19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

35. mál, lækningaleyfi

Pétur Ottesen:

Ég vil lýsa því yfir strax, að ég get hreint ekki orðið við þeirri beiðni hv. þm. Ísaf. að taka aftur brtt. mínar. En mér þykir þó ekkert undarlegt, þó hann gangi ekki inn á þær og telji þær sprottnar af fáfræði minni, þegar hann vill heldur ekkert tillit taka til þess, sem Læknafél. Rvíkur leggur til málanna, sem þó er skipað hinum beztu og vitrustu læknum landsins. Er því ekki von, að ég fái viðurkenningu fyrir réttmæti minna tillagna hjá hv. þm. En þetta er þó ekkert afgerandi fyrir mig. Ég held vitanlega minni skoðun. Og það styrkir mig í því að fara ekki eftir áskorun hv. þm. Ísaf., að hann hefir vitrustu lækna landsins á móti sér í þessu máli.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að 1. brtt. mín næði ekki tilgangi sínum. En það er mesti misskilningur, því það gerir hún fullkomlega. Samkv. stjskr. getur stj. ekki sett sig gegn því, að læknir taki sæti á Alþingi. En læknirinn verður að fá mann til að gegna störfum fyrir sig, sem uppfyllir þær skyldur, sem um það eru settar, að hann megi starfa sem læknir í forföllum héraðslæknis. Eftir frv. á landlæknir einn um það að dæma, hvort staðgöngumaðurinn sé fær um að uppfylla þessar skyldur. Hann á að gefa hið afgerandi svar í þessu efni. Ef hann mælir gegn því, að hinn þingkjörni læknir megi nota þann mann, er hann á völ á að fá, þá getur farið svo, að hann verði að sitja heima og sæti hans standi autt í þinginu. Ef í landlæknisembættinu situr ofstopafullur stjórnmálamaður, eins og vel getur komið fyrir, þá er honum hægt eftir fyrirmælum þessara laga, ef frv. verður samþ., að bægja andstæðing sínum frá að vinna að opinberum störfum í þágu þjóðfél., þingmennsku eða öðru. Brtt. mín fyrirbyggir, að þetta komi fyrir. Með henni er úrskurður um þetta atriði lagður í hendur fleiri manna, sem ætla má, að ekki séu eins háðir stétta- og flokkabaráttunni í landinu yfirleitt, eins og landlæknirinn hæglega getur orðið. Og það er líka eins og hv. þm. Ísaf. hafi þetta eitthvað á tilfinningunni. Það er auðfundið, að hann leggst á móti brtt. minni, af því að hann vill halda þessum möguleika opnum fyrir landlækni. Það er hin eina skiljanlega ástæða fyrir hann til að vera á móti minni till. Ég legg því óhikað þennan skoðanamun okkar undir úrskurð hv. d. Hún sker úr því, hvort henni þykir réttara og tryggilegra að leggja úrskurðinn um þetta undir landlækni einan eða læknadeild háskólans.

Það lítur út fyrir, að hv. þm. Ísaf. hafi mjög misskilið brtt. mína við 13. gr. Hann fór að telja upp allskonar félagsskap, sem ekkert á skylt við þetta. Hann nefndi félagsskap sócíalista, sem var nú víst mjög eðlilegt, þar sem hann er í þeim félagsskap. Hann nefndi félagsskap spiritista. Það getur vel verið, að hann sé í honum líka. Félagsskap esperantista, þar er hann e. t. v. félagsmaður líka, og fleiri slík félög nefndi hann. Ég get nú ekki betur séð en að það sé til þess gert að segja eitthvað, að vera að telja slíkt upp, og lýsi eiginlega algerðum rökþrotum. Brtt. mín verður vitanlega ekki misskilin. Þar er átt við félagsskap þann, er læknar einir hafa með sér og ekki annað. Ég held ekki, að úr þessu verði nein vandræði eða vafi um framkvæmd þessa fyrirmælis. Um þetta eru mörg fordæmi í löggjöfinni og því ekki nýtt, að vísað sé til félagsskapar einhverra, og er þá vitanlega átt við félagsskap þeirrar stéttar, er um ræðir í hvert skipti.

