09.05.1932
Neðri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (3175)

263. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Frsm. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Þetta mun vera í 3. eða 4. sinn, sem flutt er hér á þingi frv. um að stytta lögákveðinn friðunartíma fyrir dragnótaveiði. — Málið hefir verið sótt og varið og af miklu kappi frá báðum hliðum, og býst ég þess vegna ekki við að þurfa að fara mörgum orðum um það, því hv. þm. munu vera þær umr. í svo fersku minni, að ekki þurfi að lengja þær mikið að þessu sinni. Þeir hv. þm., sem vilja stytta friðunartímann, halda því fram, að hér sé um hagsmunamál að ræða fyrir sjómennina og jafnframt, að þessi dragnótaveiði sé skaðlaus eða skaðlítil fyrir þá, sem aðrar fiskiveiðar stunda. Í þessu efni bera þeir fyrir sig fiskifræðingana Árna Friðriksson og Bjarna Sæmundsson. En nú hafa fjöldamargir sjómenn úti um land sent þinginu áskoranir, sem eru í þá átt, að þessi veiðiaðferð stórspilli öðrum fiskveiðum. Nú býst ég við, að fiskifræðingurinn hafi rétt fyrir sér að vissu leyti og að þessi veiði spilli ekki botninum. En þar með er ekki sagt, að hún geti ekki spillt öðrum fiskveiðum, þegar dragnótaveiði er stunduð á sama tíma sem vertíðin stendur yfir á þessum hlutaðeigandi flóum. Þess vegna get ég skilið, að við Faxaflóa, þar sem veiðin mun vera stunduð að mestu leyti á sumrin, ef þetta frv. verður samþ., sé hún kannske ekki eins skaðleg fyrir fiskveiðar að öðru leyti eins og við Norðurland, þar sem veiðin er stunduð einungis á þeim tíma, sem vertíðin stendur yfir, en það eru sumarmánuðirnir. Úr mínu héraði, sérstaklega frá þeim sveitum, sem liggja að Þistilfirði og Skjálfandaflóa, hafa komið fjöldamargar fundargerðir og símskeyti frá sjómönnum, þar sem þeir halda fram eftir sinni reynslu, að hvenær sem dönsku veiðiskipin hafi verið þar að dragnótaveiði, hverfi annar fiskur af þeim slóðum. Ég get hugsað mér, að þetta þurfi ekki að reka sig á kenningar fiskifræðingsins, því þó veiðin spilli ekki botninum, þá getur hún þó fælt burt fiskinn. Það er sérstaklega í Þórshöfn, sem hafa komið ljós dæmi um þetta frá reynslu sjómanna, sem ómögulegt er að véfengja, því enda þótt ég vilji sízt gera lítið úr vísindaþekkingu fiskifræðingsins, þá verð ég samt að trúa betur staðreyndum. Þegar lítið er á þessar umsagnir sjómanna frá mínu héraði, þá þarf ekki að þykja undarlegt, þó ég geti ekki fylgt þessu frv. um að lengja veiðitímann. Ég er ekki sjómaður og hefi aldrei verið það, en ég lenti einu sinni af tilviljun um borð í dönsku dragnótaveiðiskipi, sem var á veiðum í Öxarfirði. Meðan ég var um borð voru teknir upp nokkuð margir drættir. Þegar varpan kom upp að skipshliðinni, kom í ljós, að hún var hálffull af sandi. Var hún þá látin stiga upp og niður á víxl til þess að þvo úr henni sandleðjuna, en það tókst ekki nema að nokkru leyti, og þegar loks var hvolft úr henni á þilfari skipsins, var mikill sandur innan um fiskinn og varð að margmoka þessu til á þilfarinu þangað til hægt var að tína úr þann fisk, sem nothæfur þótti. Þar ægði öllu saman. Þarna var koli af öllum vaxtarstigum, frá örlitlum seiðum og upp í stóra kola, og aðrar fisktegundir, ýsa og þorskur, og öllu var kastað út, nema stærri skarkolanum. Í þetta skipti hefir ekki komið eitt einasta kvikindi lifandi í sjóinn aftur. Þessi reynsla mín kemur því í bága við það álit fiskifræðingsins, að allt, sem ekki er hagnýtt af veiðinni, lifi og þroskist áfram í sjónum aftur. Ég álít því, að þessi veiði sé ekki eins hættulaus fyrir kolann eins og af er látið, og því síður fyrir aðrar fisktegundir. Þetta styrkir mig einnig í þeirri trú, að sjómenn hafi að miklu leyti rétt fyrir sér, þegar þeir halda fram, að dragnótaveiðin sé til stórskaða fyrir þeirra veiði. Þrátt fyrir þetta var ég í sumar nokkuð á báðum áttum, þegar þetta mál var til umr., hvort rétt væri að standa móti því, að veiðitíminn væri lengdur, ef þetta væri virkilega svo mikið hagsmunamál fyrir sjómenn eins og af var látið. En síðan hefi ég fengið meiri kunnugleika á því, hvernig dragnótaveiðin hefir heppnazt, og þær fregnir, sem ég hefi af þeim fengið, henda alls ekki í þá átt, að þetta sé eins mikið hagsmunamál fyrir sjómennina eins og af er látið. Hv. 1. þm. S.-M. minntist á dragnótaveiðar Austfirðinga í sambandi við annað mál og gat þess, að þær hefðu orðið til skaða fyrir Fisksölusamlag Austfjarða, þannig, að útgerðarmenn hefðu keypt mikið af þessum veiðarfærum, sem svo var ekki hægt að nota. Sjómennirnir héldu, að það væri mikil gullnáma að fást við þessar dragnótaveiðar og ákváðu að panta þessi veiðarfæri fyrir 50 þús. kr., og þetta samlag gekkst fyrir þessum pöntunum. Var svo byrjað á þessari veiði á nokkrum bátum, en sama og ekkert aflaðist. En fyrir bragðið fór svo, að fiskimenn, sem stunduðu þorskveiðar á línu, fengu ekki einn eyri fyrir sinn kælda fisk, því verðið liggur bundið í þessum ónotuðu veiðarfærum. Auk þess stórskaðaðist fisksölusamlagið óbeinlínis á þessu dragnótabrölti. Það varð að borga ákveðna mánaðarleigu fyrir flutningaskipin, en vegna þess að margir bátar voru bundnir við dragnótaveiðarnar, barst minni fiskur á land, svo að miklu seinna gekk að fá fullfermi í skipin, og af því leiddi, að flutningsgjaldið varð miklu hærra en ella hefði þurft að vera. Ég hefi heyrt, að 1930 hafi gengið tveir bátar frá Vestmannaeyjum fyrir austan og öfluðu vel. En í sumar komu 10 bátar þaðan og enginn aflaði neitt teljandi. Á Húsavík varð niðurstaðan sama. Þar aflaðist lítið og kolinn var smár og fékkst lítið fyrir hann. Á Vestfjörðum var þetta einnig reynt síðastl. sumar og niðurstaðan varð hin sama, lítil veiði og minna verð en búizt var við. Virðist því ekki, að hér sé um eins mikla gullnámu að ræða og ætla mætti eftir umr. á sumarþinginu. Á Öxarfirði stunduðu einnig tveir bátar, annar frá Keflavík, en hinn frá Vestmannaeyjum, þessar veiðar. Þeir öfluðu að vísu dálítið, en þó mun óhætt að fullyrða, að þeir hafi lítið eða ekkert haft upp úr veiðunum fram yfir útgerðarkostnað.

