26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (3082)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Pétur Ottesen:

Þegar þetta mál hefir áður verið til umr. Hér á þingi, hafa þau orð stundum verið látin falla, að það væri ekki af miklum heilindum flutt, a. m. k. að því er snertir suma flm. þess. Ég minnist þess, að hv. 1. þm. Rang. hefir valið flm. þessa máls mjög háðuleg orð fyrir þá léttúð, óeinlægni, fals og hræsni, sem kæmi fram hjá heim við flutning þessa máls. Ég verð að segja, að eftir því sem fram hefir komið hér í dag, virðist, að lítil framför hafi orðið hjá flm. þessa máls frá því, sem áður var, þegar hv. 1. þm. Rang. var að gefa þessa lýsingu á þeim. Einn af flm. þessa frv., sem er jafnframt frsm. meiri hl. n., gat ekki látið vera að glepsa í hv. þdm. að ástæðulausu út af því einu, að hér hafa komið fram till., sem bera frekar vott um velvild en andúð gagnvart þessu máli. Þetta ber ekki vott um mikil heilindi hjá hv. frsm., því að hann gerir þetta vitandi vits um það, að slík framkoma er frekar til að spilla fyrir málinu og tefja framgang þess heldur en að greiða götu þess.

Þær brtt., sem ég hefi flutt við þetta frv., eru þær einar, að sú almenna heimild til að koma á skólum með þessu fyrirkomulagi skuli takmarkast við Rangárvallasýslu eina. Ástæðan til þessara brtt. er sú, að ég vil fyrir mitt leyti stuðla að því, að gefinn sé kostur á því, að þetta fyrirkomulag verði reynt á einhverjum stað. Og hvar ætti það frekar að verða gert heldur en í Rangárvallasýslu? Eins og kunnugt er, er málið sprottið upp þar. Höfundur þess er Björgvin Vigfússon, sýslumaður Rangæinga. Hann hefir einlægan áhuga á þessu máli, og sýnist því réttast, að þessari hugmynd verði komið fram einmitt þar. Þess vegna álít ég, að með þessum brtt. sé ég að vinna málinu gagn, en ekki ógagn.

Ég ætla, að þetta frv. hafi fyrst verið borið fram á þingi árið 1929. Eins og hv. þm. S.-Þ. hefir minnzt á, hafði áður komið fram á þingi erindi um málið, en í frumvarpsformi var það ekki borið fram fyrr en á þinginu 1929 og fylgdi því þá alllöng grg. samin af sýslunefnd Rangárvallasýslu, og auk sýslunefndarinnar eru þar tilgreindir nokkrir aðrir menn, sem stóðu að þessu frv., og var þar efstur á blaði hv. frsm. meiri hl. menntmn. og þar að auki nokkrir aðrir menn. Málið er þannig fætt og uppalið í Rangárvallasýslu, en ekki er kunnugt um, að ein einasta sýsla önnur eða nokkurt bæjarfélag hafi óskað eftir að taka þessa hugmynd upp, því að eins og hv. þm. S.-Þ. tók réttilega fram, þá stefnir þróun héraðs- og alþýðuskólanna í allt aðra átt, og hefir það líka sýnt sig í löggjöf um lýðskóla í sveitum og kaupstöðum, sem var afgr. frá Alþingi nú fyrir fáum árum.

