05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

1. mál, fjárlög 1933

Haraldur Guðmundsson:

Mér fannst einkar góð dæmisagan úr biblíunni, sem guðsmaðurinn, er síðast talaði, flutti í ræðu sinni. Hann tók svo til orða, að hann tryði því ekki, að Framsókn gæti risið undir syndum sínum gegn íhaldsmönnum fremur en Kain undir sinni synd. Í þessu sambandi vil ég minna á það, sem allir vita, að Kain og Abel voru skilgetnir bræður. Mun því hafa vakað fyrir guðsmanninum, að mótgerðir Framsóknar við íhaldið bæri að skoða sem sambærilegar við mótgerðir Kains við bróður sinn, því að í raun réttri séu þessir flokkar — Framsóknar og Íhalds — skilgetnir bræður og deilur þeirra og erjur einskonar bræðravíg. En hvort hv. þm. býst við, að endalokin á deilum þessum verði þau hin sömu og biblían greinir frá, skal ég láta ósagt. En ekki myndi ég harma það, þótt báðir þessir flokkar biðu pólitískan dauða. Ég get svo látið þessum guðfræðilegu hugleiðingum lokið og vil þá snúa mér að hvi, sem er tilefni þessara umr., en það er gagnrýni og athugun á gerðum stj. og flokks hennar undanfarin ár.

Núv. hæstv. stj. á nú bráðum hálfs áratugs afmæli. Því þó að hæstv. dómsmrh. hafi fengið hvíld í nokkra mánuði og Ásgeir komið í Einars stað, þá tel ég það eigi til breytinga; ég tel, að sama stjórnin hafi farið með völd í öll þessi 5 ár. Frá sjónarmiði okkar jafnaðarmanna skiptir það engu máli, hvað ráðherrarnir heita. Stefna þeirra og flokks þeirra — eða stefnuleysi —, framkvæmdir þeirra eða framkvæmdarleysi, þetta er það, sem máli skiptir. Af því leiðir það, að við getum ekki rætt um stjórnina og stefnu hennar án þess jafnframt að minnast flokks hennar. Hún verður að gjalda flokksins eða njóta, eins og líka flokkurinn hlýtur að gjalda hennar eða njóta, eftir því sem verðleikar standa til.

Hæstv. stj. segir, að „verkin tali“, og þetta er rétt — bæði þau verk, sem unnin eru, og ekki síður hin, sem óunnin eru eða vanrækt hefir verið að hrinda í framkvæmd. En verkin gera meira en að tala, — þau dæma líka. heir, sem hlýða á mál verkanna, komast ekki hjá hvi að heyra dóminn líka.

Ríkisstj. er nú senn 5 ára, og þær máttarstoðir, sem hún er byggð á, eru aðallega tvær; önnur er óttinn við íhaldið, en hin er ranglát kjördæmaskipun. Ástæðan til þess, að Framsókn tók við völdum 1927, var reynslan, sem fengizt hafði af stj. íhaldsins á undanförnum árum, en sú reynsla var slík, að meiri hluti þjóðarinnar vildi fyrir engan mun, að íhaldsstjórn yrði áfram við völd. Þessvegna veitti hún andstæðingum Íhaldsfl. meiri hluta á Alþingi; og þess vegna veitti Alþfl. á sínum tíma stjórn Framsóknar hlutleysi. Stj. hefir í raun réttri alltaf verið minnihlutastjórn, og er það enn. Það er á syndum íhaldsins, sem hún hjarir, því að svo er ríkur óttinn við íhaldið, að flestir kvíða því og óttast það, að ef framsóknarstj. fer frá, þá komist íhaldsfl. aftur að völdum.

Hæstv. forsrh. ræddi í gærkvöldi með miklum hávaða um hann mikla „kosningasigur“?, sem Framsókn hefði unnið við síðustu kosningar. Það er heldur að miklast yfir, þó að þeim lánaðist, eftir að hafa verið við völd um fjögurra ára skeið, að ná í 35% greiddra atkv., en 65% fellu á móti þeim. Fæstir myndu gerast til þess að gorta af af slíkum „sigri“. En svo gífurlega ranglát er kjördæmaskipunin, að þótt Framsókn lánaðist aðeins að ná í 35% greiddra atkv., þá fékk hún 23 þm. af 36, sem kosnir voru. Og á þessu ranglæti hangir stjórnin. Ég vil því endurtaka það, sem ég sagði áðan, að máttarstólpar stj., sem veldi hennar hvílir á, eru þessir tveir: syndir íhaldsins og ranglát kjördæmaskipun. Í raun réttri mætti segja, að stoðin væri aðeins ein: syndir íhaldsins, því að ein af höfuðsyndum íhaldsins er einmitt sú, að það vanrækti að lagfæra kjördæmaskipunina meðan það hafði nægan styrk til þess á þingi. Sannast þar hið fornkveðna, að „sér grefur gröf, þótt grafi“, því þessi höfuðsynd íhaldsins kemur nti því sjálfu í koll, en — því miður — öðrum alsaklausum einnig. En ágóðann af þessari vanrækslusynd Íhaldsfl. tekur mi stj. og hennar flokkur.