Á sumarþinginu var sagt, að verð á skarkola væri fast að 1 kr. tvípundið. Þetta munu þó hafa verið allmiklar ýkjur, því að í sumar var verðið ekki nema 30 aurar, og stórsköðuðust þó allir kaupendur.

Það hefir verið sagt, að með friðun landhelginnar værum við að ala upp kolann fyrir Englendinga. En ef kolaveiðarnar væru eins arðsamar fyrir oss og sumir láta í veðri vaka, mætti það vera einkennilegt, hve lítið Íslendingar hafa gefið sig að þeim, jafnmikinn dugnað og fiskimenn vorir, og þá einkum togarafiskimenn, sýna annars. Það er sagt, að við veiðum ekki nema 1/10 af kola á móts við það, sem Englendingar veiða hér við land, og skýringin getur varla legið í öðru en því, að þessar veiðar sett okkur svo dýrar, að þær borgi sig ekki. Reynslan mun hafa kennt fiskimönnum vorum, að þorskveiðarnar borgi sig bezt.

Hitt er annað mál, að veiðar þessar geta samt sem áur borgað sig fyrir Dani, sem hafa miklu ódýrara rekstrarfé en við, sleppa við gjöld af veiðunum, sem innlendir menn verða að greiða, svo sem útflutningsgjald o. fl., og hafa þar að auki margfalda æfingu í veiðiaðferðunum.

Ég viðurkenni, að ég er ekki sérfróður í þessum málum, en ég þykist þó hafa fengið góðar og gildar sannanir fyrir því síðan í sumar, að ekki sé rétt að slaka á löggjöfinni um þetta efni. Ég veit, að hv. þm. Borgf., sem er kunnugri þessum málum en ég, leggur mér lið í umr. og þarf því ekki að segja meira að sinni.