11.03.1932
Neðri deild: 26. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (2870)

87. mál, innflutningur á kartöflum o. fl.

Björn Kristjánsson:

Það er auðséð, að þm. þykir ekki skemmtilegt að hlusta á þessar kartöfluumr., því að nú eru flestir stólar orðnir auðir í salnum. Ég skal því ekki verða langorður, en vil aðeins gera stutta aths.

Ég er hv. flm. (landbn.) þessa frv. sammála um nauðsyn þess að auka og efla atvinnuvegina í landinu, og get því fylgt þessu frv. í aðalatriðum, þótt ég sé ekki að öllu leyti ánægður með það, t. d. ekki innflutningsbannið. Það er neyðarúrræði, að banna innflutning á kartöflum, en þó líklega nauðsynlegt til þess að tryggja sölu innlendra kartaflna.

Ég lít svo á þetta frv., sérstaklega 4. gr., að þar sé sama sem ákveðinn styrkur til kartöfluframleiðenda. Þetta get ég fallizt á sem neyðarúrræði, en þó því aðeins, að það ekki komi fram sem skattur á kartöfluneytendur. Andstæðingar frv. hafa leitt rök að því, og um það er ég sammala, að kartöflur hljóta að hækka í verði við innflutningsbannið. Og ég tala um þetta af nokkurri reynslu. Það var síðastliðið sumar, þegar ég var staddur hér syðra, að ég var að reyna að útvega sölutilboð hér sunnanlands um innlendar kartöflur fyrir kaupfélagið, sem ég vinn fyrir. Ég vildi heldur útvega innlenda framleiðslu, af því að ég sá eftir þeim gjaldeyri, sem færi út úr landinu fyrir þessa voru. Svörin, sem ég fékk, syndu, að verðið á innlendum kartöflum, komnum á hafnir úti um land, var töluvert hærra en hægt var að fá kartöflur fyrir frá útlöndum. Þess vegna get ég ekki falizt á ástæður hv. frsm. n. og hv. 2. þm. Skagf. — já, mér liggur við að segja staðhæfingar þeirra um, að verðið muni ekki hækka. Í Reykjavík er reyndar líklegt, að verðið mundi ekki hækka, að minnsta kosti ekki mikið, því að hingað er ekki um neina sjóflutninga að ræða milli hafna. Ég held, að það sé of mikið úr því gert, að lítið mundi berast hér að af kartöflum; ég geri ráð fyrir, að það yrði nægilegt, svo að ekki þyrfti að flytja kartöflur að langa vegu. En þetta horfir allt öðruvísi við fyrir ýms héruð úti um land. þau þurfa að flytja kartöflurnar á sjó, og þá má verðið ekki vera svo hátt her, að þær, að viðbættu flutningsgjaldinu, verði dýrari, komnar út á land, en útlendar kartöflur, ef fullt réttlæti á að nást.

Aths., sem ég vil gera við frv., ég er skilyrði fyrir, að ég greiði því atkv., er sú, að í stað þess, að í 4. gr. er nú svo ákveðið, að ríkisstj. hafi heimild til að greiða helming flutningsgjaldsins, verði því breytt þannig, að ríkisstj. hafi heimild til að greiða allt flutningsgjaldið. Ég ætlast þó til, að til þessarar heimildar yrði ekki gripið, nema því aðeins, að þess þyrfti við til að jafna verðið milli útlendra og innlendra kartaflna. Að því leyti vil ég, að það sé heimild til, að þessar ívilnanir verði veittar, en annars fellu þær niður.

Ég ætlaði að bera fram brtt. um þetta, en varð of seinn með hana við þessa umr., en mun koma með hana við 3. umr. Verði hún felld, þá sé ég mér ekki fært að greiða atkv. með frv. óbreyttu. Ég álít, að þá sé gengið á rétt minna kjósenda, sem búa í nyrzta héraði landsins, þar sem ekki er hægt að rækta kartöflur sökum óblíðrar veðráttu.

Það var nokkuð minnzt á þennan flutningsstyrk við 1. umr. Sumir álitu, að hann mundi verða illfinnanlegur fyrir ríkissjóðinn. En ég held, að þeir hafi ekki fært næg rök fyrir því. Nú er það svo, að skip ríkisins sigla sínar áætlunarferðir kringum landið, og á seinni misserum hafa þau siglt hálftóm eða nærri tóm af vorum. Miðað við þetta væri það ekki tilfinnanlegt fyrir ríkissjóðinn, þótt þau misstu flutningsgjald fyrir þessa voru, sem annars yrði ekki flutt með þeim hvort sem væri.

Ég hefi athugað skýrslu, sem birtist eftir Sigurð Sigurðsson búnaðarmálastjóra í tímaritinu „Frey“, um kartöfluneyzlu landsmanna, og mig minnir, að hann segi, að það muni vanta 1280 tonn af kartöflum, til þess að innlend framleiðsla af þeim fullnægi þörfum landsmanna (PO: Það eru 20 þús. tunnur). Nú, það eru þá 2000 tonn, og mig minnir, að flutningsgjaldið sé 20 kr. á tonn. Ef það er rétt, þá yrði það, sem ríkissjóður þyrfti að greiða, ekki nema 40 þús. kr. í mesta lagi. Og það álít ég ekki svo tilfinnanlegt, par sem hér er heldur ekki um raunveruleg útgjöld að ræða.

Ég vil óska, að hv. landbn. sjái sér fært að taka upp og bera fram þessa till. mína, því að undir því, að hún nái fram að ganga, er fylgi mitt við frv. komið. Verði hún felld, mun ég greiða atkv. á móti því óbreyttu. Ég mundi þá heldur greiða atkv. með brtt. hv. 2. þm. Reykv., þótt ég sé ekki fyllilega ánægður með þær. Ég held, að hv. landbn. ætti að fallast á brtt. mína því að það er engan veginn lítilsvert fyrir landbúnaðinn, að frv. nái fram að ganga. En ef lögin verða til þess, að kartöflur hækka í verði, þá verða þau óvinsæl, og verða þá fljótlega afnumin, og koma þá ekki landbúnaðinum að neinu gagni.

Þá vildi ég minnast á brtt. frá hv. 2. þm. Rang., um að ríkið greiði flutningsgjöld á kartöflum þaðan úr sýslu. Ég get ekki greitt atkv. með henni, ekki af því, að ástæðulaust sé að styrkja bændurna á Suðurlandsundirlendinu til þessarar framleiðslu, heldur af því, að þau framlög yrðu svo há, enda væri þá varla fært að neita öðrum héruðum um samskonar ívilnanir. En þessi landshluti er svo settur, að það getur varla verið um kartöfluútflutning að ræða þaðan, nema breytt flutningaskilyrði komi til. Ég mun því ekki geta greitt atkv. með þeirri brtt. Ég veit að vísu, að þarna eystra eru ágæt skilyrði fyrir kartöflurækt, en flutningsgjöld þaðan nema svo háum upphæðum, að það getur varla verið um þann styrk að ræða. Auk þess er það svo, að þeir, sem búa í þessum ágætu héruðum, og landsmenn yfirleitt, verða að njóta þess og gjalda, hvar þeir eru búsettir — njóta kostanna, sem þau héruð hafa að bjóða, sem þeir búa í, og þá náttúrlega líka sætta sig við annmarkana.

Ég vil að lokum aðeins endurtaka það við hv. landbn., hvort hún sjái sér ekki fært að taka upp till. mína, þar sem hún kostar ekki bein útgjöld fyrir ríkissjóðinn, heldur aðeins skiprúm, sem annars mundi verða ónotað.