30.03.1932
Efri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (2967)

128. mál, verðtollur af tóbaksvörum

Jón Baldvinsson:

Út af þeim ummælum, sem nú hafa síðast komið fram um það, hvort einkasala sé heppilegasta fyrirkomulagið til að afla ríkissjóði tekna, vil ég taka það fram, að þar er ég sammála hæstv. fjmrh. Hv. 1. þm. Reykv. heldur aftur á móti því gagnstæða fram, að frjáls samkeppni sé bezta fyrirkomulagið. Af skýrslum, sem gerðar hafa verið um þetta, er það sjáanlegt, að neyzla tóbaks fer alltaf eftir árferði, hvort sem einkasala hefir verið eða ekki. Árið 1923 og fyrri hluta ársins 1924 voru mjög léleg í atvinnulegu tilliti. Menn höfðu þá almennt litlu úr að spila, enda var neyzla tóbaks þá minni en síðari hluta ársins 1924 og árið 1925, sem voru ágæt atvinnuár.

Það er sannað í þskj. frá fyrri árum, þegar gamla tóbakseinkasalan var á ferðinn, að ýmsar aðrar vörur, sem ónauðsynlegar kallast, hafa hlítt sömu forlögum, mikið keypt af þeim í góðu árunum, lítið þegar harðnaði í ári. (JakM: Það er öðru máli að gegna með tóbakið.). Ég hefi safnað skýrslum um ýmsar slíkar vörur, svo sem súkkulaði og konfekt, og þar hefir það alltaf sýnt sig, að þær eru keyptar mikið eða lítið eftir því, hvað mikil peningaráð menn hafa almennt, og lúta þar alveg sömu lögum og tóbakið.

Hv. þm. heldur því fram, að meira sé smyglað undir einkasölufyrirkomulagi, en það hafa ekki komið fram neinar sannanir fyrir því. Ég held, að það sé talsvert mikið smyglað, hvort sem einkasalan er eða ekki. Það er alltaf hætt við, að smyglun eigi sér stað í afskekktum þorpum, þar sem lítil eða engin tollgæzla er. Til þess er jafnmikil tilhneiging, hvort sem einkasala er eða ekki, en smyglunin tekst bara síður, ef einkasala er, því að hún hefir betri tök á að merkja vörurnar vel, og þá er erfiðara að koma smygluðum vörum að. Einkasalan hefir alltaf meira „kontrol“ á öllu heldur en hægt er að hafa, ef verzlunin er frjáls. Þessar almennu aths. hv. 1. þm. Reykv. á móti einkasölunni eru því að mínu áliti ekki á rökum reistar.

Ég vil svo að endingu taka það skýrt fram, að ég er ósammála hæstv. fjmrh. um að leggja þennan toll á. Ég tel það brigðmælgi af Framsóknarfl. að koma með frv., þar sem gert er ráð fyrir, að tekjum tóbakseinkasölunnar skuli varið öðruvísi en ákveðið var á síðasta þingi.