undirbúa þetta mál og annað þýðingarmikið frv. á sviði heilbrigðismálanna. Mér þykir það undarlegt, að þeir, sem fordæma mþn. vegna útgjalda, sem þær hafa í för með sér, skuli ekki kunna að meta það, þegar starfsmenn ríkisins vinna ótilkvaddir slík störf sem þessi.

Kjarninn í mótmælum hv. þm. G: K. var sá, að praktiserandi læknar séu óánægðir með frv. Eins og nú er, þá eru þeir engum taxta háðir. Þeir geta því sett upp á verk sín eins og þeim sýnist. í flokki hinna praktiserandi lækna eru að vísu margir sanngjarnir menn. En þar eru líka aðrir, sem eru ósanngjarnir. Menn, sem heimta t. d. 10 kr. fyrir stutt viðtal, hvort sem ríkur eða fátækur á í hlut. Þar er líka dæmi að finna fyrir því, að teknar hafa verið á einu ári 10–12 þús. kr. fyrir meðferð á einum sjúklingi. Það er því hægt að setja sig inn í tilfinningar slíkra lækna, ef nú á að lögfesta eftirlit með því, hvern taxta þeir hafa. Og það er einnig öllum kunnugum skiljanlegt, hvers vegna einmitt hv. þm. G.-K. er valinn til að halda uppi málstað þessara manna hér í þinginu. Hann mun naumast viðkvæmur fyrir kjörum þeirra, sem fátækir eru og erfitt eiga.

Kjarni þessa máls er því sá, hvort það beri að álítast rétt, að praktiserandi læknar hafi óskoraðan rétt til að setja upp á vinnu sína í þágu sjúklinganna eins og þeim sjálfum þóknast, án allrar íhlutunar ríkisvaldsins. Er þá á það að líta, með hverjum hætti og hvar læknarnir hafa fengið sína menntun. Hana hafa þeir flestir eða allir fengið hér með 10–12 ára skólagöngu á kostnað alþjóðar. Þeir hafa notið hér kennslunnar ókeypis, og allflestir styrks bæði í menntaskólanum og við hóskólann. Og þeir hafa margir verið styrktir til utanfarar, er þeir hafa viljað fullkomna sig í læknisgrein sinni. Þjóðfél. hefir því borið þá á örmum sínum meðan þeir voru að læra mennt sína. Það virðist því vera í fullum rétti með að gera nokkra íhlutun um þá borgun, er þeir megi taka af sjúklingum sínum. Og því miður verður að segja það, að á slíku er ekki vanþörf. Þegar sumir þessara manna setjast að og fara að praktisera sem læknar, þá telja þeir sig hafa eins fullt leyfi til að trolla í vösum alls almennings, eins og togararnir á sínum fiskimiðum, utan landhelginnar, vel að merkja.

Nú mætti segja, að takmörkun á taxta þessara lækna gæti leitt til þess, að þeim fækkaði heldur. En því ber þá ekki heldur að neita, að óhæfileg fjölgun lækna felur í sér hættu fyrir þjóðfél. Er ég ekki einn um þá skoðun, því próf. Guðmundur Hannesson, sem er nú talinn einn af helztu málsvörum lækna, hefir opinberlega lýst þessari hættu í grein, sem hann hefir skrifað. Hann segir skýrt og skorinort, að þegar læknar fari að verða of margir, freistist þeir til að taka óhæfilega mikið fyrir störf sín, og þó hitt frekar, sem hættulegra er, að taka sér sitt af hverju fyrir hendur til að græða á, sem ekki sé hægt að telja þjóðfél. hollt. Alþekkt er, að áður notuðu sumir læknar áfengissölu sér til framdráttar. Einn héraðslæknir lýsti því hreinskilnislega yfir, að hann hefði getað ferðast til Ameríku fyrir þá peninga, er hann hefði grætt á því að selja áfengi, ólöglega auðvitað. Þetta er þó einn af velmetnustu og þekktustu læknum landsins. Má því nærri geta, þegar svo var um þetta græna tré, hvernig þá hefir verið um þau visnu. Hvers var þá að vænta af þeim, sem lítið höfðu að gera. Þótt nú sé þrengra um vik fyrir læknana að gera sér áfengissölu að féþúfu, þá hafa þeir, vegna aðstöðu sinnar, tækifæri til að græða fé á fleiru, miður heppilegu fyrir þjóðfél. Og slík hætta vex eftir því, sem læknum fjölgar meira í hlutfalli við læknaþörfina. Ég vil ekki segja, að sú hætta sé nú fyrir hendi. En ég hygg þó, að við fórum að nálgast hana. Er því nauðsynlegt, að sett sé nánara og skarpara eftirlit með þessum embættislausu læknum. Reynslan sannar, að nauðsynlegt er, að haft sé eftirlit með taxta þeirra. Og ég tel þingið hreint og beint bregðast skyldu sinni, ef það fæst ekki til að vernda almenning gegn heim öfgum, sem upp kunna að koma og þegar hefir bólað á. Og ég vil í sambandi við þetta vekja athygli á, að á fleiri sviðum en þessu eina getur verið þörf á að setja háamarkstaxta, svo sem hjá verkfræðingum, húsameisturum o. fl. stéttum. Úr nágrannalöndunum eru fordæmi um slíkt. Þar er bannað að afla sér óhæfilegra tekna með því að selja verk og vinnu dýrara en þörf er á.

Flutningur dagskrártill. hv. þm. G. K. sannar það, hversu það getur gengið langt, að fáeinir menn geta fengið þm. til að ganga erinda sinna um þau mál, sem eru gagnstæð hagsmunum alls þorra almennings. Og atkvgr. um hana veltur á því, hvort meta beri meira hag fárra manna eða hag alls almennings.

Það á ekki við að tala um einstakar gr., frv. við þessa umr. En ég vil þó benda á það, að ákvæði í frv. veita heilbrigðistj. meiri tók gagnvart drykkjuskap lækna en áður hefir verið. Því þarf ekki að lýsa, hve hættulegur öllum almenningi er drykkjuskapur lækna. Og það er hægt að færa fullgild rök fyrir því, að á undangengnum áratugum hefir drykkjuskapurinn höggvið stórt skarð í læknahópinn. Er það sorgleg saga. Er hægt að sýna og sanna, hve margir læknar hafa fallið frá af völdum áfengis á síðari árum. En þetta segi ég hér vegna mótstöðu hv. þm. G.-K., sem ber fyrir sig læknana hér í bæ. En ekki er þó útilokað, að þeim kunni að missýnast. Jafnvel stj. Læknafél. Ísl. hefir villzt svo, að hún gaf út yfirlýsingu um það, að hún vildi ekki ganga hart að læknum fyrir misnotkun áfengis. Fyrst hún gat flaskað svo á einföldu máli, sem allir þó sjá, að er hættulegt, þá getur hún, eða þeir læknar, sem hv. þm. G.-K. ber fyrir sig, alveg eins flaskað á þessu. En hugsanlegt er, að þetta álit læknanna sé fram komið fyrir það, að þeir vissu af brotlegum mönnum hópnum, og hafi því af kurteisi við þá gefið þetta álit, og fengið svo hv. þm. G.-K. til að bera fram dagskrána, í því skyni að fresta þessu máli um ófyrirsjáanlegan tíma.

Hér er um mikla bót að ræða frá því, sem nú er. Er það nauðsyn alls almennings og þjófélagsins í heild sinni, að frv. Þetta verði lögfest.