Það liggur því beint fyrir, að Alþingi svari þessari málaleitun með því að láta að vilja þessa sýslufélags og gefa því heimild til að koma upp skóla hjá sér með þessu fyrirkomulagi, en sé hinsvegar ekki að troða upp á önnur sýslu- og bæjarfélög slíkri heimild, sem þau alls ekki óska eftir. Með því að bera fram brtt. mínar, hefi ég gert málinu þann mesta greiða, sem því hefir verið gerður, og farið þá einu leið, sem fær er til að koma málinu í höfn. Og það er því meiri ástæða til að veita Rangárvallasýslu þessa heimild fyrir það, að í þessari sýslu er enginn skóli kominn enn, og geta sýslubúar því beitt öllum sínum krafti og áhuga að því að byggja upp sína alþýðumenntun á þessum grundvelli.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um hin almennu atriði þessa máls, en ég ætla, að ég hafi nú svarað þeirri spurningu, sem hv. frsm. meiri hl. varpaði fram, hvort það væri ekki prentvilla í brtt. mínum, að þar stendur Rangárvallasýsla, en ekki Borgarfjarðarsýsla. Ég vona, að honum hafi nú skilizt, að það var Rangárvallasýsla, en ekki Borgarfjarðarsýsla, sem ég ætla þarna að verða að liði. Það er öllum kunnugt, í hvaða horf Borgfirðingar hafa nú komið sínum skólamálum, og mér er ekki kunnugt um, að þar hafi komið fram óskir um að breyta þeim málum í það horf, sem hér um ræðir.

Hv. þm. fitjaði upp á umr. og viðskiptum, sem urðu hér milli okkar um frv. til laga um innflutning á kartöflum. Þótti honum ég með minni framkomu þar ekki vera sem greiðviknastur og sanngjarnastur í garð Rangæinga. Þetta er byggt á hinum mesta misskilningi, eins og ég oft og mörgum sinnum hefi leitazt við að sannfæra hv. frsm. um. Það var hann, sem var með sinni framkomu í því máli að vinna bæði Rangæingum og öðrum kartöfluframleiðendum hér á landi hið mesta ógagn með því að verða til þess að fella þetta frv., sem for fram á það eitt að tryggja íslenzkum kartöfluframleiðendum markað þann, sem til er í landinu sjálfu, eingöngu á þeim tíma, sem nóg er til í landinu af þessari vöru. Með því að leggjast á móti þessu frv. lagði hann stein í götu þess, að við næðum sem fyrst því marki, sem okkur er nauðsynlegt að keppa að í þessu efni, en það er að verða sjálfum okkur nógir með framleiðslu á þessari nauðsynjavöru. Hv. 2. þm. Rang. og aðrir mótgangsmenn þessa frv. unnu þarna íslenzkum landbúnaði mjög óþarft verk, enda varð hv. þm. að verja allri dymbilvikunni, og nokkru meira þó, til að forlíka þetta við kjósendur sína austur í Rangárvallasýslu, og var það ekki nema að vonum. Ég vona því, að sú áminning, sem hann fékk fyrir framkomu sína í þessu máli austur þar, eins og hann átti skilið, verði til þess að leiða hann hér á rétta götu, svo að hann standi í því máli þeim megin, sem betur gegnir, þegar það mál verður tekið upp á næsta þingi. Ég veit, að það á tæplega við að tala um kartöflur í sambandi við þetta mál, en vegna orða hv. þm. komst ég ekki hjá því, og mun ég framvegis sýna óbreytandi elju í að uppræta þennan skaðlega hugsunarhátt hans og spara í engu tíma og erfiði til að búa hann undir það að snúast skynsamlegar við þessu máli síðar meir.

Að endingu vil ég svo segja það, að ef meðhaldsmenn þessa frv. fella brtt. mínar, þá eru þeir visvítandi að eyðileggja þetta áhugamál sitt, því að mínar till. eru það eina, sem líkindi eru til að geti bjargað þessu máli, því að þær gefa þessu sýslufélagi, sem eitt hefir áhuga fyrir þessu máli, svo að kunnugt sé, heimild til að koma því í framkvæmd, og mér þykir það í meira lagi undarlegt, ef hv. 2. þm. Rang. þykir Rangæingum ekki fullur sómi sýndur í þeirri afgreiðslu málsins. Hv. flm. hljóta því að samþ. brtt. mínar, ef allur flutningur þessa máls er ekki eintómur leikaraskapur. Brtt. mínar eru því fullkominn prófsteinn á þessa hv. þm., hvort þeim er alvara með þetta mál, og fer vel á því, að þeirra sanna innræti komi þar í ljós, og að till. mínar verði þannig til að afhjúpa þetta líkneski, sem við höfum verið að horfast í augu við á undanförnum þingum.