Þá er 3. brtt. mín við 17. gr., að þau ákvæði falli niður, að banna skuli auglýs. um lækningakraft drykkja og matvæla. þótt hv. þm. vilji nú bregða mér um fáfræði í þessum efnum, þá ætti hann þó naumast að halda því fram, að álit Læknafél. Rvíkur á þessum efnum sé sprottið af fáfræði. En hv. þm. er nú þarna í mótsögn við sjálfan sig og þær kenningar, sem læknarnir flytja. þeir telja t. d. nýmjólk holla og fjörefnaríka fæðu. Sama má segja um þorskalýsi, skyr og fleira. Ég verð nú að segja, að ef leggja á með l. hömlur á það, að auglýsa megi slíkar vörur og brýna fyrir þjóðinni að nota þær, þá sé lagt út á viðsjárverða braut. Og mér þykir slíkt koma úr hörðustu átt, er það kemur frá lækni, að ekki megi leiðbeina þjóðinni um það, hvernig hún á að haga lífsvenjum sínum, svo að hagkvæmast sé afkomu hennar og að sem bezt sé tryggð hreysti og heilsa mannlegs líkama. Ég tel, að læknir, sem heldur slíku fram, sé hreint og beint að leggja stein í götu heilbrigðismála þjóðarinnar. Ég verð að halda því fram, að ég standi í mínum fyllsta leikmannsrétti um að hindra, að slíkt komi fyrir. Og það er vitanlega ekkert nærri því, að ég taki till. mína aftur. Þetta er vitanlega ekkert sambærilegt við það, þótt bannað væri í l. frá 1930 að auglýsa vín. En ég verð að segja, að ég held, að stappað hafi nærri, að þau lög væru brotin hér á dögunum, þegar auglýst var í stórum stíl, að bökunardropar væru beztir frá Áfengissölu ríkisins. Og aðalástæðan fyrir því, að þeir væru beztir, var það, að í þeim væri svo mikill vínandi. Ef þar hefir ekki verið gengið á snið við ákvæði þessara laga, þá veit ég ekki, hvernig á að fara að því.

Þá minnist hv. þm. á till. mína og hv. þm. Dal., sem við bárum fram við 2. umr., en tókum þá aftur. Ég hafði hugsað mér, að við bærum fram sameiginlega till. aftur, en ég næði þá ekki í hv. þm., er ég lét till. frá mér fara. Till. er að mestu hin sama, aðeins sett á annan stað.

Hv. þm. Ísaf. vildi nú draga það út úr þessari till., að smáskammtalæknarnir yrðu samkv. henni undanþegnir öllum skyldum þjóðfélagsborgaranna sem slíkir. Það væri sama, hvernig þeir stæðu í stöðu sinni. Það er að vísu rétt, að með frv. þessu eru ýmsar skyldur lagðar á herðar læknanna, en um það, hvernig þeir rækja þær, fer nú að mestu eftir því, hvaða maður stendur á bak við þær, hjá heim, er skyldan hvílir á. Ef lyndiseinkunn læknanna er önnur en ætti að vera, Þá er lítið gagn að þessum ákvæðum. Aðalaðhaldið er vitanlega það, að svipta má þá rétti til að lækna. En það ákvæði nær eftir till. mínum líka til smáskammtalæknanna. Ég ætla þess vegna, auk þess sem smáskammtalæknarnir verða að uppfylla allar borgaralegar skyldur, alveg eins og hverjir aðrir borgarar þjóðfél., að með því að benda á þetta höfuðatriði, þá sé búið að slá niður ótta þann, sem hv. þm. Ísaf. vildi vekja á mönnum þessum, að þeir væru með mínum brtt. undanskildir lögum og skyldum þjóðfél.

Auk þessa talaði hv. þm. Ísaf. um, að engar hömlur væru settar fyrir því, hvað þessir menn seldu meðul sín og lækningar, og var helzt að skilja á honum, að hann ætlaðist til, að við þá ætti að semja um þetta eða félag þeirra eins og aðra lækna. En því er ekki hægt að koma við, vegna þess að smáskammtalæknarnir eru dreifðir út um allt land og hafa engan slíkan félagsskap með sér. Ég hefi ekki heldur orðið var við, að komið hafi fram neinar kvartanir um, að þeir, sem við þessar lækningar fást, væru sérstaklega dýrir á læknishjálp sinni og meðulum. En hitt er fullsannað, að hjálp þeirra hefir oft komið að góðu liði, og að þeir hafa á stundum læknað menn þar sem lærðir læknar hafi verið frágengnir. Þess vegna sé ég ekki neina ástæðu til af löggjafarvaldinu að rjúka nú upp til handa og fóta og setja ákvæði um, hvað þessir menn megi selja lækningar sínar og meðul. Slíkt er með öllu gersamlega ástæðulaust.

Þá var hv. þm. mjög hneykslaður yfir því, að ekki er gert ráð fyrir, að smáskammtalæknarnir þyrftu að ganga undir próf. En mér er spurn: hver á að prófa þá? Ekki þýðir fyrir þá að fara til landlæknis í því skyni; hann þekkir ekkert inn á þeirra fræðigrein, og ekki er heldur til neins að vísa á aðra svo kallaða lærða lækna í því skyni. Annars held ég, að lækningar smáskammtalæknanna hafi reynzt þannig, að ekki sé auðvelt að benda á, að af þeim hafi stafað hætta fyrir þjóðfél. Hinsvegar er það vitað, að lækningar þeirra hafa orðið að miklu liði, og að þeirra sé full þörf, þrátt fyrir alla lærðu læknana. Þess vegna álit ég, að löggjöfin eigi ekki að setja þær hömlur, er geri smáskammtalæknunum örðugra fyrir að vinna sín líknarstörf. En vitanlega er sjálfsagt að grípa í taumana, ef þeir gera eitthvað fyrir sér, og það er fullkomlega heimilt samkv. mínum brtt.

Lærðu læknunum getur líka yfirsézt, og misjafna dóma hafa þeir löngum fengið, þó að það sé nú náttúrlega sleggjudómur, sem sagt var hér á þinginu einu sinni, að sumir læknar dræpu fleiri en þeir læknuðu.