11.05.1932
Neðri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2048 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Pétur Ottesen:

Ég skal ekki þreyta hv. þd. á kappræðum um þetta mál. Ég vil aðeins geta þess, að þó ekki sé um meira að ræða en er í till. hv. þm. Seyðf., þá felast í henni allir þeir hættumöguleikar, sem til eru í þessum efnum. Eins og bent hefir verið á, munu útlendingar hiklaust líta á þessa undanþágu, ef veitt verður, sem merki um það, að Íslendingar séu að hverfa frá þeirri stefnu, sem þeir hafa fylgt með fiskveiðlöggjöfinni, og það þarf sjálfsagt ekki að fara í neinar grafgötur til að finna það, að þeir munu ganga á lagið og gera kröfur til þess, að engri þjóð verði gert lægra undir höfði en annari, og þá mun verða erfitt fyrir okkur að standa á móti slíkum kröfum. En afleiðingin af þessu verður óhjákvæmilega sú, að fiskveiðar útlendinga færast mjög í aukana hér við land, en að sama skapi þrengjast á erlendum markaði sölumöguleikar á þeim fiski, sem við öflum, og hlýtur þetta því að leiða til mikils hnekkis á þessum atvinnurekstri landsmanna.

Út af ummælum hv. þm. Vestm. um það, að ríkisstj. gæti án lagabreyt. veitt útlendingum leyfi til að leggja upp síld á Seyðisfirði, þá get ég ekki tekið undir það. Þvert á móti vil ég leggja varnað við því, að stj. fari hænufet lengra í þessum efnum heldur en lögin heimila. Það er sama hætta í þessum efnum, hvort stj. eða þing veitir þessa undanþágu, en það er tvöföld hætta, ef slíkar undanþágur eru gerðar í trássi við landins lög.