21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (2831)

30. mál, vigt á síld

Ólafur Thors:

Það er auðvitað misskilningur hjá hv. þm. Barð., eins og sumt fleira, að ekki komi málinu við, hvort betra sé að mæla eða vega síldina. Hér er um það að ræða, hvort nema eigi úr lögum heimild til þess, að seljandi og kaupandi geti komið sér saman um, hvora aðferðina þeir kjósa. (BJ: Einskis samkomulags þarf með; seljendur geta krafizt að fá síldina vegna). Já, en ég myndi varla geta heitið refjahundur, þótt ég kærði mig ekki um að kaupa síldina, ef krafizt væri, að hún væri vegin. (BJ: Ég þakka fyrir upplýsingarnar). Annars hér ég engan kvíðboga fyrir ósamkomulagi milli mín og sjómannanna út af þessu. Ég veit, að ef þessir menn, sem borið hafa úr býtum 15–18 hundruð kr. yfir síldartímann, kæmu hér inn í deildina og ættu að gera út um málið, myndu þeir vera á móti þessu frv., að líkindum hver einasti. Þetta frv. er ekki áhugamál sjómanna, heldur annara, sem vilja svívirða menn, sem eru algerlega saklausir, manna eins og hv. þm. Ísaf., sem segir hér frammi á göngum við þingmenn, að sér detti ekki í hug, að ég eða við bræður eigum minnstu sök á Hesteyrarmálinu, en kemur svo með svívirðilegar dylgjur og aðdróttanir hér í deildinni. Ég veit, að þær hvatir ráða þó ekki aðstöðu hv. þm. Barð., heldur byggist hún á þeim misskilningi, að hann sé að vinna hér fyrir sjómenn fyrir vestan.

Hv. þm. Ak. hefir bent á, að skekkjur á málum eru oft kaupanda til tjóns. Hér er ekki um neina hnitmiðaða nákvæmni að ræða, enda láta engir, sem hlut eiga að máli, svo smávægileg atriði standa í vegi fyrir viðskiptum. Skekkjan á Hesteyrarmálunum varð 6%. En eftir því sem Þorkell Þorkelsson segir, geta vogir vegið stórlega rangt. Ef hv. þm. eru að leita að hinu rétta í málinu, þá taki þeir þessi rök til greina.

Hv. þm. Mýr. sagði, að hann hefði spurt yfirmenn á skipum Kveldúlfs um þetta mál. Því vill hann ekki segja, hverjir það eru?

Ég vil að endingu taka það fram, að það er mikill misskilningur, ef menn halda, að flýtir sé að því að vega síldina. Að vísu getur staðið svo á, að ekki þurfi að vera töf á því, en þar sem þarf að koma fyrir vogartækjum á gömlum stöðvum eins og á Hesteyri, má það heita ókleift vegna tafa og kostnaðar.