Ég vænti því, að af þessu, sem ég hefi nú sagt, að tilvera hæstv. stj. byggist á óttanum við íhaldið og sýndir þess, þá hljóti menn að sjá, að fyrsta krafan til framsóknarstj. hlaut að vera sú, að hún afneitaði íhaldinu og öllum þess verkum og öllu þess athæfi. Þetta var meginkrafan, sem hæstv. stj. varð að uppfylla, ef hún átti að eiga tilverurétt. Eigi því að mæla verk hæstv. stj. ber þess fyrst að gæta, hversu hún hefir orðið við þessari kröfu. Og því er skjótsvarað. Fyrstu árin tvö mátti segja, að nokkuð bæri á viðleitni hjá stj. og flokki hennar til þess að afneita stefnu íhaldsins. Fékkst þá fram nokkur þarfleg umbótalöggjöf, svo sem togaravökulögin, slylsatryggingarlögin, lög um verkamannabústaði, lækkun á kaffi- og sykurtolli og skipulag á síldarsölu, sem við jafnaðarmenn gengum inn á, þótt ekki væri þar farið að okkar tillögum; þá var líka gefið vilyrði, ef ekki hreint og beint loforð, um að skattalöggjöfinni skyldi breytt í þá átt að létta tollum af nauðsynjavörum. En það hefir hæstv. stj. síðan með öllu svikið, eins og kunnugt er. Undir lok þessa tímabils tók að bera mjög á því, að hæstv. stj. færi að hneigjast í íhaldsátt og taka upp siði fyrirrennara sinna. Við eldhúsumr. þá benti ég á, að hæstv. forsrh. væri farinn að skrýðast ósviknum íhaldsbuxum af fyrirrennara sínum, hv. 2. þm. Skagf. En hæstv. forsrh. mótmælti því harðlega og sór og sárt við lagði, að hann mundi aldrei nokkru sinni nota slíka íhaldslarfa. Sú hefir nú samt orðið raunin á, þrátt fyrir öll hreystiyrði ráðh., að hann, stj. öll og flokkur hennar hafa síðan hratt og stöðugt farið í íhaldsátt, og mun ég drepa á nokkur atriði, er sanna þetta.

Í skattamálum hefir hæstv. stj. svikið gefin loforð, eins og ég vek lítilsháttar að fyrir stuttu, og hún hefir gert meira: hún hefir algerlega hlaupið frá stefnuskrá sinni í þeim málum og tekið upp tollastefnu íhaldsins. Nægir í því efni að benda á frv. meiri hl. mþn. í skattamálum, er Framsókn og Íhald sömdu í félagi og stj. flutti. Lagaboðin um samvinnufélagsskap um síldarsölu hefir hún bannfært og framið það hermdarverk að drepa síldareinkasöluna. Að því er snertir nauðsynja framkvæmdir, svo sem Sogsvirkjunina, sem er hreinasta bjargráðafyrirtæki fyrir 2/5 til þjóðarinnar, þá hefir hæstv. stj. tekið upp baráttu gegn framkvæmd þessa verks, þegar íhaldsmenn hættu að beita sér móti því. Á sama hátt hefir hún gerzt til þess, eftir að íhaldið hafði fallizt á kröfur okkar jafnaðarmanna um ráttlátari kjördæmaskipun, að taka upp harðvítuga baráttu gegn þeim kröfum, og í þeirri baráttu hefir hún svo langt komizt, að hún hefir brotið allar þingræðisreglur, notað konungsvaldið til þess að rjúfa þing og rekið þm. heim. Og loks hefir hún og flokkur hennar skipað sér í fylkingarbrjóst þeirra, sem alltaf eru að reyna að lækka kaup verkalýðsins, og sjálft stjórnarblaðið hefir nú að undanförnu veitt útgerðarmönnum harðar ákúrur fyrir að hafa látið togarana fara út án þess fyrst að reyna að knýja fram kauplækkun, þó að það hefði kostað stöðvun um ófyrirsjáanlegan tíma.

Af þessu, sem nú er talið, sest, að hæstv. stj. hefir stöðugt færzt í íhaldsáttina og er nú sem stendur komin jafnvel aftur fyrir svartasta íhaldið. Það er því ekki nóg, að hæstv. forsrh. hafi farið í íhaldsbrækur hv. 2. þm. Skagf., sem hann fussaði svo við fyrir þremur árum, heldur hefir hann einnig skrýðzt afturhaldsúlpu, og konungur puntað upp á hann með krossum á bak og brjóst. Vænti ég nú, að hv. áheyrendur mínir nær og fjær fái séð, hvernig Framsókn hefir orðið við þeirri meginkröfu, sem gerð var til hennar í upphafi: að afneita íhaldinu og öllum þess verkum og athöfnum.

