28.04.1932
Efri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (3059)

498. mál, tala starfsmanna við starfrækslugreinir og stofnanir ríkisins

Frsm. (Jón Þorláksson):

Hv. 3. landsk. gat þess, að fjvn. fengju skýrslur um starfsmannahald ríkisstofnana. Þetta er rétt. En þessar skýrslur sýna einungis, hvert starfsmannahaldið hefir verið, og í einstöku tilfellum, hvað það er. Þær binda ekki hendur neins að því er snertir starfsmannahaldið 1933. En að skýrslurnar eru til, staðfestir það, sem ég hefi haldið fram, að það sé auðvelt verk að búa til frv. um þetta efni.

Hv. þm. sagðist ekki hafa trú á, að þetta frv. yrði sæmilega undirbúið nú mitt í þingönnunum. Ég skil þetta vel frá sjónarmiði hv. meiri hl. n., því það er sameiginleg viðbára hjá þeim samnm. mínum, að þeir séu svo hlaðnir störfum, að þeir hafi lítinn tíma afgangs til að sinna verkefni ríkisgjaldanefndar. En ég hefi lítið að gera. Þetta er því ekki gild afsökun í mínum augum. Ég hygg líka, að það hljóti að finnast einhverjir menn, sem ekki eru svo háðir þingönnum, að þeir geti búið frv. þetta í hendur hæstv. fjmrh. á ekki mörgum dögum, og hann ætti að geta fundið einhverja stund til að yfirlíta það.

En ég verð að játa, að eftir undirtektum hæstv. fjmrh., sem gaf von um, að stj. mundi á næsta reglulegu þingi leggja fram slíkt frv. fyrir síðari hluta árs 1933, þá munar þetta ekki afskaplega miklu. Ég vil viðurkenna þessar undirtektir hans; hann fer þar bil beggja, þar sem ég tel rétt að láta frv. ná yfir allt árið 1933, en hv. meiri hl. vill láta þetta fyrst koma til greina árið 1934.

Hæstv. fjmrh. hafði þau ummæli, að með þeim undirbúningi, sem slíkt frv. gæti nú fengið, mundi það ekki verða mikið aðhald að stj. umfram það, sem í fjárl. felst, og hann sagði í þessu sambandi, að fjvn. gætu haft athugun á þessu starfsmannahaldi. En eitt af því, sem sérstaklega kallar eftir þessu frv., er það, að undanfarið hefir hæstv. stj. ekki bundið sig nægilega við það, sem gert er ráð fyrir í fjárl. Dæmi þess, að stj. hafi þannig farið út fyrir það, sem leyfilegt er, er það, að þótt skjalfest sé í nál. fjvn., til hvaða símalagninga fé skuli verja, þá hefir því verið varið til síma allt annarsstaðar. Það er ekki hægt að taka fram fyrir hendur slíkrar stj. nema með beinum lagafyrirmælum, og ég hygg, að það eigi eins við um starfsmannahald sem annað.

Ég vil taka undir það, sem hæstv. fjmrh. sagði um erfiðleikana á því að ákveða starfsmannahald ríkisins heilu ári áður en frv. gengur í gildi. En það stendur aftur í sambandi við hið stóra mál, sem hæstv. ráðh. hefir nú nokkrum sinnum minnzt á og ég minntist á áður fyrri, að það er allsendis óhæfa að haga þinghaldinu þannig, að þingið verður að afgr. fjárl. nær ári áður en þau eiga að koma til framkvæmda. Ég vil nú beina þeirri áskorun til hans að láta hér ekki sitja við orðin tóm, heldur kippa þessu í lag, annaðhvort með því að færa þinghaldið eða breyta fjárhagsárinu. Ég hefi heyrt það, að þm. þætti það ekki hentugt vegna atvinnu sinnar að færa þinghaldið. En ég lít svo á, að þm. séu skyldir að láta eigin hagsmuni sína víkja fyrir þingstörfunum, og met því þessa viðbáru að engu. En sem sagt, það má eins fara þá leið að breyta fjárhagsárinu. Ég álít, að annaðhvort verði að gera, og það mundi gleðja mig, ef þessi till. skyldi hjálpa til að knýja það mál fram.

En hitt vil ég taka fram, þótt ég hafi að vísu ekki fengið beint tilefni til þess, að til þess að þessi löggjöf um starfsmannahaldið nái tilgangi sínum, þá verður hún að fylgja fjárhagsárinu. Ef ekki verður tími til að afgr. þessi lög nú, þá má að vísu láta frv., sem samþ. verður á næsta þingi, ná yfir hálft annað ár. En það má ekki taka fordæmi af því eftirleiðis.

Að öðru leyti er ég hæstv. ráðh. þakklátur fyrir góðar undirtektir.