05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

1. mál, fjárlög 1933

Magnús Guðmundsson:

Ég hefi ekki nema stundarfjórðung til andsvara og verð því að fara fljótt yfir sögu.

Hæstv. forsrh. sagði, að málafærslumaðurinn talaði gegnum mína ræðu. Hver er nú beztur kostur málafærslumanna? Að fara með rétt mál, því að geri hann það, er hægt á því að byggja réttlátan dóm. Þetta gerði ég. Ég fór með það eitt, sem rétt var. Það hefir og hæstv. forsrh. viðurkennt með því að gera enga tilraun til að hrekja neitt af því, sem ég sagði. Eitt, aðeins eitt, var það, sem ráðh. vildi bera í bætifláka fyrir, og það var Alþingishátíðarkostnaðurinn. Ég skal með ánægju draga hann frá. Hann er eða var um 800 þús. kr., og auk þess má telja nýja Þingvallaveginn, sem kostaði rúml. 300 þús. kr., að mig minnir. Ég neita alveg aftur á móti að taka Þingvallabraskið, 200–300 þús. kr., sem fóru í færslu húsa og kostnað af því.

Hólið um Jóhannes Jóhannesson fyrrv. bæjarfógeta kemur nú, en nokkuð seint. Aðallega hefir maður orðið var við róg og níð í hans garð, en gott er að hann fær nú viðurkenningu starfs síns.

Hæstv. forsrh., sagðist mundu taka vel öllum sparnaðartill. Gott og vel. Það skal verða reynt á það. Hann kvaðst hafa lækkað laun embættis- og starfsmanna ríkisins. En það hefir ekki nær því alstaðar tekizt. Stundum hefir tekizt svo óhönduglega til, að undirmönnum hefir verið tilkynnt launalækkun, en síðan laðzt að tilkynna það yfirmönnunum, er greiða þeim launin. Hæstv. ráðh. sagðist hafa fækkað embættum og lagt niður vélaeftirlitsmanninn. Ég get ekki þakkað honum það, því það starf var stofnað í algerðu heimildarleysi og laun greidd utan allrar lagaheimildar, og endurskoðendur landsreikninga hafa á hverju þingi kvartað yfir þessu. Ég hefi tekið eftir því, að í svörum við aths. yfirskoðunarmanna landsreikningsins 1930 kveðst stj. hafa afnumið eitt embætti við bifreiðaeftirlitið. Sá maður, er það embætti hafði, var gerður löggæzlumaður, og sjálfur telur hann sig gegna sama starfi og áður.

Hæstv. fjmrh. þarf ég ekki neinu að svara. Hann ber ekki ráðherraábyrgð á eyðslu undanfarinna ára. Hann ber aðeins flokksábyrgðð.

En ég þarf að segja nokkur orð við bæði hæstv. dómsmrh. og hæstv. forsrh. Ég ætla fyrst að svara hinum fyrrnefnda nokkrum orðum.

Það mátti svo heita, að þessi ráðh. svaraði engu því, sem ég mælti í hans garð, og munu þó margir mæla, að ég hafi deilt á hann allharðlega.

Aths. mínum um bílakostnaðinn svarar hann með því, að pósthúsið hafi fengið sér bifreið og vegamálastjórinn. Pósthúsið hefir fengið sér bíl til að flytja í póst í nágrenni Rvíkur, og vegamálastjórinn þarf að vera á sífelldu ferðalagi um allt land starfs síns vegna. Ætlar ráðh. því að fara að gerast póstmaður eða hafa eftirlit með vegaviðhaldi? Það lítur út fyrir það, úr því að hann hér sig saman við pósthúsið og vegamálastj. Það, sem ég átaldi um bifreiðarnar, var hið gengdarlausa bruðl í þeim efnum. Allur bifreiðakostnaður, að undanskildu öllu því, sem fært hefir verið til gjalda á Alþingishátíðarkostnaði, sem er stórfé, hefir verið hjá stj. einni um 42000 kr. á ari árin 1928 —1930, en um árið 1931 liggja ekki enn fyrir skýrslur. Langmestan hluta af þessu hefir dómsmrh. notað. Og a. m. k. annað eins hefir hann notað í snattferðir á varðskipunum og sennilega miklu meira. Honum þykir laun Eggerts Claessen hafa verið þá í Íslandsbanka, og ég viðurkenni, að þau voru það á tímabili, en miklu meira hefir hæstv. ráðh. kostað ríkissjóðinn, þó að aðeins sé tekið tillit til beinnar fjarnotkunar hans til persónulegra þarfa. Hann er sá langeyðslusamasti maður, sem ég hefi þekkt. Ekki beint fyrir það, að honum þyki gaman að vera í veizlum og gera sjálfan sig og aðra samkvæmishæfa, heldur einkum af því, að hann getur aldrei haldið kyrru fyrir. Hann er alltaf á sífelldu flökti og getur aldrei haldið kyrru fyrir. Hér á þingi getur hann aldrei kyrr verið. Það er eins og alltaf stingi hann þúsund títuprjónar. Og það er ekki nóg með, að ráðh. sé einn á þessu sífellda ferðalagi. Hann vill líka alltaf hafa um sig heila hirð, eins og nokkurskonar lífvörð. Þetta verður dýrt fyrir ríkissjóðinn. Það er dýrt fyrir ríkissjóðinn að taka varðskip, smala mönnum af ýmsum höfnum til ákveðins veizlustaðar og flytja þá heim aftur. Hvað ætli allar veizlurnar á Laugarvatni hafi kostað? Ég man, að í landsreikningnum 1929 voru færðar til gjalda, mig minnir, 149 kr. fyrir nesti boðsgesta að Laugarvatni. Takmarkalaus hégómagirni veldur miklu af þessum kostnaði.