Allir hv. þdm., sem hér hafa talað, hafa farið nokkrum orðum um ástand það, sem ríkir hér af völdum kreppunnar. Ég minnist þess, að á vetrarþinginu 1931 átti ég sæti í fjvn. þessarar hv. d. Benti ég þá á, að nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir til að mæta kreppunni og flutti till. í þá átt. Þetta fékk engar undirtektir í n., og var ég einn í minni hl. Var þá gert óspart gys að krepputali okkar jafnaðarmanna, og íhaldsmenn og Framsókn skiluðu sameiginlegu nál. og brtt. við fjárlagafrv. þar sem gert var ráð fyrir, að engra sérstakra kreppuráðstafana væri þörf. Við jafnaðarmenn lýstum því yfir þá þegar, að við mundum greiða atkv. gegn frv. eins og íhald og Framsókn höfðu gengið frá því. En brtt. og frv. kom ekki til atkv. „því að hæstv. forsrh. tók til sinna ráða, eins og kunnugt er. Hann gerði ekki verkfall, eins og hann segir, að við jafnaðarmenn ætlum að gera nú. Hann gerði meira. Hann skipaði fyrir um verkbann, bannaði þinginu að vinna þau störf, er þjóðin hafði heimtað af því að vinna, og sendi þm. heim.

Á sumarþinginu 1931 fluttum við jafnaðarmenn frv. til allmikils lagabálks um ráðstafanir vegna kreppunnar. Enn var gert gys að krepputali okkar jafnaðarmanna, og málið fékk engar undirtektir. Þó er svo að sjá, að samvizkan hafi eitthvað ónáðað stj. eða flokksmenn hennar, því undir þinglokin var samþ. þál., sem ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp. Hún hljóðar svo:

„Neðri deild Alþingis ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka, á hvern hátt heppilegast sé að vinna gegn dýrtíð þeirri, sem nú ríkir í landinu, einkanlega í Reykjavík, svo og gegn yfirvofandi atvinnuleysi, og leggja tillögur þar að lútandi fyrir næsta Alþingi. Sérstaklega athugist:

a. Möguleikar til lækkaðrar húsaleigu.

b. Óeðlilega hár verzlunarkostnaður innlendrar og erlendrar vöru.

c. Leið til að vinna gegn yfirvofandi atvinnuleysi“.

Það orkar ekki tvímælis, að Alþingi er húsbóndi ríkisstj. og að með þál. er henni fengið verkefni, sem hún á að leysa úr þjóðinni til hagsbóta. En svo grátlega hefir nú viljað til fyrir ríkisstj., að í þessu efni hefir hún gert verkfall. Hún hefir ekki lagt fram neinar till. til þess að vinna gegn dýrtíðinni í landinu. Hún hefir enga möguleika bent á til lækkaðrar húsaleigu. Ekkert gert til þess að draga úr óeðlilega háum verzlunarkostnaði og ekki fundið, eða bent á, neina leið til þess að bæta úr atvinnuleysinu í landinu. Hæstv. stj. hefir ekkert gert, bókstaflega ekkert í þá átt, sem henni var falið að gera með þal. Hún hefir látið undir höfuð leggjast að framkvæma það, sem Alþingi skipaði henni. Svo gersamlega hefir hún virt vilja þingsins að vettugi, að segja má, að hún hafi hrækt framan í þá menn, sem að þál. stóðu og allir voru flokksmenn hennar, og haft að engu þá fyrirskipun, sem húsbóndi hennar gerði.

Alþingi hefir nú verið við störf fast að því í 2 mánuði, og finnst mér því ekki nema ofur eðlilegt, þó að einhverjir af tilheyrendum mínum fjærri Reykjavík láti sér detta í hug, að allan þennan tíma hafi þingið verið að glíma við stór og merkileg mál, eins og þeir alvörutímar eru miklir, sem nú standa yfir. Ég skal nú drepa á 10 frv., sem láta mun nærri, að séu 1/7 af þeim málum, sem þingið hefir haft til meðferðar þessa tvo mánuði.

