30.04.1932
Neðri deild: 64. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

555. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Mér kemur það undarlega fyrir, ef allir starfsmenn Ísafjarðarbæjar hafa fengið laun sín greidd. Veit ég ekki annað en mörgum hafi verið ógreitt 12. apríl fyrir mánuðina janúar, febrúar og marz. En ég skal grennslast nánar eftir þessu fyrir 3. umr. þessa máls.

Út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, að skólastjórar og kennarar væru starfsmenn bæjanna, þá er undarlegt, að bæjarstjórnir megi ekki ráða, hvaða menn eru ráðnir að skólunum. Eftir því, sem hv. þm. Vestm. benti á, hefir hæstv. stj. gengið hvað eftir annað á móti till. bæjarstjórna um skipun kennara við barnaskólana, bæði í Vestmannaeyjum, Rvík, Hafnarfirði og víðar. Það kemur því ekki til mála, að ríkisstj. hefði gert þetta, nema hún áliti þessa menn starfsmenn ríkisins. Ef þeir eru starfsmenn bæjanna, eiga bæjarstjórnirnar að ráða, hvaða menn eru teknir.