17.03.1932
Efri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (3145)

159. mál, framfærslulög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það er eins með þetta frv. og mörg önnur, sem þingið hefir nú til meðferðar, að það hefir sezt á Alþingi fyrr. Þess vegna þarf ég ekki að þessu sinni langar útskýringar eða formála, þar sem hv. þdm. er málið vel kunnugt frá því á fyrri þingum. Þetta er í þriðja skiptið samfleytt, sem ég hefi flutt þetta frv., og það sýnir bezt þörfina á því að breyta fátækral., að nú eru ekki færri en þrjú frv. samtímis í þinginu, sem fjalla um slíkar breyt. á fátækralöggjöfinni, að vísu eftir mismunandi sjónarmiðum. Frv., sem gengur í sömu átt og þetta, er nú til meðferðar í Nd. Þetta frv. er shlj. frv., sem vísað var til n. á þinginu í sumar, að öðru leyti en því, að nú geta bæjar- og sveitarfélög talið með framfærsluútgjöldum það fé, sem veitt er til atvinnubóta og annara ráðstafana, til að forða mönnum frá sveit. Vitanlega getur slíkt orkað nokkurra tvímæla í framkvæmdinni, en það er ekkert efamál, að atvinnubótafé sveitarfélaga og bæja er beinlínis greitt til þess að draga úr fátækrakostnaðinum; það væri rangt að telja þetta fé ekki með, enda gætu sveitarfélögin farið kringum það að öðrum kosti og tilfært slíkar fjárveitingar beint sem fátækrakostnað. Þess vegna er það miklu einfaldara og hentugra fyrirkomulag, sem hér er stungið upp a. Sama er að segja um sjúkrastyrki; það er fé, sem annars færi út úr sveitarsjóðunum beint sem fátækrahjálp að mestu leyti. Að öðru leyti en þessu eina atriði er frv. með öllu óbreytt, og get ég því látið nægja að vísa til aths. og umr. fyrr og síðar um þetta mál, en þó vil ég bæta því við, að þörfin fyrir endurskoðun fátækralöggjafarinnar hefir aldrei verið brynni en nú, því að ég fullyrði, að viðskipti sveitarfélaganna innbyrðis eru nú komin í það öngþveiti, að nú verður úr að skera.

Reikningar sveitarfélaganna sýna, að viðskipti milli þeirra eru orðin örðug og fastar fátækraskuldir sumra þeirra nema tugum þúsunda, og mörg sveitarfélög hafa út af þessum sökum leitað til ríkisins um hjálp.

Að lokinni þessari umr. vænti ég þess, að frv. verði vísað til n., sem að venju yrði þá allshn. Vil ég mega vænta þar rækilegrar athugunar máli þessu til handa og að n. afgreiði það svo tímanlega, að það megi lúkast á þessu þingi. Ég vil taka það sérstaklega fram, að það getur vel verið, að n. sú í Nd., sem hefir samskonar frv. til athugunar, þurfi að hafa samstarf við Ed.-nefndina, og vil ég skora á hv. n. þessarar d. að taka frumkvæði að því, því að ella gæti vel farið svo, að málið biði í nefndum allt til þinglausna, vegna þess að hvor n. um sig ætlaði hinni að afgreiða málið og losna þannig sjálf við það.