Fyrst kemur þá stjfrv. um próf leikfimiskennara. Ekki er það stórmál. Þá er annað stjfrv., um nýjar brúargerðir, jafnhliða því, að skorið er niður allt framlag til brúa og annara verklegra framkvæmda. Þetta er að gera gys að þörfum landsmanna. Þá er frv. um friðun skírdags eftir kl. 6 að kveldi, að vísu ekki stjfrv. Þá er annað um kirkjugarða, og virðist þó, að meiri þörf hefði verið að hugsa um þá lifandi en þá dauðu, sem komast sennilega hjálparlaust yfir kreppuna. Þá má nefna frv. um kartöflukjallara og markaðsskála og annað um verðhækkunarskatt á skemmdum kartöflum, og tók það 7 daga hér í hv. d. að kveða þann draug niður. Enn eru ótalin frv. um markaskrár, um kosningu sáttanefnda, um geldingu hesta og nauta, um að opinberir starfsmenn skuli halda ræður í útvarp, o. fl. o. fl.

Ég hefi þá talið 10 mál, sem þingið hefir verið að dútla við í 2 mánuði, að vísu meinlaus mál flest, eða meinlítil, en ekki neinar kreppuráðstafanir. Ekkert er gert enn til þess að létta kreppuna og bæta úr atvinnuleysinu. Stj. ræður mestu um störf þingsins með forsetunum, sem háðir eru hennar flokksmenn, og hún á sök á því, að slík hégómamál sem ég taldi eru látin standa í vegi fyrir öðrum þarfari málum.

Stjórnarskrármálið og kreppuráðstafanir eru stærstu mál þingsins. Nú eru liðnir 2 mánuðir síðan stjórnarskrárfrv. kom fram, en fyrst í gær var hægt að taka það til 2. umr. í þeirri d., sem það var lagt fram í. Ástæðan til þess er sú, að framsóknarmenn hafa legið á till. sínum og reynt að tefja fyrir málinu eftir beztu getu. En á meðan er stj. og forsetar hennar að láta þingið dútla við mál eins og þau, er ég nefndi áðan, um kosningu sáttanefnda, kirkjugarða, markaskrár, friðun skírdags. geldingu hesta og nauta, o. þ. h. Þegar rætt er um kreppuna, tala sumir menn um hana eins og einhverja drottins ráðstöfun, sem dauðlegir menn verði að beygja sig fyrir í auðmýkt og undirgefni. Slíkt er vitaskuld hin mesta firra. Ég ætla ekki að ræða um eðli kreppunnar eða orsakir hennar nú, heldur reyna að gera tilheyrendum mínum nokkra grein fyrir því, í hverju hún lýsir ser. Kreppan lýsir sér í því, að þjóðin eða mestur hluti hennar á erfitt með að fullnægja þörfum sínum, svo sem um fæði, klæði, húsnæði og lífsnauðsynjar yfir höfuð. Skellur kreppan harðast á þá, sem ekkert hafa fyrir sig að leggja, nema ávöxt vinnu sinnar. Að vísu kemur kreppan einnig fram við þá, sem eignir eiga og ráða yfir miklu fjármagni. Gróði þeirra minnkar. Getur jafnvel farið svo, að þeir tapi meiru eða minna af eigin fé eða annara. En þeir verða ekki harðast úti. Þeir líða ekki skort. Þess vegna er það, sem nú kallar að, að létta undir með þeim, sem ekki geta fullnægt lífsnauðsynjum sínum vegna atvinnuskorts eða verðfalls afurða sinna. Svo er þetta frá mínu sjónarmiði. Aðrir líta ef til vill fremur á hag eignamannanna, sem tapa einhverju vegna kreppunnar. Þetta er eðlilegt. Kreppuráðstafanirnar hljóta auðvitað að markast af því, hvaða stefnu landsmálaflokkarnir fylgja. Hvort þeir meta meira hag verkalýðs og allrar alþýðu, þ. e. almenningsheill, eða hagsmuni yfirstéttarinnar svo kölluðu, þeirra, sem eiga eða ráða yfir mestum hluta þjóðarauðsins. Um kreppuráðstafanir gildir því hið sama og um t. d. skattamál og viðskiptamál. Hver flokkur berst fyrir hagsmunum þeirra stétta eða manna, sem honum er annast um. Hver otar sínum tota. Hver flokkur reynir eftir megni að velta byrðinni af því fólki, er hann telur sig fulltrúa fyrir. Íhaldsmenn vilja ekki atvinnubætur. Þær kosta fé. Og þær gera erfiðara að knýja fram lækkun kaups. Framsókn er í þessu sem öðru sammála Íhaldsfl. Hvorugur flokkurinn vill atvinnubætur eða atvinnuleysisstyrki. Ráðir vilja „létta kreppunni“ fyrir yfirstéttina með því að lækka kaup og hækka tolla.

Ástandið hér á landi er óskaplegt. Á síðasta hausti fór hér fram talning atvinnulausra manna í kaupstöðum og kauptúnum. Þeir reyndust vera milli 2 og 3 þús. En eins og ég áður sagði, hefir ekki bólað á neinu hjá hæstv. stj. til að mæta kreppunni og sjá þessum monnutn fyrir vinnu.

