09.05.1932
Neðri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (3179)

263. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Frsm. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Hv. frsm. meiri hl. sjútvn. fór vægilega í sakirnar, þegar hann var að andmæla mér, svo ég get verið stuttorður. Hann vildi gera lítið úr minni þekkingu á málinu. Játa ég, að reynsla mín, sem ég lýsti í minni fyrri ræðu, er aðeins byggð á einu dæmi, sem ég var sjónarvottur að, en sú reynsla hefir þó sönnunargildi fyrir mig. Við það tækifæri er ég sannfærður um, að engin skepna hefir komizt lifandi í sjóinn af því, sem kastað var. Hlýt ég því að álíta, að þessi veiðiaðferð sé hvergi nærri eins skaðlaus eins og af er látið.

Um kolaveiðarnar sjálfar er það að segja, að þær snerta ekki beinlínis hagsmuni manna í mínu kjördæmi. En fyrir mér er það aðalatriðið, hvort þessi veiðiaðferð fælir burt annan fisk eða ekki, og svo hitt, hvort þetta sé yfirleitt hagsmunamál fyrir þá, sem vilja stunda dragnótaveiðar.

Ég held því fram, að dragnótin fæli burt fiskinn frá þeim stöðum, sem hún er notuð og að veiðaðferðin sé síður en svo líkleg til að gefa mikinn arð. Hvorugu þessu hefir verið andmælt með skýrum rökum.

Fjöldi sjómanna á Norður- og Austurlandi fullyrðir, að fiskur hafi alltaf horfið, þegar dönsk dragnótaskip hafa verið að verki. Og þegar verið er að tala um, að eitthvað þurfi að gera til þess að bjarga mönnum frá hungursneyð, þá ber ekki aðeins að lita á hag þeirra, sem dragnótaveiðina stunda, heldur líka á það, að þeir, sem lifa á þorskveiðum, séu ekki sviptir tækifæri til að bjarga sér.

Hvað hitt atriðið snertir, að þetta sé sérstakt bjargráð, er það að segja, að reynsla síðustu ára hefir ekki sýnt það. Hefir bæði veiðin verið lítil og verið lagt. Og af reynslu Austfirðinga síðastl. sumar er hægt að benda á það, að tálvonir um gróða af notkun þessa veiðarfæris hafa gert skaða, sem tugum þúsunda nemur. Aftur á móti hefi ég ekki heyrt þess dæmi, að mikið hafi hafzt upp úr veiðinni. Getur það reyndar verið, að svo hafi verið við Faxaflóa og Vestmannaeyjar, en varla annarsstaðar. Reynsla Austfirðinga síðastliðið sumar bendir til þess, að veiðin sé ákaflega fljótt þurrausin á veiðistöðvunum þar. Tveir bátar öfluðu ágætlega 1930, en þegar til koma 20 bátar eða fleiri, þá eru miðin þurrausin á fáum dögum.

Ef til vill getur sá slæmi árangur, sem orðið hefir af notkun dragnóta, að einhverju leyti stafað af æfingar- og kunnáttuleysi okkar sjómanna, og má því vel vera, að seinna meir, þegar við höfum vanizt veiðiaðferðinni, geti hún orðið arðvænleg. En út frá því sjónarmiði sýnist mér einsætt að friða sem mest landhelgina, meðan Danir og Færeyingar, sem standa miklu betur að vígi með að notfæra sér dragnótina, hafa sama rétt eins og við. Má ætla, að þegar sambandslögin falla úr gildi, verði fengin meiri kunnátta, og þá er það tímabært að slaka á friðuninni.

Mér þótti vænt um umsögn hv. þm. N.-Ísf. um reynslu hans, sem kom vel heim við reynslu mína. Hann tók líka greinilega fram, að salan væri erfið og engin féþúfa. Eitt er undarlegt í þessu máli, sem sé það, hvað fáar raddir hafa komið fram um það að slaka á friðuninni. Hefir oft verið bent á það frá Norðurlandi og Austfjörðum, að þörf sé á því að herða á henni, en óskir um tilslakanir hafa fáar eða engar komið fram frá sjómönnum, nema úr Keflavík síðastl. haust. Bendir það til þess, að sjómönnum sé það ekki eins mikið áhugamál að draga úr friðuninni og sumum öðrum. Mér hefir ekki fundizt það tiltökumál, þótt hv. þm. Vestm., sem alltaf hefir verið með því að slaka til á friðuninni, sé því nú enn fylgjandi, en hitt finnst mér undarlegra, að hv. 1. þm. S.-M., sem á næstsíðasta þingi mun hafa greitt atkvæði við nafnakall á móti tilslökuninni, skuli mi hafa snúizt hugur. Ef á annað borð á að slaka til, þá gæti helzt komið til mála sú tillaga hv. meiri hl. sjútvn. að gefa stj. heimild til þess að lengja veiðitímann á sérstökum stöðum. En ég vil þó mæla á móti allri tilslökun, með tilliti til þeirrar reynslu, sem fengizt hefir.