09.05.1932
Neðri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2119 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

463. mál, fátækralög

Halldór Stefánsson [óyfirl.]:

Það var snemma þings, að ég ásamt fleiri þm. bar fram frv. um breyt. á fátækralögunum. Því var vísað til allshn. og var form. hennar einn af flm. frv. En þrátt fyrir það hefir ekki enn, eftir allan þennan tíma, neitt bólað á frv. frá n. Hinsvegar er hér komið frv. frá Ed., og er ekki óhugsandi, að það geti náð afgreiðslu á þessu þingi. Þótt umbætur þess séu takmarkaðar, þá er samt, eins og á stendur, rétt að taka þeim heldur en að láta allt ógert. Það er þó spor í áttina. Ég vil því leggja áherzlu á það við hv. allshn., að hún afgr. frv. þegar í stað, enda er það tiltölulega einfalt mál og auðvelt að taka afstöðu til þess á stuttum tíma.