Það má segja, að krepputímar séu prófsteinn á hverja stjórn og flokk hennar. Léleg stjórn getur setið við völd í góðæri, án þess stórkostleg vandræði hljótist af. En á krepputímum er léleg og úrræðalaus stj. stórhættuleg. Í eldraun kreppunnar sest, hver dugir og hver ekki. „Í raun skal kappann reyna“, segir máltækið. En hvað hefir stj. gert til að létta kreppuna hjá verkalýðnum, þeirri stétt, sem verst er stödd af öllum? Hjálpin hefir lýst sér í því, að stj. hefir gert stórmikið til að auka atvinnuleysið, og þar af leiðandi orðið til þess að lækka storkostlega tekjur þeirra manna; sem erfiðleikar kreppunnar þjaka harðast. Og þar við bætist svo tilraunir hennar. til að hækka tolla á nauðsynjum þessa fólks.

Ríkið hefir að undanförnu verið langstærsti atvinnurekandi landsins. Skal en taka nokkrar tölur úr bókinni „Verkin tala“, sem sýna þetta.

Á 3 árum, 1928–1930, hefir ríkið lagt til vega, síma, brúa, hafna og vita 8 millj. 30 þús. kr., eða til uppjafnaðar á hverju þessara ára nálægt 2700 þús. kr., og er þá ekki talinn með kostnaður af starfrækslu og viðhaldi síma, hafna, vita o. þ. h. Til opinberra bygginga hefir verið varið nálægt 7 millj. kr. á þessum 3 árum og hluta af árinu 1931.

Mér telst svo til, að á undanförnum árum, 1928–1930, hafi stjórnin til uppjafnaðar greitt milli 4 og 5 millj. hvert ár í vinnulaun við ýmsar opinberar verklegar framkvæmdir. Vegavinnan ein var árið 1930 um 150 þús. dagsverk. Hvað ætlar stj. að gera af slíkum framkvæmdum þetta ár? Til vega var lagt, eins og áður er sagt, um 2 millj. kr. til uppjafnaðar á hverju af þessum 3 árum. 4 næsta ári á samkv. frv. stj. að leggja fram 320 þús., þar í taldar brýr og sýsluvegir. Til nýrra síma, þar með taldir styrkir til einkasíma í sveitum, 85 þús., og til lendingarbóta 35 þús. Samtals verða þetta 435 þús. kr. Ef hætt er við þetta áætluðu vegaviðhaldi, þá verður þessi upphæð milli 900 þús. og ein millj. kr., þ. e. a. s., á sama tíma og atvinnuleysið steðjar að verkamönnum við það, að atvinnurekendur draga saman seglin og vísa fólkinu úr vinnu, þá er ríkið, sem er stærsti alvinnurekandi landsins, ómannúðlegra en óvaldir braskarar og rekur umsvifalaust mestan hluta verkamanna sinna út á gadd atvinnuleysis og bjargarleysis. Þegar verkafólkinu kemur verst, þá ætlar ríkið að senda heim 3 af hverjum 4, sem hjá því hafa unnið. Þetta eru atvinnubætur stj. á krepputímunum. Þó hefir stj. á undanförnum árum fengið til ráðstöfunar 161/2 millj. kr. umfram áætlun fjárlaga, og öll þessi 3 ár hafa jafnaðarmenn krafizt þess með frv. um jöfnunarsjóð, að nokkru af þessum stórtekjum umfram áætlun væri safnað í sjóð, til þess að jafna atvinnu milli ára. Ef lögin um jöfnunarsjóð hefðu verið komin og verið framfylgt síðustu 4 ár, þá væru nú í þessum sjóði fast að 5 millj. kr. En þessar tillögur hefir stj. með engu móti viljað fallast á. Hún kýs heldur að fleygja út öllu fénu, meðan vel árar, og vísa svo verkamönnum burt, þegar kreppan skellur á.

Sést á þessu, að stj. álítur, að ekki sé vandgert við verkamenn. En hvað gerir hún þá fyrir augasteina sína, bændurna, á þessum krepputímum? því er einnig fljótsvarað, ef litið er á fjárlagafrv. stj. Það á svo að segja að hætta að byggja brýr, vegi, síma og skólahús. Þetta er hjálpin, sem bændur þurfa að fá frá sjónarmiði stj. Kjöttollssamningnum hefir verið sagt upp, og ekki er það vitað, að stj. hafi hreyft hönd eða fót til að kippa því máli í lag. Hv. þm. Mýr. hefir reyndar farið til Noregs, en það er bezt að minnast sem minnst á þá ferð. Hann hefir sjálfur upplýst hér, að hann hafi eigi þorað að hreyfa málinu við ráðandi stjórnmálamenn í Noregi af ótta við, að það kynni að spilla málinu. Með því að fella niður atvinnu í kaupstöðum hefjr stj. líka stórspillt innlenda markaðinum, sem beztur og notadrýgstur hefir reynzt bændum. Engu er líkara en stj. vilji gera afurðasölu bænda jafnörðuga bæði innanlands og utan. Af þessu verður ljóst, að bændur eru ekki svo vel settir sem maður skyldi ætla, þar sem bændastj. er við völd.

