21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2833)

30. mál, vigt á síld

Bergur Jónsson:

Svar hv. þm. G.-K. við fyrirspurn minni, hvað hann mundi gera, ef seljendur krefðust þess samkv. 1. frá 1930, að síldin væri vegin, hefir sannfært mig um það enn betur en áður, að nauðsynlegt er að lögbjóða þetta. Hann sagðist beinlínis ætla að hafa þá aðferð að kúga seljendur til að hlíta því, að síldin yrði mæld. Það er ekkert annað en kúgun við þá menn, sem hafa brýna þörf fyrir vinnu, að neyða þá til að hlíta þeirri mælingu á síld, sem þeir álíta, að sé alls ekki örugg fyrir þá. Í þessu sambandi skiptir það ekki máli, hvor aðferðin er betri, heldur, hvora aðferðina sjómennirnir álíta öruggari fyrir sig. Það er kúgunaraðferð að segja við fátæka sjómenn, að þeir fái ekki atvinnu nema þeir gangist undir lög, sem þeir eru óánægðir með og vita, að koma ranglega niður á þeim.

Í þessu svari hans liggur líka það, að verksmiðjan muni ekki vilja hlýðnast þeim lögum, sem sett voru 1930 um vigt á síld, og að hann ætlar sér ekki að fara eftir óskum annara aðilja í þessu máli. Þar sem þessu hefir nú verið lýst yfir, þá verður Alþ. að fella burt þessa heimild, ef það álítur, að nauðsynlegt sé að láta að óskum þeirra manna, sem vilja láta vega síldina, en ekki mæla.