26.04.1932
Efri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (3027)

56. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Bjarni Snæbjörnsson:

Það er aðeins örstutt aths. viðvíkjandi viðhaldi beggja veganna. Vegamálastjóri segir, að gamli vegurinn muni ekki verða notaður neitt, þegar nýi vegurinn sé kominn, nema vegna þeirra bæja, er fram með honum liggja, og verði þá viðhaldið alveg hverfandi lítið. En nú hin síðari ár hefir viðhaldið kostað 15 þús. kr. árlega. Þetta sýnir, að þörf er á góðu slitlagi. (PH: Vegurinn hefir líka mikið batnað). Hann hefir lítið batnað. Viðhaldið hefir verið líkt og þegar verið er að halda við moldarkofum. Það er verið að skjóta í þau sprekum og moldarhnausum. Þau verða kannske betur útlítandi í bili, en ekkert betri hús en þau voru áður.

Hv. frsm. sagðist ekki skilja, að þetta yrði til sparnaðar, að leggja nýjan veg, þar sem vegamálastjóri gerir ráð fyrir því, að hann verði allt að 1/4 millj. kr. dýrari. En það er af því, að leggja nýja veginn, þegar hann gerir samanburð sinn. Þá gleymir hann því, að hann áleit áður í skýrslu sinni, að nauðsyn bæri til að leggja þennan nýja veg og hvað heppilegast sé í framtíðinni, af því hann er á móti þessu máli. Ég segi líka, að mér finnst það vera alveg augljóst mál, að ef þarna verður gerður malbikaður vegur, verður nýja leiðin valin, af því menn munu sjá, að það verður til hagnaðar.