Við skulum þá líta á þann stuðning, sem smábataútvegsmenn fá, því að það hefir átt að heita svo, að þessi stj. væri þeim hlynnt. Þeim er hjálpað með hvi að skera niður síldareinkasöluna, þegar verst gegnir. Þannig er þeim hjálþað við síldarútgerðina. Þeim er neitað um lán og styrk af þeim 200 þús., sem þó er heimild fyrir að nota, til þess að styrkja tilraunir til að koma fiskinum ísvörðum til útlanda. Líka er því neitað í frv., sem ég legg reyndar ekki mikið upp úr, að greiðslufrestur sá, er þar um ræðir, skuli ná til smáútgerðarmanna, sem mynda samvinnufélög.

Á síðasta ári var tekið í ríkissjóð, sem tollur og útflutningsgjald, 2 krónur af hverri síldartunnu, sem út var flutt, ef innflutningstollur er talinn með, og nú mun gjaldið vera kr. 1,50, þrátt fyrir þá lækkun, sem gerð var í sumar. Engin lækkun fæst á þessu gjaldi. Og stj. harðneitar, þegar hún er spurð, hvort hún vilji nokkuð gera til að koma saltfiskverzluninni í sæmilegt horf. —

Ég hefi þá drepið á nokkur hjálparráð hæstv. stj., en þó er eitt eftir enn, sem ekki má gleyma og hæstv. ráðh. telja stórmikla hjálp fyrir verkafólk, sem enga atvinnu hefir, fyrir bændur, sem ekki eru matvinnungar, meðan þeirra vörur eru í eins lágu verði og nú, og útgerðarmenn, sem eiga ekki fyrir skuldum. Stj. hefir ekki gleymt þessum mönnum. Hæstv. fjmrh. flytur nú þessu fólki sinn fagnaðarboðskap. Og hvernig hljóðar hann þá? Eitthvað á þessa leið virðist mér hann vera:

Verðlag á að hækka með lækkun á gjaldeyri og með því að leggja tolla á tolla ofan á nauðsynjar fólksins. Til viðbótar við vörutollinn, sem er 5–7%, er verðtollurinn 15 og 30%. Svo segir hæstv. fjmrh., að til viðbótar þessu vilji hann leggja á sérstakan verðtoll á „ónauðsynlegar vörur“, sem fluttar eru inn í landið, og eftir því, sem hæstv. ráðh. segir, þá á hann að vera hár, en það hefir hann ekki kallað, þó að tollurinn væri 30% fyrir utan vörutoll. Þá er gengisviðauki og verðtollur af tóbaksvörum, að ógleymdum bifreiða og bezínskattinum, sem er heinn tollur nauðsynjaflutninga, og hæstv. fjmrh. gerir ráð fyrir, að sá skattur einn nemi 350–400 þús. kr. Ef þessi frv. ná fram að ganga, þá mun hækkunin, sem af þeim leiðir, verða a. m. k. í milli 10 og 20% á tollabyrði hverrar meðal verkamannafjölskyldu. Þetta er nú fagnaðarboðskapur hæstv. fjmrh. Eftir hans till. á að neita þúsundum manna um atvinnu og lækka kaupið við þá fáu, sem vinnu fá áfram, og svo á að hækka allt verð með gengislækkun og tollum á tolla ofan.

Ég verð að segja það, að í öllu þessu lýsir sér svo grátlegur misskilningur á hlutverki ríkisstj., að ég hefi aldrei heyrt slíks dæmi. Þessar ráðstafanir eru að minni hyggju svo fjarri því að draga úr kreppunni, að þær þvert á móti verða til þess að auka stórkostlega á vandræðin.