Um héraðsskólana er það að segja, að ég man vel eftir lánsheimildinni 1929, en hún hefir ekki verið notuð, og er það skýrt tekið fram í fjármálaræðu Einars Árnasonar á vetrarþinginu 1931. Ráðh. for því hér með bein ósannindi, er hann sagði, að þessi heimild hefði verið notuð. Hún hefir ekki verið notuð, heldur ausið úr ríkissjóði þvert ofan í gildandi lög, og mun ég ræða betur um þetta, er landsreikn. 1930 kemur hér til meðferðar.

Litla-Hraunshælið nefndi ráðh. aðeins, og má ég ekki taka neinn tíma til að ræða um það.

Að öðru leyti snerist ræða ráðh. um Íslandsbanka. Það er einkennilegt, að á hverjum eldhúsdegi kemur ráðh. með einhverja rannsóknarskýrslu nýrrar nefndar eða eitthvert rit, sem hann les upp úr. Þess vegna hefir stundum verið erfitt að svara honum. En nú brast honum bogalistin. Nú upplýsti hann sjálfur það, sem hann ætlaði að leyna. Honum fataðist stóriðjan, og mun ég nú sýna fram á það.

Hann segir, að Íslandsbanki hafi tapað um 20 millj. kr. á 25 árum. Það er alltaf há upphæð; það er viðurkennt, en a. m. k. 15–18 millj. af þessu hefir bankinn sjálfur borgað aftur af viðskiptaágóða við sjávarútveginn, sem hann því nær eingöngu skiptir við. En hvað ætli hæstv. ráðh. borgi ríkissjóði mikið af því tapi, sem hann hefir valdið ríkissjóði. Undir 80 millj. kr. hefir hann og hans stj. notað á þessum síðustu 4 árum. Aðfarir Íslandsbanka eru smámunir í samanburði við þetta.

Og svo er enn eitt. Hæstv. ráðh. nefnir töp Íslandsbanka á 4 eða 5 nafngreindum mönnum. Hann var svo óskynsamur að lesa upp, hvernig skuld þeirra var um hver áramót. Af þessum upplestri heyrðist það, að skuldir þessara manna hafa einmitt aukizt langmest 1928–1930, meðan núv. stj. var við völd. Nú hygg ég, að þótt þessi ráðh. sé ekki sterkur í röksemdafærslunni, þá skilji hann þó það, að ef það er synd mín og þeirra, sem voru með mér í fyrrv. stj., að bankinn hefir tapað á þessum mönnum, þá verður núv. stj. og þá hann sjálfur að bera ábyrgð á töpum, sem mynduðust í hennar tíð, og skýrslan sýnir, að það var stórmikill hluti. Hæstv. ráðh. hefir því með þessu löðrungað sjálfan sig og hæstv. forsrh., sem var form. bankáraðsins 1927–1930. Þegar þessi ráðh. ætlaði að fara að höggva til annara, þá tókst ekki betur en svo, að höggið lenti á honum og samverkamönnum hans.

Ég mótmæli þeirri óhæfu, að þessi ráðh. skuli í þessum umr. hafa leyft sér að ráðast með hrakyrðum og brigzlum á minningu nýlátins embættismanns, Gísla Ólafsson landssímastjóra. Slíkt er fáheyrt, og getur ekki afsakazt með öðru en algerðu ábyrgðarleysi. Ég hefi gaman af að sjá, hvort hæstv. forsrh. getur látið vera að hreinsa skarnið af minningu þessa látna fornvinar síns, sem hann sjálfur skipaði landssímastjóra.

Hæstv. dómsmrh. spurði, hvort ég sæi ekki magrar kýr á beit nærri túni mínu. Jú, ég sé þær, ég sé þær margar og magrar, sármagrar; grindhoraðar, bæði í mínu túni og utan þess. Og ég sé líka, að þær eru allar brennimerktar hæstv. stj. og langflestar með J.J., og ætla ég, að hæstv. dómsmrh: kannist við það brennimark.

