08.04.1932
Efri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í C-deild Alþingistíðinda. (3199)

61. mál, gelding hesta og nauta

Frsm. (Páll Hermannsson):

Hv. þm. Snæf. sagðist leggja lítið upp úr þessu frv. Hann verður auðvitað að hafa sína skoðun um það. Ég játa það, að sem læknir hefir einmitt hann mikinn rétt til þess að tala um þetta frv. Hann taldi því það helzt til lasts, að það gengi of skammt. Ef frv. er svo ákaflega þýðingarlítið, sem hv. þm. vill vera láta, þá sakar það minna, þó það taki ekki til fleiri húsdýraflokka. En að því leyti, sem sérstaklega hefir verð minnzt á lömbin eða sauðfé yfirleitt í þessu sambandi, þá vil ég segja um það, að gelding lamba er nú ekki orðin almenn og miklu fágætari en áður var. En ef um það væri að ræða að fara aftur að taka það upp að ala upp sauði, þá leit landbn. svo á, að svæfing gæti varla komið þar til greina, af því að þá væri orðið um svo marga einstaklinga að ræða, sem þyrftu að ná til svæfingamanna, að það þyrfti að vera á hverju heimili maður, sem með svæfingarmeðul kynni að fara, og það áleit n., að varla gæti komið til mála.

Hv. þm. Snæf. sagði, að sársaukinn við þetta væri fremur lítill á fullorðnum dyrum. Ég er nú ef til vill ekki eins bær um þetta að dæma og hann, þar sem hann er læknir. En ég hygg þó af minni leikmannsþekkingu, að þessu fylgi meiri sársauki á fullorðnum dýrum en ungviði. Hesti t. d., sem geltur er nokkurra ára gamall, álít ég, að sé það meiri sársauki en unglambi.

Hv. þm. hélt fram staðdeyfingu. Ég hefi ekkert vit á því og skal ekki um það deila við hv. þm., en n. leitaði um þetta upplýsinga hjá dýralækninum hér í Reykjavík, og hann taldi það bæði hættulegri og vandasamari aðferð að deyfa en að svæfa.

Að við vildum binda það við dýralækna að leiðbeina mönnum um að fara með svæfingarmeðul, stafaði eingöngu af því, að það er skylda þeirra. En hinsvegar þætti okkur bara vænt um, ef læknar yfirleitt gætu leiðbeint um þetta, því það gæti oft komið sér vel, þar sem hér verður um allmarga menn að ræða, er verk þetta þurfa að vinna.

Hv. þm. taldi það ófært og galla, að framkvæmd laganna dragist frá því, sem ætlað var í frv. Í frv. var gert ráð fyrir, að þau kæmu í gildi um næstu áramót. N. leit svo á, að það væri engin vissa fyrir því, að þá væru til nógu margir menn, sem kynnu þetta, og þá yrði það aðeins til þess, að það yrði að brjóta l., að láta þau ganga svo fljótt í gildi, nema mikil óþægindi hlytust af, sem n. fannst ekki ástæða til. Hitt er náttúrlega álitamál, hvort þetta er ekki óþarflega langur frestur, rúm 2 ár, en mér skilst þó, að það muni ekki velta á miklu, a. m. k. ekki frá sjónarmiði hv. þm. Snæf., ekki meira en honum þykir um þetta mál vert, hvort þetta kemur til framkvæmda árinu fyrr eða síðar; hitt þótti n. velta á meiru, að þegar það kæmi til framkvæmda, þá væru til nógu margir menn, sem kynnu að fara með svæfingarmeðul, svo ekki þyrfti að brjóta lögin.

Með þessu hefi ég í raun og veru svarað hv. 6. landsk. að því leyti, sem ræða hennar var þess eðlis, að hún þurfti svara við.