Hvað hefir stj. gert til að bæta afstöðu okkar til viðskiptalanda okkar? Afurðaverð okkar fer að sjálfsögðu mikið eftir því, hverjir verzlunarsamningar nást við þau. Stórtíðindi hafa gerzt á þessu sviði. Ég drap á það áðan, að kjöttollssamningnum hefði verið sagt upp. Búið er að leggja 10% byrjunarverðtoll á fisk, sem fluttur er til Englands, og 15% verðtoll á fisk, sem fluttur er til Ítaliu. Mér er ekki kunnugt um, að stj. hafi gert neinar ráðstafanir til samninga við nokkurt þessara ríkja. Ég hefi séð það í blöðum, að Norðmenn hafi selt Rússum 30 þús. tunnur af íslenzkri síld síðastliðið ár, og hjá skilanefnd síldareinkasölunnar rotnar síldin niður. Hafi verið reynt að selja þessa síld, þá hefir það ekki tekizt. Það hefir verið fullyrt, að Spánverjar hafi í huga að segja upp tollasamningum við íslendinga, og ekki er kunnugt, að stj. hafi gert neitt í þessu efni. Það lítur út fyrir, að hæstv. stj. áliti, að þetta komi henni ekki minnstu vitund við. Þó er afstaða okkar í verzlunarmálum slík, að í öllum viðskiptalöndum okkar, að Miðjarðarhafslöndunum undanteknum, erum við stærri kaupandi en seljandi. Það er því enginn vafi, að ef skörulega væri að gengið, þá mætti greiða mikið fyrir sölu ísl. afurða í þessum löndum. Ég vil í þessu sambandi minna á, að við Alþýðuflokksmenn höfum flutt hér þáltill., um að reyna að ná samningum um viðskipti og gagnkvæm vörukaup við aðrar þjóðir, en því hefir ekkert verið sinnt ennþá.

Þá skal ég víkja að verzluninni innanlands. Skattstjórinn í Reykjavík hefir að fyrirlagi ríkistj. samið skýrslu um verzlunarkostnað í Reykjavík, og eftir henni er árlegur verzlunarkostnaður erlendra vara 13–14 millj. kr., eða hátt á 5. hundrað á hvert mannsbarn. Þetta er fróðleg skýrsla og góðra gjalda verð, en það er bara ekki nóg að afla skýrslna. Það verður að gera eitthvað til að draga úr þessum óhæfilega háa verzlunarkostnaði. En það hefir ekki komið ein einasta till. í þá átt frá stj. Ég sé ekki betur en að hæstv. stj. sé að gera gys að sjálfri sér með því að leggja þessa skýrslu fram, þegar ekki er bent á eitt einasta ráð til að lækka þennan feykilega kostnað. Það hefði þá verið betra að leggja skýrsluna aldrei fram, því að hún er þungur áfellisdómur yfir stj., þegar ekkert er að hafzt.

Ég tel, að eina verulega bótin í þessu máli væri það, ef hæstv. stj. hefði mannddm til að leggja til, og þingið að samþykkja, að taka alla utanríkisverzlun í hendur þjóðarinnar sjálfrar. Á erfiðleikatímum stríðsaranna var þetta gert að miklu leyti, og ég fullyrði, að erfiðleikar í verzlunarmálum okkar og atvinnumálum eru sízt minni nú en þa. Það er ekki hægt að gera sér von um verulegan og góðan árangur af þeim mörgu samningum, sem nú þarf að gera við erlend ríki, nema hægt sé samtímis að semja um kaup og sölu. Þá er hægt að nota þann hagkvæma verzlunarjöfnuð, sem við höfum í öllum viðskiptalöndum okkar, nema Miðjarðarhafslöndunum.

Eins og ég hefi áður tekið fram, þá hafa framsóknarmenn þverbrotið yfirlýsta stefnu sína í skattamálum og tekið upp tollastefnu íhaldsins, og jafnframt aukið við nýjum álögum. Stj. hefir sett sig á móti hagsmunum verkafólksins og jafnvel gengið lengra en íhaldið í kröfum um kauplækkun. Í staðinn fyrir að bæta úr kreppunni hefir stj. aukið hana með því að stofna til aukins atvinnuleysis og hækkað vöruverðið með gengislækkun og auknum tollum. Hún hefir afnumið síldareinkasöluna, hið lögboðna samvinnuskipulag, sem stj. hefir kallað hana, og afhent síldarsöluna erlendum kröskurum og jeppum þeirra. Hæstv. stj. heftr þar með skapað þá hættu fyrir verkamenn, að þeir vinni að þessari framleiðslu allt sumarið, án þess að þeir fái nokkurt kaup, alveg eins og ástandið var áður en einkasalan komst á fót. Hún hefir hafið illvíga barattu gegn því, að allir fái jafnan kosningarrétt, hvar sem þeir eru í landinu. Hún er á móti virkjun Sogsins, sem væri stórmikil atvinnubót á þessum krepputímum og mundi verða til stórmikilla hagsbóta fyrir mikinn hluta þjóðarinnar og skapa möguleika fyrir ótal iðngreinir hér á landi. Hæstv. stj. ætlar að láta saltfisksöluna afskiptalausa og enga samninga gera við erlend ríki eða reyna að fyrirbyggja, að þau með tollum geri okkur ómögulegt að selja þar okkur framleiðsluvörur.