Hví hafa ekki Rvík og önnur sveitarfélög landsins safnað sjóðum á undanförnum árum eins og krafizt er af stj.? Þannig spurði ráðh. Svarið liggur opið fyrir. Hvorki Rvík né önnur sveitarfélög hafa fengið fé inn í milljónatali umfram áætlun, vegna þess, hvernig þeirra tekjulöggjöf er varið. Ekkert verulega meir getur komið inn en áætlað er. Aðaltekjurnar eru fastakveðin útsvör fyrir fram. Hér er því ólíku saman að jafna, og spurningin út í hött.

Þá kem ég að hæstv. forsrh. Hann barðist mjög um og taldi, að ræða hv. 3. þm. Reykv. hefði staðfest allt, sem ráðh. sagði á þingmálafundum í vor, um að við sjálfstæðismenn hefðum gert fasta og órjúfanlega samninga við jafnaðarmenn um að eyðileggja rétt héraðanna til þess að hafa sérstaka fulltrúa. Það verður væntanlega fullt tækifæri til að tala betur um þetta, þegar stjskrfrv. kemur hér til umr., en nú þegar vil ég benda á, að staðreyndirnar sanna, að hæstv. ráðh. fer hér með blekkingar. Till. sjálfstæðismanna byggja einmitt á þeim grundvelli að vernda þennan rétt kjördæmanna, og jafnaðarmenn ganga einmitt inn á þetta. Hvar er þá hinn fasti órjúfanlegi samningur? Hann er hvergi. Allt, sem gerðist í málinu, hefir verið sagt og ekkert undan dregið. Hæstv. ráðh. á eftir að bíta úr nálinni um þessar fullyrðingar sínar. Því skal ég lofa honum.

Þá minntist sami ráðh. á verkföll og samúðarverkföll, og lýsti hann hv. 3. þm. Reykv. heldur illa í því sambandi. Öðruvísi mér áður brá! ! Í 3 ár voru þeir nánir samherjar, og hefir verkfallshneigðin hjá hv. 3. þm. Reykv. sjálfsagt ekkert aukizt síðan. Kemur hér fram, sem oftar, að hæstv. stj. metur manngildi manna eftir því, hvort þeir eru með henni eða móti.

En hvað er svo um þetta verkfall og samúðarverkfall, sem hæstv. forsrh. nefndi? Það á að vera í því fólgið, að jafnaðarmennirnir greiði atkv. á móti tekjuaukalögum hæstv. stj. á þessu þingi og ef til vill fjárl. líka. Þetta kallar nú hæstv. forsrh. verkfall. Verkbann segir hv. þm. Seyðf. Hann telur sig eiga svo mikla hönk í bakið á þeim, að þeir eigi að greiða atkv. með stj., og ef þeir leyfi sér að greiða atkv. á móti, þá sé það verkfall. Ég veit nú að sjálfsögðu ekki vel um, hve mikið er óslitið af hinum innilegu böndum milli Framsóknar og jafnaðarmanna, en ég get ekki vel skilið þessa röksemdafærslu. Mér skilst, að það gæti verið verkfall, ef þeir neituðu að greiða atkv. Greiði þeir atkv. á móti, sýnist mér, — svo að ég noti annað þekkt hugtak —, vera um handafl að ræða.

Ég tók eftir, að hæstv. forsrh. mændi vonaraugum til okkar sjálfstæðismanna um, að við gerðum ekki það, sem hann kallar „samúðarverkfall“ með jafnaðarmönnum, það er að segja, að við greiðum ekki atkv. gegn fjárl. og með nauðsynlegum tekjulögum.

Um leið og ég bendi á, að ég kannast alls ekki við, að ég geri verkfall, þótt ég greiði atkv. gegn einhverju frv., skal ég vísa til þeirrar skýru yfirlýsingar, sem ég áður hefi gefið hér í þessari hv. d. Af þeirri yfirlýsingu er það auðsætt, að það veltur á aðferð hæstv. stj. sjálfrar og hennar flokks, hvort úr þessu getur greiðzt eða ekki, og vænti ég, að hæstv. stj. þyki þá vel, er hún hefir bæði tögl og hagldir, þó að dálítið sé haldið í um miðju reipisins. Vilji hæstv. stj. beita kúgun í stærsta málinu, sem fyrir liggur þessu þingi, þá verður hún sjálf að taka afleiðingunum. Og það getur ekki skoðazt nema orðagjálfur, þegar hæstv. ráðh. talar um, að hann óski samvinnu, ef hann svo einskis réttlætis vill unna í hinu stærsta réttlætismáli þingsins.

Að lokum vil ég taka það fram, að ég tel Sjálfstæðisflokkinn ekki hafa tapað í kosningunum í sumar, þar sem hann fékk nærri helming atkv. Ég þekki ekki neinn stjórnmálaflokk í heiminum, sem hefir tiltölulega jafnmikið fylgi. En ranglát kjördæmaskipun veldur því, að hann skuli vera í minni hluta á Alþingi.