21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (2826)

30. mál, vigt á síld

Hannes Jónsson:

Ég hefi ekki fundið til þeirrar knýjandi þarfar, sem hv. flm. þessa frv. heldur fram, að sé á því, að löggjafarvaldið fari nú að hlutast til um það, að ekki megi takast samningar um það milli þeirra, sem hlut eiga hér að máli, hvort heldur skuli vega bræðslusíldina eða mæla. Ég hefi ekki fundið þörfina fyrir þessu, og því hefi ég, þegar þetta mál hefir verið til umr. hér á fyrri þingum, ekki fundið ástæðu til að ljá því atkv. mitt, og svo mun enn verða að þessu sinni. Þegar um er að ræða, að tveir aðiljar komi sér saman um viðskipti sín á milli, er ekki rétt, að löggjafarvaldið fari að blanda sér í það og hindra, að slíkir samingar geti tekizt. Ég játa og, að mér einnig að öðru leyti er óljúft að blanda mér í þær sérstöku deilur, sem af þessu hafa orðið. Þeir aðiljar, sem standa einkum að þessum deilum, hafa komið sér það vel saman undanfarna mán., að ég af þeim ástæðum hefi enga löngun til að komast upp á milli þeirra eða stuðla að því, að löggjafarvaldirð geri það, auk þess sem ég hefi góða trú á því, að Samvinnufélagi Ísfirðinga muni takast prýðilega að semja um þessi mál við hlutaðeigandi verksmiðju. Ég er og það mikill trúmaður, að ég vil ekki, að það sé sundur slitið, sem guð hefir sameinað, og að löggjafarvaldið fari að blanda sér í samkomulag þessara tveggja flokka, og álít enda, að það sé þarflaust, vegna undanfarinnar reynslu af samúð þessara aðilja, en hinsvegar áliti ég ekki illa til fallið, að þeir blönduðu blóði saman í sviknu síldarmáli frá Kveldúlfi.