Hæstv. forsrh. hélt einkennilega ræðu í gærkveldi. Hann talaði mikið um ábyrgðarleysi okkar Alþýðuflokksmanna, þar sem við vildum ekki samþykkja fjárlög, sem gera ráð fyrir, að verklegar framkvæmdir verði skornar svo niður, að þær verði ekki nema 1/4 af því, sem áður hefir verið. Hann sagði, að það væri óafsakanlegt ábyrgðarleysi, að við skulum ekki vilja samþ. verðtoll og viðbótarverðtoll á nauðsynjum fólksins um leið og kaupgjald verkafólksins lækkar. Þetta segir forseti þeirrar stj., sem í heimildarleysi hefir ráðstafað 161/2 millj. kr. af ríkistekjum umfram heimild, nú á fáum árum, hann, sem heldur, að fólkinu verði hjálpað með því að auka á atvinnuleysi og hækka vöruverðið með tollum og lággengi. Ég verð að segja, að þá er farið að kasta grjóti úr glerhúsi, þegar hæstv. ráðh. er að tala um ábyrgðarleysi okkar Alþýðuflokksmanna.

Því verður ekki neitað, að á stj. og flokki hennar hvílir ábyrgð, sem hún getur ekki skorazt undan. Hún á að gera það, sem fært er, til að létta mönnum kreppuna, og þá fyrst og fremst þeim, sem harðast verða úti. Það felst stundum meira ábyrgðarleysi í því að láta það ógert, sem gera þarf, heldur en jafnvel að gera það, sem ætti eða mætti láta ógert. Og þessi vanrækslusynd hæstv. stj. er ein af hennar stærstu syndum, þó að margar séu stórar.

Um ráð við kreppunni skal ég ekki segja margt að þessu sinni. Að óbreyttu núverandi þjóðskipulagi verður eigi komizt hjá kreppum. En þó má mikið gera til að draga úr hörmungum þeirra með því að sjá um, að framleiðslustarfsemin stöðvist eigi, og halda uppi atvinnubótum við gagnlegar framkvæmdir og létta tollum og sköttum af verkalýðnum. Hæstv. stj. og Íhaldsfl. hafa um þetta aðra skoðun. Bæði vilja bæta úr kreppunni með lækkuðu kaupi, minnkaðri atvinnu og hærra vöruverði. Hv. þm. G.-K. telur, að ekki séu önnur ráð til en annaðhvort að lækka kaupið eða gera eininguna Smærri, þ. e. a. s. fella gjaldeyrinn í verði.

Hv. þm. sagði, að verkafólkið hefði spennt bogann svo hátt, að það hefði mergsogið atvinnufyrirtækin á undanförnum árum. Ég held, að fleiri en verkamenn hafi þar komizt á spenann og sogið drýgra en þeir. Mér er kunnugt um, að stórútgerðarmenn hafa tekið undan tugi og aftur tugi þúsunda, auk persónulegrar eyðslu, af arði sínum og sett t. d. í byggingu stórhýsa. Einn þeirra, sem hv. þm. G.-K. þekkir vel, hefir varið 1–2 millj. kr. til landbúnaðarframkvæmda, og það fé getur hann hvergi hafa fengið nema frá útgerðinni. Fleiri en verkamenn hafa komizt á spenann þar.

Hæstv. fjmrh. segir, að bjargráðið sé að lækka framleiðslukostnað allan og hækka voruverð, þ. e. a. s. lækka kaupið og hækka vörurnar í verði. Ekki greinir því mikið á þar, hæstv. ráðh. og hv. þm. G.-K. Hæstv. forsrh. lagði svo mikið kapp á að lækka kaup verkamanna á Blönduósi, úr 95 au. niður í 85 au., að hann sveifst þess ekki að leggja í hættu kjötfarm frá þessum stað, sem hann sagði, að hefði verið hálfrar millj. kr. virði. Mikið skal til mikils vinna. Hann stofnaði framleiðsluvöru bændanna, sem var hálfrar millj. kr. virði, í hættu, til þess að geta lækkað kaup verkamanna á Blönduósi um 10 aura. Það kom ekki til stöðvunar, en skynsamlegra hefði það verið að ganga inn á þennan 10 aura mismun heldur en að láta kjötið ónýtast suður í London, ef til stöðvunar hefði komið.

Svo var það eitt atriði að lokum. Það hefir verið venja, að landsreikningur væri kominn til þm. fyrir eldhúsumræðu. En ná að þessu sinni er landsreikningur fyrir 1930 enn ókominn í hendur þm. Frv. sýnir, að hann nemur milli 24 og 25 millj., og er það hærri upphæð en nokkurn tíma hefir sest hér á landsreikningi. Hvað er talið í þessum 24 milljónum? Ég vona, að astæðan til þess, að landsreikningurinn er ókominn, sé ekki sú að hæstv. stj. þori ekki að láta hann liggja fyrir þinginu, þegar eldhúsumræður standa. Ég vona, að það sé ekkert nema trassaskapur — ein af vanrækslusyndum hæstv. ríkisstj.